Einsleitt eða fjölmenningarlegt samfélag?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

31/03/2000

31. 3. 2000

Undanfarnar vikur hefur verið þó nokkur umræða í fjölmiðlum um innflytjendur á Íslandi og hugsanleg vandamál sem þeim geta fylgt. Sorglegar yfirlýsingar hafa heyrst í þessari umræðu. Sumir hafa lýst þeirri skoðun sinni að banna eigi útlendingum að flytjast hingað þar sem menning þeirra og trú er öðruvísi en hins hefðbundna Íslendings og þeir passi […]

Undanfarnar vikur hefur verið þó nokkur umræða í fjölmiðlum um innflytjendur á Íslandi og hugsanleg vandamál sem þeim geta fylgt. Sorglegar yfirlýsingar hafa heyrst í þessari umræðu. Sumir hafa lýst þeirri skoðun sinni að banna eigi útlendingum að flytjast hingað þar sem menning þeirra og trú er öðruvísi en hins hefðbundna Íslendings og þeir passi því ekki inn í íslenskt samfélag.

Skemmst er einnig að minnast hinnar vægast sagt klúðurslegu yfirlýsingu ungra Sjálfstæðismanna á Akureyri um að grunnskólapróf í íslensku verði gert að forsendu fyrir ríkisborgararétti á Íslandi.

Íslenska fyrir Íslendinga
Þó það sé gjörsamlega fáránleg og vond hugmynd að gera grunnskólapróf í íslensku að forsendu fyrir ríkisborgararétti þá má til sanns vegar færa að tungumálakunnátta nýbúa skiptir miklu máli hvað varðar aðlögun þeirra að íslensku samfélagi. Mikilvægt er að útlendingum, sem vilja setjast að hér á landi, sé boðið upp á viðunandi íslenskukennslu og fræðslu um réttindi þeirra og skyldur. Tungumálaörðugleikar eru ein helsta ástæða þess að upp koma félagsleg vandamál meðal innflytjenda og valda því að nýbúar aðlagast ekki íslensku samfélagi sem skyldi.

Ungir Sjálfstæðismenn hefðu því betur geta samið ályktun undir yfirskriftinni ,,Íslenska fyrir Íslendinga“ og krafist þess að ríkið tryggi nýjum og verðandi Íslendingum viðunandi íslenskukunnáttu. Slík yfirlýsing hefði reyndar brotið fyrsta boðorð frjálshyggjunar um afskiptaleysi ríkisvaldsins og því ólíklegt að slík krafa hefði komið frá ungum frjálshyggjupiltum og -stúlkum.

Að vernda og viðhalda íslenskri menningu
Algengur hræðsluáróður þjóðernissinna gegn innflytjendum er sá að íslensk menning sé í stórhættu ef of margir útlendingar setjast hér að. Þessi áróður er vægast sagt illa ígrundaður þar sem hin sanna gamla íslenska bændamenning er fyrir löngu liðin undir lok. Vinsælasta tónlistin er útlend MTV-tónlist, engilsaxneskum kvikmyndum er látlaust dælt í landann inn á heimilum og í kvikmyndahúsum, erlendar bækur (bæði þýddar og á upprunalegu máli) eru oftast vinsælustu bækurnar, internetið og gervihnattadiskar halda áfram að ógna íslensku samfélagi auk þess sem hinn afar óíslenski drykkur sem hér er kallaður kók er vinsælli en íslenskt vatn.

Þjóðernissinnar hræðast einna mest áhrif annarra trúarbragða á þjóðina og því þola þeir ekki að einhverjir múslimar, búddatrúarmenn eða hindúar setjist hér að og iðki áfram sína trú rétt eins og þeir væru heima hjá sér. Ef þessir menn væru hins vega alvöru þjóðernissinnar þá væru þeir að berjast gegn áhrifum kristninnar á kostnað hinnar rammíslensku ásatrúar. Við munum vonandi öll eftir því að það var enginn annar en Óli T. Noregskonungur sem neyddi kristnina upp á landann fyrir rúmlega 1000 árum.

Fjölþjóðleg menning er það sem koma skal
Fari ekki svo að öfga vinstri og hægri menn fái öllu ráðið er það ljóst að alþjóðahyggja mun halda áfram að bera sigurorð af einangrunarhyggju. Fjölbreytni sem oftast er betri en einsleitni eykur þó líkurnar á fordómum þar sem hún kallar á aukið umburðalyndi manna gangvart menningu og skoðunum sem þeir skilja ekki eða kæra sig ekki um. Baráttan gegn fordómum verður best háð með góðri almennri menntun, opinskárri umræðu og með því að tryggja það að aðfluttum Íslendingum sé gert kleift, með viðeigandi aðstoð, að aðlagast farsællega íslensku samfélagi.

Deildu