Málefni innflytjenda

Logo

14/06/2000

Höfundur:

14. 6. 2000

Toshiki Toma, prestur innflytjenda á Biskupsstofu, skrifaði áhugaverða grein í Morgunblaðið fyrir nokkru þar sem hann fjallaði um innflytjendur og þá fordóma sem þeir þurfa stundum að þola. Ritstjórn Skoðunar hefur fengið leyfi til að birta þessa grein í örlítið lengri útgáfu. Í tilefni af stofnfundi Samfylkingarinnar voru tekin upp málefni innflytjenda. Það er sjaldan […]

Toshiki Toma, prestur innflytjenda á Biskupsstofu, skrifaði áhugaverða grein í Morgunblaðið fyrir nokkru þar sem hann fjallaði um innflytjendur og þá fordóma sem þeir þurfa stundum að þola. Ritstjórn Skoðunar hefur fengið leyfi til að birta þessa grein í örlítið lengri útgáfu.


Í tilefni af stofnfundi Samfylkingarinnar voru tekin upp málefni innflytjenda. Það er sjaldan rætt um þessi málefni í stjórnmálaflokkum, og því fagna ég þessari umræðu. Hér vil ég sjálfur taka þátt í umræðunni, sérstaklega varðandi fordóma og misrétti eftir þjóðerni gagnvart innflytjendum. Enn fremur óska ég þess að umræðan haldi áfram og byggja megi upp fjölmenningalega þjóð á Íslandi, þar sem fordómar og mismunun eru í lágmarki.

1. Hvernig birtast fordómar og mismunun?
Ég er Japani sem á heima hér á landi. Varðandi fordóma og misrétti gagnvart fólki af öðru þjóðerni og menningu sem er öðruvísi en manns eigin, eigum við japanir sérstaka sögu. Fyrri hluti sögu Japans á þessari öld er saga hamslausrar föðurlandsástar og misréttis gagnvart nágrannaþjóðum, sem endaði með gífurlegu ofbeldi í Asíulöndum þ.á.m. Japan sjálfu.

Síðan árið 1945 höfum við japanir lært ýmislegt af þessari beisku reynslu okkar. Það sem ég get bent á er þetta: Fordómar og misrétti koma í ljós hjá þolendum þess, en ekki hjá gerendum. Að læra um fordóma eða óréttlæti hefst með því að hlusta á þolendurna, þrátt fyrir að það geti stungið hjörtu okkar.

Snúum okkur til Íslands. Eru fordómar og misrétti vegna þjóðernis til á Íslandi? Bæði fordómar og mismunun lýsa sér á tvo ólíka vegu. Annars vegar á sýnilegan hátt og hins vegar á ósýnilegan hátt. Mér sýnist að á Íslandi séu sýnilegir fordómar litlir í samanburði við önnur evrópsk lönd. Málið á Íslandi er hin hlið fordóma og mismununar, sem sagt ósýnilegir þeim sem ekki verða fyrir þeim.

Ósýnilegir fordómar eru nefndir ¨duldir fordómar¨. Þeir birtast á ýmsan hátt í þjóðfélaginu eins og t.d. í lélegri þjónustu við útlendinga í stofnunum eða samskiptaleysi á vinnustöðum. Í stuttu máli sagt, að mínu mati, eru ósýnilegir fordómar það að líta niður á útlendinga yfirleitt. Það er almenn ímynd eins og að allir frá Asiu- Afríkulöndum séu illa menntaðir og með fátækan uppruna, og þess vegna eigi þeir alltaf að læra af evrópskum löndum. Ég held að þess konar hugmyndareinstefna sé talsvert sterk í íslensku þjóðfélagi.

Það má segja að flóð upplýsinga frá fjölmiðlum sem eingöngu fjalla um fátækt eða önnur vandamál í Asíu- eða Afríkulöndum búi til þessa staðalmynd í hugum okkar.

Ósýnilegt misrétti er svolítið öðruvisi en duldir fordómar. Í lögfræði er talað um eðlilega aðgreinigu. Það þýðir að aðgreining sé ekki alltaf mismunun eða misrétti. T.d. getur eldra fólk notið ódýrari opinberrar þjónustu, en við mótmælum því ekki, þar sem okkur finnst það vera hagsmunir allra og réttlæti, þ.e. eðlileg aðgreining.

Aðgreini þjóðfélag hins vegar tiltekinn hóp manna frá öðrum, án skynsamlegrar ástæðu, er það mismunun. En við þurfum að vekja athygli á því að oft er litið á slíka mismunun sem eðlilega aðgreiningu.

Tökum dæmi. Innflytjendur frá löndum utan EES verða að sækja um atvinnuleyfi í byrjun í gegnum vinnuveitendur sína. Hér er um tvö mál að ræða. Annað er að þetta er í rauninni réttur atvinnurekanda til að ráða erlendan mann í sína þágu en ekki réttur hins erlenda manns til að framfleyta sér.

Hitt málið er að viðkomandi erlendur maður verður að bíða eftir svari frá stéttarfélagi, og stéttarfélagið skoðar vinnumarkaðinn fyrst til að gefa Íslendingum forgang. Rökin eru að vernda þurfi hagsmuni Íslendinga fyrst og fremst, en er þetta eðlileg aðgreining? Mér finnst það ekki. Af því að þetta er á móti þeirri einföldu staðreynd að útlendingar þurfa að vinna til að borða alveg eins og Íslendingar. Hvernig er hægt að neita nokkrum um þessar grunnþarfir? Einnig er hér mismunun til staðar milli útlendinga, aðeins eftir því frá hvaða landi þeir koma.

Við verðum að vera vakandi fyrir því að svona mismunun, sem þykir vera eðlileg aðgreining, fái ekki að þróast í framtiðinni, annars munum við innflytjendur þykja annars flokks stétt, lægri stétt samfélagsins, sem getur aðeins lifað af ef henni er leyft það. Þetta er ekki sanngjarnt.

2. Stefnumótun í innflytjendamálum
Hvað eigum við þá að gera? Er hægt að samræma hagsmuni og réttindi bæði Íslendinga og innflytjenda?

Eins og við vitum vel eru mannréttindi kjarni stjórnmála í lýðræðisþjóðfélagi. Forsenda þessa mannréttinda er sú hugmynd að mannkynið allt sé jafningjar, sem sagt jafnrétti mannkyns.

,,Jafnrétti mannkyns¨ eru stór orð. Staða fólks sem birtist í raunveruleikanum er alls ekki jöfn. Hún er ekki eins og Esjan, sem er alltaf til staðar án tillitis til þess hvort við tökum eftir henni eða ekki. ¨Jafnrétti mannkyns¨ er eitthvað sem við eigum að miða að og sanna í sögu okkar. Við verðum að vinna með þetta.

Stundum virðist jafnrétti mannkyns vera á móti hagsmunum Íslendinga um stundarbil. Sumir segja að Íslendingar skuli læra af reynslu bræðralandanna, og vera meira lokað fyrir innflytjendum til landsins. Það gæti verið hægt að læra á þann þröngsýna hátt.

En mér sýnist betra að læra í víðara samhengi og með víðara sjónarhorn. Þjóð sem er áhugalaus um að bæta lífsaðstæður í landi sínu mun að lokum staðna. Þjóð sem er afskiptalaus um að vernda mannréttindi annarra mun skaða sjálfsmynd sína. Þjóð sem gefur engan gaum að alþjóðlegri samvirkni mun þjást á eftir. Saga Japans, Þyskalands, Sovetríkjanna eða Íraks kennir okkur um það. Er ekki meiri fyrirhyggja að læra svona atriði úr sögu alheimsins? Ákvörðun sem byggir á jafnrétti mannkyns borgar sig að lokum ef til langs tíma er lítið.

Í þessu samhengi vil ég benda á 3 punkta sem ég tel nauðsynlega.

1. Innflytjendur eru jafningjar íslendinga. Allt verður að byggjast á þessari fullyrðingu. Þess vegna er kjarni innflytjendamála jafnrétti á milli innflytjenda og Íslendinga.

Umburðarlyndi er mikilvægt í lífi hvers og eins okkar, en við skulum ekki blanda þessum tveimur hugmyndum saman.

2. Í lýðræðisþjóð ber meirihlutinnn alltaf ábyrgð á hagsmunum minnihlutans. Ábyrgð segi ég, en ekki stjórn á minnihlutanum. Þetta er aðeins hægt með því að koma á samræðum við innflytjendur. Í stefnumótun ríkisins vil ég meina að enn sé litið á innflytejndur sem viðtakendur kannana, en ekki sem samstarfsaðila á jafnréttisgrundvelli. Og jafnframt þurfum við innflytjendur sjálfir að vera reiðubúnir að tjá skoðun okkar opinberlega til að opna umræður fyrir alla.

3. Innflytjendamál endurspegla sjálfsmynd Íslendinga, hvers konar samfélag vilja þeir byggja í landi sínu, eða hverju eru þeir stoltir af hjá sjálfum sér?

Eins og ég sagði í upphafi, á heimaland mitt beiska sögu varðandi fordóma og misrétti. Þessi beiskja situr ennþá eftir í minni kynslóð, sem þó er fædd löngu eftir að þessir atburðir áttu sér stað. Fordómar og þjóðernismisrétti skaða að sjálfsögðu þolendur þess. En að lokum skaðast einnig gerandinn sjálfur. Þess vegna verðum við að berjast gegn fordómum og óréttlæti á jörðinni til þess að vernda okkur sjálf og börn okkar.

Guð hjálpi okkur.

Toshiki Toma
(Höfundur er prestur innflytjenda á Biskupsstofu)

Deildu