Tíundi hver nemandi lagður í einelti

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

13/04/2005

13. 4. 2005

Samkvæmt nýrri könnun sem gerð var í 30 grunnskólum um allt land kemur fram að tíundi hver nemandi í 4.-7. bekk telur sig verða fyrir einelti. Hvernig sem á það er litið hlýtur þetta að teljast of hátt hlutfall. Margt hefur verið gert á undanförnum árum til að draga úr einelti í skólum en betur […]

Samkvæmt nýrri könnun sem gerð var í 30 grunnskólum um allt land kemur fram að tíundi hver nemandi í 4.-7. bekk telur sig verða fyrir einelti. Hvernig sem á það er litið hlýtur þetta að teljast of hátt hlutfall. Margt hefur verið gert á undanförnum árum til að draga úr einelti í skólum en betur má ef duga skal. Einelti getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér, mun alvarlegri en margir gera sér grein fyrir. Sumir þeirra sem verða fyrir ítrekuðu einelti í skólum verða fyrir varanlegum andlegum skaða.

Hvað er hægt að gera?
Einelti er að mínu mati viðráðanlegt vandamál. Það er hægt að koma í veg fyrir einelti með skipulögðum aðgerðum. Það er einkum tvennt sem vantar í íslenskt skólakerfi sem gæti dregið verulega úr einelti. Það vantar aga og þjálfun í mannlegum samskiptum.

Efla þarf aga
Agaleysi er ríkjandi í skólum á Íslandi. Auðvitað er misjafnlega staðið að agamálum í skólum en að mínu mati er almennt alltof lítið áhersla lögð á setja börnum skýrar hegðunarreglur. Börn þurfa skýrar og auðskiljanlegar reglur. Agi þarf alls ekki að vera neikvæður. Ég er ekki að tala um að kennarar eigi að öskra á nemendur sína eða beita niðrandi refsingum, heldur vil ég að börnum séu settar skýrar reglur um hvað má og hvað má ekki.

Kennum mannleg samskipti
Það kemur mér sífellt á óvart hve lítil áhersla er lögð á að þjálfa börn í mannlegum samskiptum. Ef það er eitthvað sem allir þurfa að kunna, þá er það að kunna að koma fram við náungann og læra að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Ég er sannfærður um að ef aukin áhersla yrði lögð á að kenna börnum að tjá sig og hugsa rökrétt myndi það draga verulega úr einelti. Enda er einelti fyrst og fremst viðbrögð barna við óöryggi og vanlíðan.

Alltof oft er því haldið fram að ekki sé hægt að kenna tjáningu og rökræna hugsun, því þessir hæfileikar séu meira eða minna meðfæddir. Þetta er kjaftæði. Rökhugsun og tjáning eru mikilvægir hæfileikar sem eru verulega háðir þjálfun og fræðslu.

Sjá nánar:
Umfjöllun um einelti á www.skodun.is

Deildu