Samtal um skattinn

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

05/04/2000

5. 4. 2000

Persónur: Heimdella, ung reið kona sem vill vera frjáls. Hundurinn Tryggur, sem nýlega hefur verið skipaður ríkisfjárhirðir. Heimdella kemur askvaðandi inn í sjónvarpssal þar sem Tryggur situr og les Morgunblaðið. Heimdella Djöfulsins skatturinn (hún notar þetta orðbragð óhikað enda trúir hún á allskyns frelsi, og ekki síst málsfrelsi). Tryggur Hvað gerði hann þér núna? Heimdella […]


Persónur:
Heimdella, ung reið kona sem vill vera frjáls.
Hundurinn Tryggur, sem nýlega hefur verið skipaður ríkisfjárhirðir.

Heimdella kemur askvaðandi inn í sjónvarpssal þar sem Tryggur situr og les Morgunblaðið.


Heimdella
Djöfulsins skatturinn (hún notar þetta orðbragð óhikað enda trúir hún á allskyns frelsi, og ekki síst málsfrelsi).

Tryggur
Hvað gerði hann þér núna?

Heimdella
Ekki neitt, ég þoli bara ekki hvernig hann birtir persónuupplýsingar um fólk án þess að bera virðingu fyrir friðhelgi einkalífsins.

Tryggur
Eins og hvað?

Heimdella
Eins og allt! (Horfið pirruð á hundspottið)

Tryggur
Fer skatturinn fram á einhverjar viðkvæmar upplýsingar um persónu fólks? (Horfir forviða á myndavélarnar eins og hann hafi fyrst núna áttað sig á því að hann er í umræðuþætti um íslensk stjórnmál.)

Heimdella
Já, það gerir hann.

Tryggur
Jaseiseimignú. Ég sé nú ekki hvað það á að vera, nema þér finnist erfitt að svar spurningum eins og: „Áttu öll þessi börn með sama manni?“ eða „Taldirðu allt fram sem þú þénaðir sem fatafella?“

Heimdella
Láttu ekki svona, við vitum bæði að fatafellur telja ekki fram.

Tryggur
Vafalítið sumar, en eru virkilega einhverjar viðkvæmar upplýsingar á skattaskýrslunni þinni?

Heimdella
Þetta snýst ekki um það, þetta er prinsip mál. Þeir hafa engan rétt á þessum upplýsingum, það brýtur í bága við náttúruréttinn!!!

Tryggur
Viltu vera svo væn að nota hugtök sem áhorfendur skilja. (Lítur afsakandi í áttina að myndavélunum.)

Heimdella
Fyrirgefðu, ég var bara að læra um „náttúruréttinn“ í stjórnmálafræðinni.

Tryggur
En, semsagt, þú hefur ekkert að fela.

Heimdella
Það er rétt, en spurningin er um rétt minn til að fela eitthvað hafi ég eitthvað að fela. Ég þoli ekki þessi endalausu ríkisafskipti. Helst ætti að leysa upp ríkið og velferðarkerfið og byggja samfélagið á hugmyndum Spencers, Darwins og Nietzche.

Tryggur
Varstu líka að læra um þá í skólanum?

Heimdella
Já.

Tryggur
En hvað ætlarðu að gera í þessu?

Heimdella
Ég held ég fái þungarvigtarlögfræðing til að hóta skattinum lögsókn beri þeir ekki virðingu fyrir friðhelgi einkalífs míns.

Tryggur
Hvað heldurðu að komi úr því? (Kvikindislegt bros leikur um varir hans.)

Heimdella
Þá þora þeir ekki að birta skattaskýrsluna mína.

Tryggur
Og þá hefurðu gert ekkert til að tryggja friðhelgi einkalífs hins almenna íslendings. Þá hefur þú bara tryggt að þín myrku leyndarmál komi ekki upp á yfirborðið.

Heimdella
Rangt ríkisrekna hundsræskni. Skatturinn birtir skýrsluna mína.

Tryggur
Var ekki ætlunin að koma í veg fyrir það?

Heimdella
Nei, því þá get ég farið í mál við skattinn og þegar ég hef unnið það þá er það prófmál sem verður notað til að rétta hlut þessarar niðurbörðu þjóðar.

Tryggur
Og þú heldur að yfirvöld beri virðingu fyrir ákvörðunum hæstaréttar?

Heimdella
Já, auðvitað.

Tryggur
Sýndu yfirvöld úrskurði hæstaréttar einhverja virðingu þegar þeir úrskurðuðu að núverandi fyrirkomulag fiskveiða væri ólöglegt.

Heimdella
Reyndar ekki.

Tryggur
Sýndu stjórnvöld fram á mikla virðingu fyrir friðhelgi einstaklingsins þegar þeir gáfu upplýsingar um erfðaefni þjóðarinnar til einkaaðila?

Heimdella
Neiií . . .

Tryggur
Þannig að ekkert bendir til að þessi málarekstur þinn skili neinu nema fjölmiðlaathygli fyrir þig.

Heimdella
(Brosir í myndavélina) Kannski ekki, en þetta er samt eitthvað sem þarf að gera.

Tryggur
En nú skyldist mér að þú vildir draga úr umsvifum ríkisins, af hverju?

Heimdella
Af því að það er kúgandi, óhagkvæmt og kostnaðarsamt.

Tryggur
En samt ætlar þú að hella þér út í þriðjung ríkisvaldsins, í það flókna og langdregna ferli sem málarekstur er og eyða formúgu af almanna fé til einskis.

Heimdella
Uuu . . . kannski?

Tryggur
Nú ert þú í þeim stjórnmálaflokki sem ræður hvað mestu um þessi mál, væri ekki vænlegra að fylgja leikreglum lýðræðisins og vinna að breytingum skattalaga á hinum lýðræðislega vettvangi flokksins?

Heimdella
Nei, það er of langdregið og ber lítinn ávöxt. Lýðræðið er alræði heimskunnar!!! (Réttir hnefann ógnandi í áttina að myndavélunum.)

Tryggur
Af hverju ertu þá í stjórnmálum, og ennfremur, ef þú ert svona ósátt við kerfið, afhverju ertu þá í þeim flokki sem hefur átt mestan þátt í að hanna það og það samfélag sem það er í?

Heimdella
Uuu . . . ég trúi á frelsi?

Tryggur
Væri ekki uppbyggilegra að þú snerir þér að einhverju verðugra starfi, t.d. að klára nám í ríkisrekna háskólanum sem þú ert alltaf að vitna í.

Heimdella
Jú, líklega væri bara best fyrir mig að halda mig á mottunni og gera eitthvað uppbyggilegt fyrir samfélagið. Svo get ég alltaf komist í fjölmiðla seinna.

Hundurinn byrjar aftur að lesa Morgunblaðið en Heimdella gengur að honum og byrjar að tína úr honum flærnar.

Útsending endar.

Deildu