Góðæri – hallæri

Logo

06/04/2000

Höfundur:

6. 4. 2000

Það hefur lengi verið talað um góðærið. Það er talað um að efnahagslífið sé í blússandi blóma og að öllum gangi allt í haginn. Vissulega hefur verið uppgangur í efnahagslífinu og er það vel. En þó má ávallt ganga að því sem vísu að allt er á hraðri niðurleið þegar kemur að kjarasamningum. Já menn […]

Það hefur lengi verið talað um góðærið. Það er talað um að efnahagslífið sé í blússandi blóma og að öllum gangi allt í haginn. Vissulega hefur verið uppgangur í efnahagslífinu og er það vel. En þó má ávallt ganga að því sem vísu að allt er á hraðri niðurleið þegar kemur að kjarasamningum.


Já menn vöknuðu við vondan draum, kjarasamningar voru á næstu grösum. Þetta svakalega góða góðæri (sem var svo gott, að elstu menn muna vart betri tíð) var á enda. En hefur þetta góðæri verið okkur til heilla?

Kröfur verkalýðsins
Nú hefur verkalýðsforystan sett fram sínar kröfur. Forystumenn verkalýðsins biðja ekki um einhverjar örfáar krónur. Foringjarnar hafa farið fram á að laun hækki um tugi prósenta.

Í fyrstu sýn virðast þetta háar kröfur. En þegar betur er að gáð, þá duga þessar hækkanir sjálfsagt ekki til að halda kaupmættinum eins og hann er í dag. Hvað þá að auka kaupmátt. En margir munu kenna verkalýðshreyfingunni um þá verðbólgu og ,,óstöðugleika’’ sem blasir við.

Rót vandans
Ef þróun efnahagsmála mun vera á þá leið að verðbólga fari upp, þá eru sökudólgarnir margir. Það má ekki gleyma því að verðlag er að hækka töluvert. Landssíminn er að tvöfalda fastagjaldið, tryggingafélögin er að hækka sín iðgjöld og bensín hefur hækkað töluvert, svo eitthvað sé nefnt. Allt er þetta að gerast áður en kjarasamningar eru gerðir!

Rót vandans er m.a. fólginn í því að sumir þjóðfélagshópar fengu gífurlegar launahækkanir fyrir stuttu. Svo háar voru þessar hækkanir að þær voru svo til jafnmiklar og mánaðarlaun þeirra sem lægstu laun hafa. Einnig hefur þessi gífurlega framkvæmdagleði landans haft mikið að segja, sem og ýmsar verðhækkanir.

Það er svo einkennilegt að þegar kemur að þeim sem hafa það verst þá eru aldrei til peningar til þess að hækka launin. Þó að fyrirtækin í landinu sé að skila meiri tekjuafgangi og eru að styrkja sig á annan hátt hafa þau aldrei efni á að greiða hærri laun.

Pétur Óli Jónsson

Deildu