Hver er opinber afstaða Þjóðkirkjunnar?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

30/06/2000

30. 6. 2000

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum allt það einelti sem samkynhneigðir hafa verið lagðir í af hinum ýmsu fulltrúum kristninnar undanfarin misseri. Það fer hrollur um mig þegar þessir menn, sem hegða sér stundum eins og verstu óvitar, halda því fram að þeir séu hinir einu sönnu boðberar siðgæðis og kærleiks hér á […]

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum allt það einelti sem samkynhneigðir hafa verið lagðir í af hinum ýmsu fulltrúum kristninnar undanfarin misseri. Það fer hrollur um mig þegar þessir menn, sem hegða sér stundum eins og verstu óvitar, halda því fram að þeir séu hinir einu sönnu boðberar siðgæðis og kærleiks hér á jörðu.

Kristilegt siðgæði?
Nú þegar Alþingi hefur ákveðið að eyða 500.000.000 af peningum skattgreiðenda í það meðal annars að efla “kristin gildi og siðferði í landinu” hlýt ég að krefjast þess að Þjóðkirkjan útskýri það fyrir þjóðinni í eitt skipti fyrir öll hvað átt er við með kristnum gildum og kristilegu siðgæði. Því satt að segja þá særir margt af því sem sumir fulltrúar kristninnar hafa sagt opinberlega siðferðis- og réttlætiskennd mína.

Nýlegt dæmi um það sem ég á við eru orð Gunnars Þorsteinssonar, forstöðumanns Krossins og eins helsta boðbera kristninnar hér á landi, sem hann lét frá sér í Degi í gær:

,,Það er svolítið merkilegt að drottinn hefur fært okkur frá hommunum í Hestagjá yfir á pallinn hjá forsætisráðherra“

Gunnar sem er þekktur ,,hommahatari” átti einnig nýverið þátt í því að skrifa bréf til alþingismanna þar sem hann fordæmdi ákörðun Alþingis þess efnis að samkynheigðir fengju rétt til þess að ættleiða börn maka sinna. Í bréfi þessu gaf Gunnar í skyn að samkynhneigðir væru siðblindir, barnaníðingar og færu almennt illa með börn. Gunnar og margir aðrir eldklerkar, bæði innan og utan Þjóðkirkjunnar, hafa einnig oftsinnis haldið því fram að “kynvillingar” og allir þeir sem styðja ,,kynvillu” munu brenna í helvíti.

Siðleysið í því að segja ekki neitt
Í ljósi þess að nú á að efla “kristin gildi” hér á landi þá krefst ég þess að biskup Íslands og Þjóðkirkjan gefi út skýra og auðskiljanlega skriflega yfirlýsingu um hvað nákvæmlega er átt við með kristnum gildum og hver opinber afstaða þeirra til samkynhneigðra sé. Þögn kirkjunnar (eða afar óljóst orðalag) í þessum málum og það að froðupredikara eins og Gunnari í Krossinum sé yfirleitt boðið að taka þátt í að predika yfir þjóðinni á kristnitökuhátíðinni á kostnað skattgreiðenda er að mínu mati skýrt dæmi um lágt siðferðisþrek kirkjunnar.

Deildu