Sameinum atvinnuráðuneytin

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

15/11/1999

15. 11. 1999

Frá því við fengum framkvæmdavaldið inn í landið fyrir 95 árum hefur ráðuneytum fjölgað gífurlega. Sem væri svo sem ekki alslæmt ef ekki væri fyrir það að niðurstaðan hefur orðið lítil ráðuneyti sem oft eiga í erfiðleikum með langtímastefnumótun og eru höll undir sérhagsmuni skjólstæðinga sinna. Fjarstýrð ráðuneyti Ég held að það velkist fæstir í […]

Frá því við fengum framkvæmdavaldið inn í landið fyrir 95 árum hefur ráðuneytum fjölgað gífurlega. Sem væri svo sem ekki alslæmt ef ekki væri fyrir það að niðurstaðan hefur orðið lítil ráðuneyti sem oft eiga í erfiðleikum með langtímastefnumótun og eru höll undir sérhagsmuni skjólstæðinga sinna.


Fjarstýrð ráðuneyti
Ég held að það velkist fæstir í vafa um það að fagleg vinnubrögð hafa ekki átt upp á borðið þegar kemur að langtímastefnumótun í sumum ráðuneytum og fara landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti þar fremst í flokki. Enda er ástandið sennilega hvergi verra en einmitt þar.

Kvótakerfið er ekki hannað í sjávarútvegsráðuneytinu heldur af nefnd hagsmunaaðila. Það skýrir ef til vill öðru fremur þá vitleysu að úthluta veiðiheimildum til útgerðarmanna án þess að nokkurt gjald komi fyrir. Þegar kvótakerfið var til var hlutverk sjávarútvegsráðuneytisins að segja já og amen en ekki það að móta stefnuna. Síðan þá horfum við upp á að veiðiheimildir ganga kaupum og sölum án þess að eigandi auðlindarinnar, íslenska þjóðin, fái nokkuð í sinn hlut.

Sú stefna sem hefur ráðið ferðinni í landbúnaðarmálum ber ekki vott um mikla framsýni. Í upphafi kreppunnar miklu á fjórða áratugnum var brugðið á það ráð að leggja tolla á innfluttar landbúnaðarafurðir til að vernda bændur sem þoldu ekki erlend undirboð. Þegar menn vöknuðu upp við slæman draum nokkrum árum síðar og komust að því sér til mikillar undrunar að þetta leiddi til stórkostlegra verðhækkana var gripið til þess að veita bændum ríkisstyrki til að niðurgreiða vöruverð. Álögur landbúnaðarins á neytendur voru því lækkaðar með því að hækka skatta sömu aðila. Þetta heimskulega fyrirkomulag hefur svo verið látið viðgangast í þau um það bil 60 ár sem síðan eru liðin.

Veikleiki ráðuneytanna
Eins og dæmin tvö að framan sýna fer langtímastefnumótun ekki fram í þessum litlu ráðuneytum sem hafa löngum verið óhugnanlega höll undir sérhagsmuni skjólstæðinga sinna. Þannig virðast ráðherrar oft ekki líta á sig sem fulltrúar þjóðarinnar allrar heldur eingöngu þeirra stétta sem eiga sitt undir því sem frá ráðuneytunum kemur. Í þessu hefur svo spilling og óráðsía ráðið ríkjum. Ráðherrar hafa tekið afstöðu með “sínu fólki” án þess að taka tillit til þess hvaða áhrif ákvarðanir þeirra hafa á þjóðarhag.

Atvinnuráðuneyti
Þessu verður því aðeins snúið við með því að sameina ráðuneyti undir einn og sama ráðherrann. Atvinnuráðuneytin ættu með réttu öll að heyra undir sama hatt. Með því að sameina landbúnaðar-, sjávarútvegs og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti í eitt atvinnuvegaráðuneyti er stigið stórt skref í átt til skynsamlegri stefnumótunar. Með því að sami ráðherra verður í forsvari fyrir fleiri en eina atvinnugrein verður hann að taka tillit til þarfa þeirra allra. Þannig geta ráðherrar ekki lengur leikið einleik sem er til þess saminn að sannfæra bændur eða útgerðarmenn um að þeir séu þeirra menn á sama tíma og þeir svína gjörsamlega á hagsmuni annarra landsmanna.

Deildu