Fækkum ráðuneytum

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

03/04/2000

3. 4. 2000

Gæti hugsast að átta menn vinni betur en tólf? Auðvitað er það breytilegt eins og allt annað. Þegar kemur að ráðherrum og ráðuneytum er ég ekki frá því að full ástæða sé til að sameina ráðuneyti og fækka ráðherrum. Stórt atvinnuvegaráðuneyti Litlu atvinnuvegaráðuneytin sem starfað hafa hérlendis undanfarna áratugi eru veik og höll undir sérhagsmunagæslu. […]

Gæti hugsast að átta menn vinni betur en tólf? Auðvitað er það breytilegt eins og allt annað. Þegar kemur að ráðherrum og ráðuneytum er ég ekki frá því að full ástæða sé til að sameina ráðuneyti og fækka ráðherrum.


Stórt atvinnuvegaráðuneyti
Litlu atvinnuvegaráðuneytin sem starfað hafa hérlendis undanfarna áratugi eru veik og höll undir sérhagsmunagæslu. Smæð þeirra hefur leitt til takmörkunar á pólitískri stefnumótun og sú leið að skipta atvinnuvegum á milli ráðuneyta hefur leitt til þess að alltof margir ráðherrar hafa talið það hlutverk sitt að vernda „sína menn“. Alltof oft á kostnað almennings í landinu.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, samgönguráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti má sameina í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Þannig minnka líkurnar á því að ráðherra geti litið á það sem hlutverk sitt að tryggja hagsmuni „sinnar greinar“, þess í stað verða menn að taka tillit til þarfa allra greina. Sagan ber alltof mörg dæmi þess að hagsmunum heildarinnar hafi verið fórnað fyrir hagsmuni einstakra hópa. Á því verður engin breyting meðan margir ráðherrar fara með atvinnuvegina og hver skarar eld að sinni köku.

Platráðherrarnir
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur löngum verið annað ráðuneyti ráðherra. Guðmundur Bjarnason sýndi það á síðasta kjörtímabili að það þarf ekki ofurmenni til að sinna umhverfisráðuneytinu samfara öðru ráðuneyti. Þess vegna mætti ríkisstjórnin ganga á undan með góðu fordæmi og fækka ráðherrum með því að færa þessi ráðuneyti til þeirra ráðherra sem fara með önnur ráðuneyti. Það sparast svo sem ekki mikið á því en það væri í samræmi við þær hvatningar sem stjórnvöld hafa beint til almennings um að fara varlega í eyðslu.

Fækkun ráðherra
Með því að færa umhverfis- og dóms- og kirkjumálaráðuneytin undir aðra ráðherra má fækka ráðherrum um tvo. Með því að sameina atvinnuvegaráðuneytin má fækka ráðherrum um þrjá. Svo má alltaf leika sér með þá hugmynd að sameina félagsmála- og heilbrigðis- og tryggingaráðuneytin. Þar yrði úr eitt mjög stórt ráðuneyti og kynnu margir að álíta það ókost. Hins vegar mætti gera ráð fyrir að ýmislegt samstarf sem æskilegt er að sé milli ráðuneytana í dag gengi betur í einu ráðuneyti en tveimur.

Deildu