Nasistar á meðal vor?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

06/07/2000

6. 7. 2000

Ýmsir kirkjunnar menn hafa orðið til að fordæma þá sem hvað harðast hafa gagnrýnt kristnitökuhátíð. Nú er eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir á sambandi ríkis og kirkju og hvort eðlilegt hafi verið að eyða hundruðum milljóna króna í kristnitökuhátíð. Mér þykir það hins vegar með öllu óásættanlegt að vera sakaður af Sigurbirni Einarssyni biskupi […]

Ýmsir kirkjunnar menn hafa orðið til að fordæma þá sem hvað harðast hafa gagnrýnt kristnitökuhátíð. Nú er eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir á sambandi ríkis og kirkju og hvort eðlilegt hafi verið að eyða hundruðum milljóna króna í kristnitökuhátíð. Mér þykir það hins vegar með öllu óásættanlegt að vera sakaður af Sigurbirni Einarssyni biskupi um að líkjast nasistum.

Að kasta steinum úr glerhúsi

Nasistar voru og eru viðbjóðslegar mannverur. Þeir voru og eru einna helst þekktastir fyrir: gyðingahatur*, þjóðernisrembu, hatur á öðrum kynstofnum, hatur á samkynhneigðum, bókabrennur, skoðanalögreglu, ofbeldi og ýmsa aðra fasíska verknaði sem undirritaður hefur andstyggð á. Mér þykir það því meira en lítið gróft að vera sakaður um að líkjast nasistum og krefst ég þess að Sigurbjörn biskup dragi orð sín tafarlaust til baka.

Ég er hins vegar alveg tilbúinn til að taka höndum saman með Sigurbirni og fordæma alla þá sem aðhyllast, það sem mætti kalla, nasísk sjónarmið í okkar samfélagi. Enn í dag er því miður ekki skortur á einstaklingum sem hafa fordóma og hatast út í alla þá sem eru þeim sjálfum frábrugðnir að einhverju leiti. Kristnir eldklerkar hér á landi halda ennþá bókabrennur og eru þeir einnig manna duglegastir við að hatast út í samkynhneigða og hóta þeim og fjölskyldum þeirra vist í helvíti. Ekki hefur biskupum þessa lands þótt tilefni til að koma fram í fjölmiðlum og gagnrýna opinberlega slíkt háttarlag (sjá Hver er opinber afstaða Þjóðkirkjunnar?), háttarlag sem gagnrýnendur kristnitökuhátíðar eru nú óbeint sakaðir um að stunda.

Aðskilnaður ríkis og kirkju er óumflýjanlegur

Við eigum að aðskilja ríki og kirkju eins fljótt og hægt er. Meirihluti þjóðarinnar hefur lengi verið hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju enda verður raunverulegu trúfrelsi ekki komið á hér á landi án aðskilnaðar. Þátttökuleysið á kristnitökuhátíð sýndi að mínu mati áhugaleysi og andúð fólks á ríkisreknum trúarbrögðum. Trú þeirra sem á annað borð trúa einhverju er í flestum tilfellum einlæg og persónuleg en á ekkert skilið við þá skrautsýningu sem ríki og kirkja buðu okkur upp á um síðustu helgi.

* Það er áhugaverð staðreynd að þjóðkirkjan er nefnd eftir hinum mikla gyðingahatara Marteini Lúter. Lúter var á sínum tíma einna þekktastur fyrir ræður sínar og rit um gyðinga (gaf til dæmis út bókina „Um gyðinga og lygar þeirra“). Lúter barðist til dæmis fyrir því að gyðingum yrði meinað með líflátshótunum að iðka trú sína. Hann lagði einnig til að bænahús þeirra yrðu brennd svo eitthvað sé nefnt. Lúter hafði augljós áhrif á erki-nasistann Adolf Hitler enda átti sá vitleysingur það til að vitna í Lúter í áróðursræðum sínum.

Ítarefni:
Marteinn Lúter – siðbótamaður eða siðleysingi? (skodun.is)
Umfjöllun um gyðingahatur Lúters
Umfjöllun um Hitler og áhrif Lúters á hann

Deildu