Skrýtnir leikir löggjafans

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

30/03/2000

30. 3. 2000

Eins og með önnur mannanna verk eru bæði kostir og gallar á nýja kosningakerfinu sem er nú til meðferðar á Alþingi. Eins og vill svo oft brenna við með önnur verk löggjafans ganga breytingarnar á kosningakerfinu skemmra en æskilegt væri. Misvægi atkvæða Svo lengi sem Íslendingar hafa kosið sér fulltrúa hafa sumir Íslendingar haft meira […]

Eins og með önnur mannanna verk eru bæði kostir og gallar á nýja kosningakerfinu sem er nú til meðferðar á Alþingi. Eins og vill svo oft brenna við með önnur verk löggjafans ganga breytingarnar á kosningakerfinu skemmra en æskilegt væri.


Misvægi atkvæða
Svo lengi sem Íslendingar hafa kosið sér fulltrúa hafa sumir Íslendingar haft meira atkvæðavægi en aðrir. Það er engin réttlæting á misvægi atkvæða. Það gefur ósköp einfaldlega vísbendingu um hvers vegna íslensk stjórnvöld hafa rekið svo vitlausa byggðastefnu sem raun ber vitni og hvers vegna kjördæmapotarar eru í svo sterkri aðstöðu á þingi.

Atkvæðamisvægið nær auðvitað ekki nokkurri átt. Það er ekki hægt að segja að landsbyggðarfólk sé í verri tengslum við þingmenn sína en þingmenn suðvesturhornsins. Ef eitthvað er þá er þessu öfugt farið. Ef hins vegar tengslaleysið ætti við rök að styðjast er vert að spyrja sig hvers vegna misvægi atkvæða hefur minnkað á sama tíma og tengslin (hér nægir mönnum að fletta upp í ævisögum hvaða landsbyggðarstjórnmálamanns sem er efist þeir um orð mín).

Staðreyndin er nefnilega sú að misvægi atkvæða hefur fært fámennum hópum meira vald en fjöldi þeirra og atkvæðamagn segir til um. Þetta hefur haft bein áhrif á þróun íslensks þjóðfélags. Þar er snælduvitlaus landbúnaðarstefna aðeins eitt af mörgum málum sem hefðu væntanlega þróast öðruvísi væri atkvæðisréttur jafn.

Er þörf á kjördæmum?
Á síðustu öld og fram eftir þessari (ég byrja að telja á einum) var tiltölulega auðvelt að færa rök fyrir kjördæmakerfi. Miklar vegalengdir og takmarkaðar samgöngur gerðu það að verkum að heppilegast var að velja þingmenn eftir kjördæmum frekar en af landslista. Þessar röksemdir fyrir kjördæmaskipan heyra hins vegar sögunni til. Það er varla að finna á Íslandi tvo byggða staði sem ekki er hægt að ferðast á milli samdægurs í dag. Eins er vart að finna þann mann sem ekki getur með lítilli fyrirhöfn hringt í þingmann sinn þegar honum dettur í hug.

Kjördæmin eru arfleifð liðinna tíma. Því miður vill það brenna við að þegar menn hafa eitt sinn vanist því að hlutirnir eru á einn veg berjast þeir gegn breytingum á þeim. Þrátt fyrir að kjördæmin hafi eitt sinn verið mikilvægur þáttur í að tryggja að raddir landsmanna heyrðust efast ég um að aðrir hafi hag af kjördæmum en þeir sem hagnast á kjördæmapoti og öðrum skyldum óskunda. Aðra hafa þau þó sennilega skaðað á undanförnum áratugum.

Lélegir þingmenn
Ýmsir þingmenn tala um nauðsyn þess að halda í litlu, fámennu kjördæmin til að koma í veg fyrir að kjördæmi verði óeðlilega stór og erfið yfirferðar og til að varna því að of mikla fjölbreytni verði að finna innan hvers kjördæmis. Þar tala þeir þingmenn sem líta á sig sem skaffara fyrir sitt kjördæmi, á kostnað annarra landsmanna, og þeir þingmenn sem virðast álíta að kjördæmin skuli hanna til að uppfylla þarfir þeirra. Báðar þessar tegundir tel ég í besta falli óþarfar, en þó sýnu oftar skaðlegar íslensku þjóðfélagi og væri óskandi að sem flestir þeirra hyrfu af þingi. Þó er því miður ólíklegt að svo verði meðan þessir sömu menn ákveða og útfæra reglurnar sem þeir verða kosnir eftir.

Fullkomna jöfnun atkvæðisréttar
Auðvitað á atkvæðisréttur að vera fullkomlega jafn. Til þess er ein afar einföld leið og hún er að gera landið allt að einu kjördæmi, líkt og Hollendingar og Grænlendingar. Þetta kemur auðvitað ekki í veg fyrir landsvæðapot því alltaf verða til takmarkaðir stjórnmálamenn sem reyna að hrífa fólk með öðru en vitsmunum sínum. Þetta vekur þó von um að val þingmanna verði líkara vali landsmanna en hefur oft verið hingað til.

Deildu