Verufræðileg rökleysa

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

12/04/2004

12. 4. 2004

Vefritið deiglan.com hefur þann kost umfram flest önnur íslensk vefrit að þar er ekki aðeins fjallað um pólitík. Oft má finna þar áhugaverðar greinar um vísindi, heimspeki, trú og fleira. Um daginn skrifaði þar Hörður Ægisson greinina „Anselm af Kantaraborg“, en hún fjallar um erkibiskupinn Anslem og verufræðileg rök hans fyrir tilvist Guðs. Samkvæmt greinarhöfundi […]

Vefritið deiglan.com hefur þann kost umfram flest önnur íslensk vefrit að þar er ekki aðeins fjallað um pólitík. Oft má finna þar áhugaverðar greinar um vísindi, heimspeki, trú og fleira. Um daginn skrifaði þar Hörður Ægisson greinina „Anselm af Kantaraborg“, en hún fjallar um erkibiskupinn Anslem og verufræðileg rök hans fyrir tilvist Guðs. Samkvæmt greinarhöfundi eru þessi rök þau frægustu sem sett hafa verið fram sem sönnun fyrir tilvist Guðs.

Um verufræðileg rök um tilvist guðs segir greinarhöfundur:

Til að byrja með þá er nauðsynlegt að skilja grundvöllinn að hugmyndinni um Guð – æðsta og fullkomnasta vera sem við getum hugsað okkur. Ekkert gæti hugsanlega verið meira.
[…]

Næst skulum við gera ráð fyrir að Guð sé aðeins til í hugarburði okkar – ekki í raunveruleikanum. Og við getum ekki annað en fallist á það, af því að við erum einmitt á þessari stundu að hugsa um Guð. En ef við hugsum okkur veru sem hefur alla þá eftirsóknarverðu eiginleika til að bera, nema það eitt, að vera til, þá er hún augljóslega ekki hin æðsta og fullkomnasta vera sem til er. Því vera sem er til í raunveruleikanum, hlýtur að vera fullkomnari heldur en vera sem er aðeins til sem hugmynd í huga okkar. Af því leiðir, að það er hrein fjarstæða að gefa okkur það, að Guð sé einungis til í huga okkur. Það sem er óraunverulegt getur aldrei verið fullkomnara en það sem er raunverulegt – Guð hlýtur því að vera til.

Þetta eru öll rökin. Að mínu mati alger rökleysa. Engu að síður voru þessi rök í huga Anslems „óyggjandi sönnun“ fyrir tilvist Guðs. Reyndar svo óyggjandi að Anslem hafði þetta að segja um hina vantrúuðu:

„Hví segir heimskinginn í hjarta sínu: Enginn Guð, þegar svo augljóst er skynsamlegri hugsun að þú sért mestur alls? Hvers vegna nema fyrir þá sök að hann er bæði heimskur og vitlaus?“

Hörður viðurkennir að það er eitthvað undarlegt við þessa „sönnun“ Anslems en heldur því jafnframt fram að erfitt sé að átta sig á því hvað það er.

„En þrátt fyrir góð tilþrif Anselms í rökfærslu sinni, þykir flestum eitthvað bogið við hana. Fæstir hafa þó getað komið sér saman um, hvað nákvæmlega það sé. Og það gerir sönnunina líka svona einstæða.“

Ég tel sjálfan mig ekki vera merkilegan heimspeking en við lestur greinarinnar um Anslem sá ég strax nokkur atriði sem sýna glögglega fram á rökleysur erkibiskupsins.

1. Fyrst bera að nefna að hugtakið „Guð“ er skilgreint sem „æðsta og fullkomnasta vera sem við getum hugsað okkur.“ Hvað átt er við með orðinu „vera“ er óljóst. Ef átt er við „fyrirbrigði“ mætti túlka fullyrðinguna á þann veg að „Guð“ tákni það sama og orðið „alheimurinn“. Ef sú er raunin hefur „Guð“ misst alla yfirnáttúrulega eiginleika sína og er ekki það sem prestar hafa starfað við að útskýra. Ef með orðinu „vera“ er átt við „yfirnáttúrulegan skapara“ eins og þann Guð sem kristnir menn trúa á þá er ljóst að „sönnun Anslems“ er engin sönnun. Líklegt verður að telja að Anslem hafi einmitt átt við slíkan Guð enda var hann biskup.

2. Það að geta ímyndað sér tilvist Guðs (hins kristna skapara) getur ekki verið nein „sönnun“ fyrir tilvist hans eins og gefið er í skyn. Reyndar virðist það vera aðalforsenda „sönnunarinnar“.

Prufið að lesa neðangreinda setningu og skipta út feitletraða orðinu og setja eitthvað af eftirfarandi orðum inn í staðinn [tannálfur, dreki, sæskrímsli, marsbúi, Gandálfur, draugur, eða eitthvað yfirnáttúrulegt fyrirbrigði að ykkar eigin smekk] :

Næst skulum við gera ráð fyrir að Guð sé aðeins til í hugarburði okkar – ekki í raunveruleikanum. Og við getum ekki annað en fallist á það, af því að við erum einmitt á þessari stundu að hugsa um Guð. En ef við hugsum okkur veru sem hefur alla þá eftirsóknarverðu eiginleika til að bera, nema það eitt, að vera til, þá er hún augljóslega ekki hin æðsta og fullkomnasta vera sem til er. Því vera sem er til í raunveruleikanum, hlýtur að vera fullkomnari heldur en vera sem er aðeins til sem hugmynd í huga okkar. Af því leiðir, að það er hrein fjarstæða að gefa okkur það, að Guð sé einungis til í huga okkur. Það sem er óraunverulegt getur aldrei verið fullkomnara en það sem er raunverulegt – Guð hlýtur því að vera til.

3. Persónuárásir eru yfirleitt afar vinsælar hjá þeim sem geta ekki rökstutt mál sitt. Stundum kallaðar ad hominem rökvillur. En það er þegar ráðist er á persónu einhvers eða einkenni en ekki rök. Orð Anslams sjálfs til hinna vantrúuðu eru ágætt dæmi:

„Hví segir heimskinginn í hjarta sínu: Enginn Guð, þegar svo augljóst er skynsamlegri hugsun að þú sért mestur alls? Hvers vegna nema fyrir þá sök að hann er bæði heimskur og vitlaus?“

Ég fæ því ekki séð í fljótu bragði hvernig verufræðileg rök Anslems geta talist „hugvitssamleg“ eða „glæsileg“. Í besta falli eru rökin skemmtilegur orðaleikur.

Nánar:
Anselm af Kantaraborg – www.deiglan.com
Er til einhver guð, annars staðar en í hausum fólks? – www.visindavefur.hi.is

Deildu