Fæðing flokks

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

29/03/2000

29. 3. 2000

Það var ákveðinn vendipunktur í mínu pólitíska lífi þegar ég frétti af stofnfundi Ungra jafnaðarmanna í gegnum netið hérna í Noregi. Fram að því hafði ég verið Samfylkingarmaður með hangandi haus og mín eina undankomuleið þegar pólitík bar á góma var að gera mér upp óvænt stefnumót eða einhvern dularfullan sjúkdóm og flýja svo á […]

Það var ákveðinn vendipunktur í mínu pólitíska lífi þegar ég frétti af stofnfundi Ungra jafnaðarmanna í gegnum netið hérna í Noregi. Fram að því hafði ég verið Samfylkingarmaður með hangandi haus og mín eina undankomuleið þegar pólitík bar á góma var að gera mér upp óvænt stefnumót eða einhvern dularfullan sjúkdóm og flýja svo á náðir einsemdarinnar.


Það var í sjálfu sér ekkert sérstakt við fundinn sjálfann sem breytti þessu heldur fremur sú áhersla sem kom fram á fundinum. Áherslan á frjálslynda og ábyrga jafnaðarstefnu og aðild að Evrópusambandinu.

Það var líka gaman að fylgjast með viðbrögðunum sem stofnfundurinn vakti. Skyndilega tóku allir veffjölmiðlar annarra flokka sig saman og veittust að hinum verðandi Jafnaðarmannaflokki. Þetta var pínulítið eins og í kosningabaráttunni þegar Steingrímur J. Sigfússon, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson lögðu til hliðar ímyndaðan málefnaágreining sinn og sameinuðust um að berja á Samfylkingunni.

Þetta er nokkur nýbreytni því enginn hefur séð ástæðu til að lumbra á okkur jafnaðarmönnum síðan í kosningabaráttunni, enda hafa skoðanakannanir bent til þess að hinir karakterlausu formenn hinna flokkana hafi gengið að jafnaðarmannahreyfingunni dauðri. Það segir því sína sögu að skyndilega sé ástæða til að ráðast á okkur á ný.

Ástæðan er auðvitað sú að jafnaðarmenn eru að rétta úr kútnum. Eftir mánaðalanga píslargöngu um dal íslenskra stjórnmála erum við risin upp á afturlappirnar og í þetta sinn ætlum við að berja frá okkur. Nýjustu kannanir sýna að við erum aftur orðin næst stærsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi og komin upp að því fylgi sem við höfðum í kosningunu og erum enn á uppleið. Ástæðan fyrir þessu er auðvitað sú að stofnun Ungra jafnaðarmanna er liður í að skapa grunn fyrir hinn nýja flokk, auk þess sem væntanleg formennska Össurar Skarphéðinssonar er mikil andlitslifting fyrir hreyfinguna.

Styrkur Össurar kemur fram í því af hve mikilli örvæntingu fulltrúar annarra flokka leggja sig fram um að sverta ímynd hans. Fulltrúar frelsis og takmarkaðra ríkisafskipta á Vef-Þjóðviljanum hafa jafnvel lagst svo langt að dásama umfram hann þá manneskju sem stendur þeim hvað fjærst í íslenskum stjórnmálum, Jóhönnu Sigurðardóttur. Ekki ætla ég að efast um ágæti Jóhönnu, en það er eitthvað skakkt við að frjálshyggjufrömuðirnir á Vef-Þjóðviljanum séu svona hrifnir af ríkisforsjárjafnaðarmanni eins og Jóhönnu.

Enn athygliverðara er andúð Múraranna á Múrinn.is á Össuri. Þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að Össur sé ekki líklegur til að draga að Jafnaðarmannaflokknum fyrrum kjósendur Alþýðubandalagsins. Þessi niðurstaða hlýtur að byggja á tilfinningum þeirra sjálfra enda eiga þeir bágt með að fyrirgefa honum að hafa yfirgefið Alþýðubandalagið meðan þeir voru enn börn, eitthvað sem þeir gerðu sér að ósekju seinna meir.

Auk þess gera þeir mikið úr því að Grænt framboð sé enn að vaxa í skoðanakönnunum. Það má ekki lesa of mikið í það. Staðreyndin er sú að fylgisaukning VG byggir aðallega á óánægðum Framsóknarmönnum sem þykjast ætla að kjósa einn afturhaldsflokk fyrir annann. Enn fremur munu þeir missa marga kjósendur sem kusu þá síðast einfaldlega vegna þess að Samfylkingin stóð ekki undir væntingum. Jafnaðarmannaflokkur Íslands mun hinsvegar vera sá flokkur sem Samfylkingin átti að vera og því munu margir kjósendur VG freistast til að greiða honum atkvæði sitt.

Tími sundrungar jafnaðarmanna er liðinn. Bráðum mun verða til sterkur flokkur vinstra megin við miðju sem mun vera áreiðanlegur valkostur í íslenskum stjórnmálum. Auðvitað angrar þetta bæði VG og íhaldið en sem betur fer er fátt sem þeir geta gert í því.

Deildu