Útlendingafrumvarp – Umsögn Mannréttindasamtaka innflytjenda

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

13/04/2004

13. 4. 2004

Efni: 749. mál – Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96 frá 15. maí 2002, með síðari breytingum. Í þessu bréfi má finna athugasemdir samtakanna um frumvarpið en það er í grófum dráttum álit samtakanna að fjölmörg atriði í frumvarpinu séu til þess fallin að auka misrétti (kynþátta- og […]

Efni: 749. mál – Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96 frá 15. maí 2002, með síðari breytingum.


Í þessu bréfi má finna athugasemdir samtakanna um frumvarpið en það er í grófum dráttum álit samtakanna að fjölmörg atriði í frumvarpinu séu til þess fallin að auka misrétti (kynþátta- og þjóðernismisrétti). Frumvarpið er hlaðið kynþáttahyggju (rasisma) sem mjög sorglegt en jafnframt alvarlegt er að sjá í opinberum plöggum Lýðveldisins Íslands. Útlendingastofnun er einnig gefið aukið vald í frumvarpinu m.a. í mjög viðkvæmum málum en samtökin vilja enn koma því á framfæri að þau lýsa vantrausti á starfshætti stofnunarinnar. Frumvarpið vekur ugg hjá fjölskyldum fólks af erlendu bergi brotnu, og vekur hjá því ótta um framtíðaröryggi sitt og barna sinna.

Eftirfarandi eru athugasemdir samtakanna, grein fyrir grein:

1. grein
Engar athugasemdir

2. grein
a liður: Frumvarpið leggur til að misrétti sé beitt og það lögfest gagnvart fólki af erlendum uppruna og fjölskyldum fólks af erelndum uppruna, með því að veita erlendum maka ekki möguleika á að búa hjá maka sínum á Íslandi fyrr en eftir 24 ára aldur. Ákvæði frumvarpsins koma í veg fyrir giftingar íslenskra ríkisborgara út fyrir Ísland, mismuna og brjóta á mannréttindum erlendra ríkisborgara sem búa á íslandi með því að torvelda þeim að velja sér maka utan Íslands (oft frá upprunalandinu) og þar með þrengir frumvarpið, verði það að lögum, verulega möguleika þessa hóps til að eignast fjölskyldulíf og taka eðlilegan þátt í samfélagi fólks. Þjóðernishrokann og eineltisandann þarf vart að tíunda í þessari grein og hreinlega er óskiljanlegt að tillögur um slíka lagasetningu skuli að finna nú á dögum hérlendis. Um er að ræða tillögu sem brýtur gegn mannréttindasáttmálum og stjórnarskránni sjálfri.

Samtökin mótmæla einnig því að mismuna eigi foreldrum erlendra ríkisborga, ömmum og öfum íslenskra og erlendra ríkisborga með því að meina þeim dvalarleyfis á grundvelli þess að teljast ekki nánustu aðstandendur. Ekki er heldur að sjá nein rök fyrir þessari auknu mismunun þar sem viðkomandi hafa þurft að sýna fram á sjálfstæða framfærslu í túlkun núverandi laga með því að hafa milli 70.000 og 80.000 kr. haldbærar inni á reikningi á nafni viðkomandi á Íslandi allt tímabilið sem leyfi veitt til. Það verður að teljast alvarlegt mannréttindabrot af hendi ríkis ef það meinar börnum umgengni við afa sína og ömmur eða setur mjög verulegar hömlur á. Ekki er tekið fram hvað eigi að gera í málefnum þeirra sem nú þegar dvelja hérlendis og þurfa að endurnýja leyfin eftir gildistöku laganna, á að flengja fólkið úr landi við grát og gnístran tanna eða munu lögin horfa til þeirra sérstöku stöðu og endurnýja þau dvalarleyfi sem um ræðir? Þetta þyrfti að koma fram sérstaklega.

b. liður: Samtökin telja mjög varasamt að orða greinina á þann hátt að hjón þurfi að ,,sýna fram á með óyggjandi hætti” að til hjúskapar hafi ekki verið stofnað til að afla dvalarleyfis. Hvernig er það hægt? Samtökin vilja líka spyrja um hve stór þáttur í ákvörðun um makaval tilvonandi dvalarleyfi á Íslandi megi vera? Ekki er ólíklegt og alls ekki óeðlilegt að slíkir þættir, sem teljast til félagslegrar stöðu, skipti verulegu máli auk fjölmargra annarra í makavali. Einnig vilja samtökin gjarnan fá svör nefndarinnar eða semjenda frumvarpsins við því hvaðan þeir þættir koma úr lögum sem fylla þann flokka að teljast góðir og gildir sem tilgangur hjónabands?

Hjónabandið sem grundvallarstofnun samfélagsins hefur alla tíð byggst á ýmsum félagslegum þáttum, s.s. fjárhagsstöðu tilvonandi maka, menntun, félagslegri viðurkenningu ýmissi svo nokkuð sé nefnt, nú og svo auðvitað á ástinni sem hefur spilað æ stærri rullu eftir því sem á hefur liðið. Hún getur þó engan veginn talist hin eina, sanna og lagalega rétta í makavali fólks, hvað þá að verjandi sé að stjórnvöld banni eða setji viðurlög við öðrum þáttum. Í greinargerð með frumvarpinu eru talin upp ýmis einkennileg atriði, eins og til dæmis það að hjón þurfi að skilja tungu hvers annars og að aðilar hafi ekki búið saman fyrir hjónabandið. Til fróðleiks vilja samtökin nefna að sambúð karls og konu er óæskileg, bönnuð og jafnvel refsiverð í sumum ríkjum fyrir giftingu.

Samtökin telja enga ástæðu til svo harðrar lagasetningar vegna ástæðna um nauðungarhjónabönd (vilji beggja hjóna ekki fyrir hendi), þekkja þau enda engin dæmi um slíkt á Íslandi þrátt fyrir ítarlega eftirgrennslan. Þau eru a.m.k. mjög fá ef einhver finnast og eiga þá bara auðvitað að fá meðhöndlun sem hver önnur glæpamál en ekki að notast til að berja á minnihlutahópi með sviptingu almennra mannréttinda.

3. grein
Samtökin mótmæla að ákvörðunin sem um getur sæti ekki kæru.

4. grein
Engar athugasemdir.

5. grein
Samtökin mótmæla þessu því sumir erlendir ríkisborgarar dvelja ,,óvart” ólöglega í landinu vegna misskilnings og skorts á þekkingu á stöðu sinni, réttindum og skyldum. Stjórnvöld ættu frekar að auka upplýsingastreymi til erlendra ríkisborgar hérlendis og stunda eftirlit og bjóða aðstoð við þá sem ekki eru á réttum leyfum til að bæta úr.

6. grein
Engar athugasemdir.

7. grein
a. liður: Samtökin mótmæla harðlega auknum heimildum til húsleitar á heimilum innflytjendafjölskyldna. Í þessu eiga að gilda sömu lög og reglur og til húsleitar almennt.

b. liður: Samtökin mótmæla harðlega þeim grófu mannréttindabrotum sem lögð eru til í þessari grein, án nokkurs grunar um lagabrot. Um er að ræða að lögsetja svívirðilega aðför að einkalífi innflytjenda með því að vaða inn á mjög viðkvæmt og persónulegt svæði, kjarna friðhelgis einkalífsins (má m.a. benda á að um líffræðilegan skyldleika er ekki alltaf að ræða og óeðlilegt að fara fram á slíkt, t.d. ef um er að ræða börn sem verða til við nauðganir eða aðrar aðstæður þar sem fólk er fórnarlömb á einhvern hátt). Samtökin leggjast einnig mjög gegn því að Útlendingastofnun skuli fá heimild til að krefjast sýnatöku og telja stofnunina alls ekki hæfa til að fara með slíkt vald.

8. grein – 15. grein
Engar athugasemdir.

16. grein
Samtökin mótmæla harðlega að settur verði inn þessi g. liður sem tillaga er um í aðra málsgrein enda telja samtökin að ekki ætti að vera refsivert að afla dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar nema að auðsannað sé að um þann eina tilgang sé að ræða. Ekki er óeðlilegt að dvalarleyfi sé einn að þeim þáttum sem tilvonandi makar líta til við makaval.

Að lokum vilja samtökin biðja nefndina að íhuga vel hvert stefnir í tillögum að lagasetningu gegn þeim minnihlutahópi sem eru innflytjendafjölskyldur á Íslandi. Þessum hópi tilheyra innflytjendurnir sjálfir, íslenskir makar þeirra og íslensk börn. Er ekki keyrt fram úr hófi með lagasetningum sem meina minnihlutahópi að gifta sig eins og annað fólk, meinar börnum að umgangast afa sína og ömmur og krefst lífsýnatöku úr umsækjendum um lagaleg leyfi. Nú þegar gilda strangar reglur um flutning fólks til landsins og ekki er að sjá að um nokkurn vanda sé að ræða fyrir íslenskt samfélag. Þvert á móti eru innflytjendurnir nauðsynlegir samfélaginu, eru samborgarar og skattgreiðendur en engan veginn afætur á þá sem telja sig þess megnuga að kalla sig: ,,Okkur hin”. Er ekki nóg komið?

Reykjavík, 13. apríl 2004

Deildu