Skólagjöld og jafnrétti til náms

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

16/06/2000

16. 6. 2000

Mikil og oft á tíðum tilfinningarík umræða hefur farið fram um skólagjöld og jafnrétti til náms í kjölfar ákvörðunar HÍ að bjóða upp á svokallað MBA nám gegn 1250 þúsund króna skólagjöldum. Nú er undirritaður mikill stuðningsmaður þess að hér á landi ríki jafnrétti til náms, enda tel ég að menn geti varla talist frjálsir […]

Mikil og oft á tíðum tilfinningarík umræða hefur farið fram um skólagjöld og jafnrétti til náms í kjölfar ákvörðunar HÍ að bjóða upp á svokallað MBA nám gegn 1250 þúsund króna skólagjöldum. Nú er undirritaður mikill stuðningsmaður þess að hér á landi ríki jafnrétti til náms, enda tel ég að menn geti varla talist frjálsir ef að aðgangur þeirra að menntun er takmarkaður vegna bágs efnahags. Ég er þó alls ekki viss um að það geti alltaf talist mikil skerðing á jafnrétti til náms ef fullorðnu fólki, sem nú þegar hefur notið ókeypis grunnmenntunar, er gert að greiða skólagjöld fyrir nám sitt.


Grunn- og framhaldsskólamenntun

Það sem skiptir mestu máli þegar kemur að jafnrétti til náms er að börnum og ungu fólki undir lögaldri sé gefinn kostur á vandaðri menntun þeim að kostnaðarlausu. Menntunarmöguleikar fólks á þessum aldri ættu til að mynda aldrei að takmarkast vegna þess að foreldrar þeirra hafa ekki efni á því hafa þau í skóla. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ríkið eigi að veita áhugasömum nemendum framfærslustyrki til þess að tryggja enn frekar tækifæri þeirra til náms. Hér er ekki um óhóflega eyðslu ríkisins að ræða heldur skynsamlega fjárfestingu í réttlátu samfélagi. Við viljum vonandi öll búa í samfélagi þar sem möguleikar manna eru að mestu ákvarðaðir af hæfileikum þeirra, metnaði og árræðni en ekki af óviðráðanlegum umhverfisaðstæðum, eins og til dæmis efnahag foreldra.

Háskólamenntun og önnur framhaldsmenntun
Að loknu framhaldsskólanámi býðst fólki að fara í Háskólann, en þar sem Háskólinn kennir ekki allt það sem mönnum langar til að læra þá fara sumir í einkarekna skóla til þess að auka við menntun sína. Þeir sem fara í Háskólann fá nám sitt næstum frítt (ef við hundsum 25.000 króna málamyndagjald) á meðan hinir þeir sem velja að fara í einhvern einkaskólann þurfa að greiða hundruðir þúsunda og jafnvel milljónir fyrir sitt nám. Hvar er réttlætið í þessu?, kann einhver að spyrja. Hvers vegna geta þeir sem hafa áhuga á því að læra stjórnmálafræði, guðfræði eða lögfræði fengið nánast ókeypis menntun á meðan þeir sem langar að læra eitthvað af því sem kennt er í hinum fjölmörgu einkaskólum bæði hérlendis sem erlendis þurfa að greiða himinhá skólagjöld?

Málið er að það er ekki til nein skynsamleg regla um það hvað Háskólanum beri að kenna og hvað ekki. Það er hægt að hugsa sér miklu fleiri námsleiðir en þær sem Háskólinn býður upp á í dag. Það er því ljóst að í núverandi kerfi er einfaldlega ekki fullkomið jafnrétti til náms að loknu framhaldsskólanámi.

MBA-nám og skólagjöld

Einhverjum upp í Háskóla datt í hug að það yrði sniðugt að auka aðeins námsframboðið á þessu skeri okkar með því að bjóða upp á MBA-nám, með þeim skilyrðum þó að nemendur greiddu fyrir námið sjálfir en ekki skattgreiðendur. Stúdentaráði og stjórnmálamönnum finnst þetta afleit hugmynd og stórkostleg skerðing á jafnrétti til náms. Þvílíkt bull. Þegar fólk hefur þegar notið grunnmenntunar og er komið á þann aldur að geta farið í háskólanám er það fullfært um fjárfesta í námi sem það telur sig hafa einhvern hag af. Vandamálið við háskólamenntun í dag er líklegast fremur skortur á skólagjöldum en of há skólagjöld. Vegna þess að háskólanám er nánast frítt velkjast margir nemendur áhugalausir og óákveðnir á milli deilda í Háskólanum sjálfum sér og skattgreiðendum til óþurftar. Nú er ég alls ekki að leggja til að lögð verði há skólagjöld á allt háskólanám, en eitthvað þarf að gera til að auka kostnaðarvitund nemenda.

Hvaða nám á ríkið að niðurgreiða?

Ólafur Örn Haraldsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vill að Alþingi reddi þessu með MBA námið með því að borga námið bara svo að vesalings fólkið sem er tilbúið að greiða fyrir námið (vegna þess að það telur það vera skynsamlega fjárfestingu) þurfi ekki að greiða krónu. Þessi hugmynd Ólafs er auðvitað engin lausn. Hvað með allt það nám sem fullt af fólki langar til að læra en er hvergi kennt hér á landi eða er bara kennt í einkaskólum? Er Alþingi reiðubúið að greiða fyrir allt það nám líka? Ef ekki, hvers vegna ætti þá að bjóða upp á ókeypis MBA nám?

Níska þegar að kemur að menntamálum er óþolandi enda er menntun í flestum tilfellum góð fjárfesting. Það er farið illa með peningana á öðrum vígsstöðum eins og við flest vitum. Það er þó ljóst að það þarf að skilgreina betur hvaða nám ríkið á að niðurgreiða og hvað ekki. Hvaða réttlæti er í því að ríkið bjóði upp á ókeypis guðfræðinám en bjóði ekki einu sinni upp á nám í margmiðlun eða vefsíðugerð svo fátt eitt sé nefnt? Ég bara spyr.

Deildu