Þær vafasömu yfirlýsingar sem hafa borist frá meðlimum Sambands ungra Sjálfstæðismanna síðastliðna viku vekja upp stórar spurningar um hver stefna SUS sé í ýmsum málum. Í fyrsta lagi á ég hér við skrif Ívars Páls Jónssonar á Frelsi.is (opinberri heimasíðu Heimdallar) þar sem hann réttlætir launamun kynjanna með því að konur gangi með börn og þær séu því óhagkvæmari vinnukraftur en karlmenn. Í öðru lagi á ég við ályktun Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, sem bar yfirskriftina „Ísland fyrir Íslendinga“ þar sem segir að útlendingar eigi ekki að fá ríkisborgararétt á Íslandi nema að þeir standist grunnskólapróf í íslensku.
Félagslegur Darwinismi?
Skrif Ívars Páls Jónssonar á frelsi.is eru ágætt dæmi um það hvað gerist þegar stjórnmálastefna breytist í hreintrúarstefnu. Ívar Páll og undirritaður eru líklegast sammála um að helsta og göfugasta markmið stjórnmála sé að tryggja frelsi einstaklingsins. Við deilum hins vegar um leiðina að markmiðinu. Ívar Páll og margir aðrir frjálshyggjumenn virðast aðhyllast einhverskonar félagslegan Darwinisma þar sem þeir telja að laun og aðrar aðstæður fólks séu alltaf ,,réttlátt“ ákvarðaðar af hinum heilaga markaði. Ergo, lægri laun kvenna eru fullkomnlega réttlætanleg á þeirri forsendu að þær geti orðið ófrískar og því séu þær óáreiðnalegra vinnuafl.
Á meðan Ívar Páll telur launamun kynjanna vera réttláta niðurstöðu markaðarins sé ég augljóst dæmi um það hvernig óbeislaður „markaðurinn“ getur skert sjálfsagt frelsi einstaklingsins. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að ekki eigi að mismuna fólki eftir þjóðerni, litarhætti, kyni eða kynhneigð þess sama hvað markaðurinn segir.
Útlendingahatur eða misskilningur?
Ályktun Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, þess efnis að útlendingar eigi ekki að fá ríkisborgararéttindi á Íslandi nema að þeir standist grunnskólapróf í íslensku verður að teljast afar vafasöm, eða í það minnsta mjög barnaleg yfirlýsing. Sérstaklega í ljósi þess að ályktunin bar yfirskriftina „Ísland fyrir Íslendinga“. Ályktunin bendir annað hvort til fordóma gagnvart útlendingum eða til mikillar fáfræði um aðstöðu þeirra.
Hver er opinber stefna SUS?
Ég geri mér grein fyrir að skoðanir Ívars Páls og félagsmanna Varðar eru ekki endilega lýsandi fyrir hugsunarhátt ungra sjálfstæðismanna almennt og mér dettur ekki í hug að halda slíku fram. Mér finnst hins vegar löngu orðið tímabært að stjórn SUS komi fram og lýsi því yfir hver raunveruleg stefna sambandsins er. Mér þykir líklegt að margir félagsmenn SUS kunni því illa að vera kenndir við þær skoðanir sem Ívar Páll, Björgvin Guðmundsson (ritstjóri Frelsi.is) og stjórnarmeðlimir Vörðu hafa haldið á lofti. Það vona ég að minnsta kosti.
Sjálfstæðismenn voru duglegir fyrir síðustu kosningar að gagnrýna Samfylkinguna fyrir óljósa stefnu og töluðu einnig um mikinn ágreining meðal Samfylkingarmanna í veigamiklum málum. Ég ætla ekki að rökræða um sannleiksgildi þessara ásakana að svo stöddu en ég er sammála því að almenningur eigi rétt á því að vita fyrir hvað stjórnmálasamtök standa.
Það er greinilega mikill ágreiningur um hvað SUS stendur fyrir. Björgvin Guðmundsson ritstjóri Frelsi.is segir m.a. í pistli sínum á Heimstorgi:
,,… margir hafa lagt töluvert á sig til að hvítþvo sig af þeim skoðunum sem birtust í þessum tiltekna Frelsara Ívars Páls Jónssonar og jafnvel kastað hugsjónum sínum á glæ til þess eins að forðast að styggja háværan hóp. Kannski heillavænlegt fyrir sinn pólitíska frama innan Sjálfstæðisflokksins en örugglega svik við málstaðinn: frjálshyggjuna“.
Ég hlýt því að spyrja: Hver er opinber stefna SUS?