Fíkniefni og fíkniefnavandinn*

Logo

03/07/2000

Höfundur:

3. 7. 2000

Pétur Óli Jónsson hefur ákveðnar skoðanir á því hvernig bregðast eigi við fíkniefnavandanum. Hann vill meðal annars harðari refsingar og efla forvarnir í gegnum félagasamtök. Nú hafa dómarar fellt úrskurð sinn í stóra fíkniefnamálinu. Sitt sýnist hverjum, mörgum finnst dómarnir of mildir ef eitthvað er. En eftir situr fíkniefnavandamálið. Því sú barátta heldur áfram. Fíkniefni […]

Pétur Óli Jónsson hefur ákveðnar skoðanir á því hvernig bregðast eigi við fíkniefnavandanum. Hann vill meðal annars harðari refsingar og efla forvarnir í gegnum félagasamtök.


Nú hafa dómarar fellt úrskurð sinn í stóra fíkniefnamálinu. Sitt sýnist hverjum, mörgum finnst dómarnir of mildir ef eitthvað er. En eftir situr fíkniefnavandamálið. Því sú barátta heldur áfram. Fíkniefni er eitthvað sem því miður er komið til að vera.

En hvað er til ráða? Hvernig getum við ,,losnað’’ við þennan fjanda.

Áður en ég held áfram vil ég benda á annars ágæta grein, Lögleiðing fíkniefna eftir Sigurð Hólm Gunnarsson, sem birtist á þessari vefsíðu fyrir stuttu. Ég er sammála Sigurði að mörgu leyti. En eins og gengur þá er ég ekki sammála honum að öllu leyti. En umræðan er mikilvæg og eitt er ljóst að við þurfum að fara að gera eitthvað róttækt í málunum.

Því er umræðan mikilvæg, því ekki eru allir sammála um þær leiðir sem velja skal. Í þessum málum þýðir lítið að gera langtímaplön til fárra ára, eins og oft vill verða. Heldur þarf að gera áætlun sem nær a.m.k. til tíu ára, jafnvel lengur.

Harðari refsingar
Ég hef ætíð stutt harðari refsingar. Í mínum huga er það grundvallaratriði að útiloka stórglæpamenn sem mest frá samfélaginu. Það er lágmarkskrafa þeirra sem þó virða lög og reglur, að lifa í glæpalausu samfélagi. Glæpir eru staðreynd. Glæpalaust samfélag mun aldrei verða til. En við verðum að stefna að því, þó með raunhæfum markmiðum.

Ég las grein um daginn eftir Sigurð. Hann telur að harðari refsingar skili litlum árangri. Þessu er ég ósammála. Harðari refsing hlýtur að fæla ákveðinn hóp frá því að fremja glæp. Það er einfaldlega þannig, að mjög stór hópur þeirra sem er að brjóta af sér, eru ekki ,,fæddir’’ glæpamenn. En ég get þó verið sammála Sigurði að þetta leysir ekki vandann. Þetta hjálpar þó mikið til, að mínu viti.

Harðari refsingar virka ekki á alla. Það er ákveðinn hópur manna/kvenna sem mun alltaf brjóta af sér og skeitir engu um refsingar. Þessi hópur er höfuðvandamálið og mun því miður verða vandamál í framtíðinni. En ég er þess fullviss að með harðari refsingum mun mikill árangur nást. Það á að senda skýr skilaboð út í þjóðfélagið. Jafnvel segja sem svo, að sá sem flytur inn ákveðið magn muni hljóta að lágmarki x mörg ár.

Ég er ekki talsmaður lögregluríkis. En ég tel það mikilvægt að tekið sé fastar á glæpamönnum. Einnig er mikilvægt að gera mönnum kleift að snúa aftur út í samfélagið sem nýr og betri einstaklingur. Við eigum að gefa afbrotamönnum möguleika á því að skipta um skoðun og hefja nýtt líf. Þetta er mikilvægt atriði og máski enn mikilvægara ef refsingar verða hertar.

Að leyfa fíkniefni með lögum
Ég er með öllu ósammála lögleiðingu. Í mínum huga er ekkert sem réttlætir að lögleiða fíkniefni. Oft erum við að tala um mjög unga einstaklinga sem fara út í neyslu og ekki bætir úr skák að leyfa þessum ungmennum að neyta ákveðnar tegundir af eiturlyfjum. Ég ætla ekki að ræða lögleiðingu fíkniefna meira, mér finnst það einfaldlega svo fjarri lagi. En ég lýsi jafnframt eftir þeim sem eru sammála lögleiðingu og bið þá um að koma með handbær rök.

Forvarnir
Ef við ætlum að sigrast á fikiefnavandanum þurfa forvarnir að vera í fyrsta sæti. Þó að ég sé hlynntur harðari refsingum. Þá er það til lítils að ætla að herða refsingar ef menn fylgja því ekki með massívum áróðri. Það þarf einnig að auka löggæslu og almennt eftirlit.

En til þess að efla forvarnir, þá þarf ríkið að veita meira fjármagn í þau verkefni sem nauðsynleg eru. Við eigum að gera kröfu á ríkisstjórn hvers tíma að hún setji forvarnir í öndvegi, þegar að fíkniefnum kemur. Það á að vera okkar lágmarkskrafa hverju sinni.

Harðari refsingar eða lögleyðing fíkniefna mun ekki leysa fíkniefnavandann. Harðari refsingar munu einfaldlega halda þeim í skefjum. Ef við getum einhvertímann haft betur í þessari baráttu þá er það með forvörnum.

Því miður hef ég ekki lausnina, hvaða forvarnir við eigum að velja. En ég vil þó benda á einn stóran þátt og það er þátttaka einstaklings í félagasamtökum.

Félagslíf
Við eigum að virkja félagasamtök. Og jafnvel auka framlög og styrki til þeirra. Sá sem kýs að starfa innan ákveðins félags eða samtaka er ólíklegri til að falla í þá gryfju að neyta fíkniefna.

Nú á ég við öll félagasamtök, og sérstaklega þau sem vinna með ungu fólki. Við eigum að styðja dyggilega við íþóttasamtök, stjórnmálasamtök, leikfélög, skátahreyfinguna, trúfélög og öll önnur félög sem stuðla að því að byggja upp einstaklinginn. Við eigum ekki að sortera félögin í góð félög og óæskileg félög. Til að mynda þá er ég ekki endilega hrifinn af öllum þeim félögum sem ég nefndi hér að ofan. En þessi félög, sem og önnur, eru þó að vinna að sínum málum. Aukin félagsþátttaka gerir einstaklingin að ,,betri’’ einstakling.

Lokaorð
Heilbrigð sál er okkar sterkasta vopn. Við verðum að leita allra leiða til að styrkja einstaklinginn. Forvarnir spila þar að mestu inn í og mín skoðun er sú að aukin þáttaka í félagsmálum sé besta forvörnin.

Pétur Óli Jónsson

*Gestagrein – skoðanir sem fram koma hér samæmast ekki endilega skoðunum ritstjóra Skoðunar.

Deildu