Hér og þar

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

19/06/2000

19. 6. 2000

Brynjólfur Þór er ekki alls kostar sáttur við ákvörðun sjávarútvegsráðherra um niðurskurð í þorskafla og hefur nokkrar efasemdir um þá venju sem hefur komist á um hvaða nám stjórnvöld fjármagna og hvað þau fjármagna ekki. Sjávarútvegsráðherra og nýju reglurnar Það fór eins og við var að búast að sjávarútvegsráðherra ákvarðaði hærri hámarksafla en fiskifræðingar höfðu […]

Brynjólfur Þór er ekki alls kostar sáttur við ákvörðun sjávarútvegsráðherra um niðurskurð í þorskafla og hefur nokkrar efasemdir um þá venju sem hefur komist á um hvaða nám stjórnvöld fjármagna og hvað þau fjármagna ekki.


Sjávarútvegsráðherra og nýju reglurnar
Það fór eins og við var að búast að sjávarútvegsráðherra ákvarðaði hærri hámarksafla en fiskifræðingar höfðu ráðlagt. Það sem vakti þó meiri furðu er sú réttlæting sem notuð var til að færa rök fyrir því að hin takmarkaða skerðing væri ráðleg.

Ég skal viðurkenna að eftir níu ára félagsstarf í stjórnmálum get ég verið dálítið kaldhæðinn og gert mönnum upp slæmar skoðanir. Því er kannski ekki að marka það þó mér hafi legið við hlátri þegar talsmaður Hafró lýsti fjálglega kostum nýju reglunnar um breytingar á hámarksafla milli ára. Það fyrsta sem mér datt í hug var maður að reyna að sannfæra aðra um eitthvað sem hann trúir ekki sjálfur.

Ekki það að ég ætli að segja að reglan um að hámarksþorskafli megi ekki breytast um meira en 30.000 tonn árlega sé vitlaus. Ég hef satt að segja ekki hugmynd um það. Ég veit það eitt að þegar nýjar reglur eru settar, eða gömlum breytt, á síðustu stundu eða við ankannalegar kringumstæður læðist alltaf að mér sá grunur að eitthvað annað en fagleg sjónarmið ráði ferðinni.

Annars kann það að vera oftúlkun hjá mér enda hefur það oft virst að það sé ekki í tísku hérlendis að hugsa langt til framtíðar eða móta stefnu áður en kemur til vandræða. Það á svo sem ekki frekar við um sjávarútvegsráðherra en aðra stjórnmálamenn en maður heldur samt alltaf í vonina að stjórnmálamaður sem hefur án efa íhugað formennsku í flokki sínum í framtíðinni setji sér háleitari markmið en þau að afla sér skammtímavinsælda.

Námsframboð og skólaávísanir
Meðritstjóri minn fjallaði um námsframboð í pistli sínum á föstudag og velti því fyrir sér hvers vegna stjórnvöld fjármögnuðu nám sumra en annarra ekki eftir því hvaða nám þeir velja og hjá hvaða námsstofnun. Það er vert að spyrja sig hversu réttlátt það sé að fólk eins og ég, sem flækist á milli námsdeilda og skóla, skuli fá ókeypis menntun á meðan fólk sem velur sér að læra eitthvað sem ekki er kennt í Háskóla Íslands og öðrum skólum sem ríkisvaldið fjármagnar verður að kosta sitt nám sjálft?

Nú er ég ekki talsmaður skólagjalda en mér þætti rétt að skoða í það minnsta þann möguleika að þeir sem sækja annað nám en það sem kennt er í ríkisreknum og fjármögnuðum skólum fái skólaávísanir frá hinu opinbera sem þeir geta notað til að greiða fyrir nám sitt, að hluta eða í heild, í öðrum skólum. Eins má velta því fyrir sér að þetta kerfi verði almennt tekið upp. Þannig má jafnvel sporna við því að fólk flækist árum saman á milli skóla og deilda skilandi misjöfnum námsárangri.

Hugsunin um það að stjórnvöld greiði fyrir menntun fólks þarf ekki að þýða að endalaust sé greitt fyrir námið óháð námsárangri. Hún þarf einfaldlega að þýða að fólki sé gefið tækifæri til að stunda það nám sem það hefur áhuga á. Ef til vill er ekki svo vitlaust að þeir sem, eins og ég, flækjast milli skóla og deilda án þess að klára neitt greiði nám sitt sjálfir þegar komið er fram yfir einhver mörk.

Deildu