Því hefur verið haldið fram að nýtt frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um útlendinga sé byggt á hræðslu við útlendinga og fordómum. Hvort sem fordómarnir eru meðvitaðir eða ekki. Sjálfur vonast ég til að hið meingallaða frumvarp hafi verið lagt fram vegna mistaka og ætla að trúa því þar til annað kemur í ljós. Það ætti að segja stuðningsmönnum frumvarpsins ýmislegt að rasistarnir í Framfarafélaginu styðja frumvarpið heilshugar.
Í ályktun Framfarafélagsins segir:
Framfarafélagið fagnar nýju frumvarpi dómsmálaráðherra til breytinga á lögum um útlendinga og er það von okkar að það verði til þess að skerpa á óvissuatriðum hvað varðar réttindi erlendra ríkisborgara hér á landi.
Framfarafélagið telur að einkum muni hið nýja frumvarp hamla gegn hentihjónaböndum sem og möguleikanum á nauðungar-hjónaböndum á meðal þeirra útlendinga sem hingað koma, og sé því góður áfangi á leið að ábyrgari og skynsamlegri meðferð á málum útlendinga hér á landi.
Stjórn Framfarafélagsins
Áður en einhver hneykslast yfir þeirri fullyrðingu minni að talsmenn Framfarafélagsins séu rasistar vil ég fá að útskýra mál mitt.
Samkvæmt orðabókarskilgreiningu getur orðið rasisti þýtt í það minnsta þrennt:
1. Einstaklingur sem hefur þá fordóma að einn kynþáttur sé æðri öðrum.
Þar segjast framfarafélagsmenn vera saklausir, en erfitt er að trúa þeim.
2. Einstaklingur sem mismunar fólki vegna uppruna þess, kynþáttar eða trú.
Framfarafélagsmenn styðja heilshugar lagafrumvörp og ríkisafskipti sem draga sérstaklega úr réttindum innflytjenda.
3. Einstaklingur sem talar illa eða niður til þeirra sem eru af öðrum uppruna en hann sjálfur.
Sjá nánast allt það sem Framfarafélagið lætur frá sér fara.
Rétt eins og „vinir“ mínir í Félagi íslenskra þjóðernissinna fullyrða talsmenn Framfarafélagsins að þeir séu ekki á móti einstaklingum af öðrum kynþætti. Það getur vel verið, en morgunljóst er að þeir eru meira en tilbúnir til að mismuna fólki vegna uppruna þess auk þess sem nánast allur málflutningur þeirra er lítið annað en rasistaáróður. Þess vegna segi ég, og stend við það, að talsmenn Framfarafélagsins eru rasistar.
Á heimasíðu þessara rasista er eingöngu að finna hrikalega neikvæðar fréttir sem allar tengjast innflytjendum. Fordómarnir leyna sér ekki í „fréttayfirliti“ þeirra sem augljóslega er sett fram til þess að skapa andúð og ótta gagnvart innflytjendum. Tökum nokkur dæmi:
Fyrirsagnir af netinu:
„Hælisleitendur í Svíþjóð skaða hendur sínar svo fingraför greinist ekki“; „Danmörk: Marokkóbúi grunaður um hryðjuverk“; „Flóttamaður kveikti í sér á flugvellinum í Gautaborg“;
„Mansal: Ekkert land undanskilið“; „Danir óttast hryðjuverk“; „Svíþjóð: Lindh-morðingi er sakhæfur“; „Amnesty: Ofbeldi gegn konum yfirþyrmandi“; „NATO: Aðgerðir gegn mansali í athugun“; „Par frá Nígeríu stöðvað með stolin skilríki“; „Húsaleigusamningur þýddur á pólsku“; „Hælisumsóknum fækkar í Bretlandi“; „Tvímenningarnir frá Sri Lanka verða sendir úr landi í dag“; „Stjórnvöld verji rétt Íslendinga“; „Óvíst um fjölda hjónabandanna“.Fréttir/greinar á forsíðu:
„Ráðherra innflytjendamála segir af sér vegna lélegs eftirlits með innflytjendum“; “ Framfarafélagið fagnar frumvarpi um breytingar á lögum um útlendinga“; “ Málum fer fjölgandi þar sem útlendingar koma til landsins án tilskilinna leyfa“; „Nokkur hundruð útlendinga búsett á Íslandi án tilskilinna dvalarleyfa“; Árásarmennirnir í Madrid taldir tengjast herskáum múslimum í Bretlandi; „Með ábyrgð og aðlögun að leiðarljósi í innflytjendamálum þjóðarinnar“; „Lífleg umræða í Vestur-Evrópu um það hvaða leið sé heppilegust í innflytjandamálunum“; „Dönsk stjórnvöld hyggjast herða reglur um dvalarleyfi erlendra trúboða“; „Hollensk stjórnvöld kynna róttækar ráðstafanir í málefnum flóttamanna“; „Þrír kærðir í kjölfar þess að hópslagsmál brutust út í Breiðholti um síðustu helgi“; „Vaxandi áhyggjur af síauknum straumi innflytjenda til ríkja í Vestur-Evrópu“; „Hátt hlutfall innflytjenda vandamál í sumum menntaskólum í Danmörku“; „Þingnefnd gagnrýnir bresk stjórnvöld fyrir of mikla linkind gagnvart hælisleitendum“; „Innflytjendastefna hollenskra stjórnvalda undanfarin 30 ár ein stór mistök“; „Múslimaklerkur dæmdur á Spáni fyrir að hvetja menn til að beita konur ofbeldi“
Þetta eru allar fyrirsagnirnar sem eru að finna á forsíðu vefs rasistafélagsins, ég hafði ekki fyrir því að velja þær verstu. Allar fréttirnar, ég endurtek ALLAR, fjalla um útlendinga og þá meintu ógn sem af þeim stafar. Rasistaáróðurinn er svo augljós að það þarf í raun ekki að fjalla frekar um hann.
Segir það ekki okkur eitthvað að þessi rasistasamtök styðja útlendingafrumvarpið heilshugar?
Tökum öll þátt í að berjast gegn fordómum og mismunun. Mótmælum útlendingafrumvarpinu!