Mikið fjas um lítið mál

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

12/06/2000

12. 6. 2000

Stundum virðist manni sem fjölmiðlar geri mikið úr ýmsum málum og á öðrum að þeir líti ekki nægilega vel undir yfirborð þeirra mála sem þeir eru að fjalla um. Gott dæmi um þetta er umræðan sem verið hefur um ræðu sjávarútvegsráðherra á sjómannadaginn. Hvað sagði sjávarútvegsráðherra og hvar? Sjávarútvegsráðherra sagði í stuttu máli að hann […]

Stundum virðist manni sem fjölmiðlar geri mikið úr ýmsum málum og á öðrum að þeir líti ekki nægilega vel undir yfirborð þeirra mála sem þeir eru að fjalla um. Gott dæmi um þetta er umræðan sem verið hefur um ræðu sjávarútvegsráðherra á sjómannadaginn.


Hvað sagði sjávarútvegsráðherra og hvar?
Sjávarútvegsráðherra sagði í stuttu máli að hann vildi sameina fiskifræði sjómanna fiskifræði sérfræðinga…ef mögulegt væri.

Einhverjir fjölmiðlar tóku þessu sem mikilli stefnubreytingu sjávarútvegsráðherra, sérstaklega í ljósi þess að ýmsir forsvarsmenn sjómanna telja ekki hafa verið mikinn vilja fyrir því innan sjávarútvegsráðuneytisins að taka tillit til skoðana þeirra og óska. Það sem fjölmiðlamenn, margir hverjir, virðast hins vegar horfa fram hjá er tíma- og staðsetning yfirlýsingar sjávarútvegsráðherra. Hún átti sér nefnilega stað á sjómannadagshátíð í Reykjavík á sjómannadag. Á þeim vettvangi á þeim degi er það siður sjávarútvegsráðherra að segja eitthvað fallegt um þá sem hann er að ávarpa. Rétt eins og það er siður kirkjumálaráðherra eða staðgengils hans að lofsyngja kirkju og kristni á prestaþingum og landbúnaðarráðherra að tala ekki af viti um landbúnaðarstefnuna sem hér er rekin.

Hvers vegna mælti ráðherra svo?
Ræður þessara ráðherra, og fleiri aðila við hátíðleg tilefni, ber kannski ekki að taka bókstaflega. Þær eru iðulega lofsöngur og ekki endilega mikils virði þegar frá líður, það sanna dæmin hvert á fætur öðru.

En hverjar geta ástæður sjávarútvegsráðherra verið? Mér detta einna helst tvær í hug. Önnur er sú að hann vill vera vingjarnlegur við sjómenn og fjölskyldur þeirra og fá þær til að hugsa hlýlega til sín þegar kemur að næstu kosningum. Hin er sú að hann velti fyrir sér hvernig hann geti komist hjá því að skerða fiskveiðiheimildir eins mikið og sérfræðingar leggja til. Svo má auðvitað ekki gleyma því að ef til vill er það vilji sjávarútvegsráðherra að hlusta meira á raddir sjómanna þegar kemur að ákvörðum hámarksafla þar sem hann telur sjómenn hafa eitthvað fram að færa, um þá ástæðu ætla ég þó ekki að fjalla að þessu sinni.

Yfirborðskennd fjölmiðlaumfjöllun
Umfjöllun fjölmiðla um ræðu sjávarútvegsráðherra staðfestir enn þá skoðun mína að íslenskir fjölmiðlar fjalli yfirborðskennt um mörg mál og hiki við að kanna hvað býr að baki. Þannig segja þeir frá því sem þeir sjá og heyra en láta vera að kafa dýpra og rifjast þá upp orð fjölmiðlamanns sem lét að því liggja að íslenskir fjölmiðlar minntu mest á hreyfanlega míkrafónstanda fyrir skoðanir annarra.

Ekki svo að ég leggi til að fjölmiðlar leiti alltaf að framapoti og sérhagsmunagæslu sem hvata að flutningi allra opinberra ræða og frumvarpa. En það mætti að ósekju vera meira um það í mörgum málum. Það sem vantar í íslenska fjölmiðla eru stjórnmálaskýrendur sem þora að hafa skoðun á hinum ýmsu málum.

Deildu