Það gladdi mig mikið að lesa nýlegt frumvarp Marðar Árnasonar um afnám rukkunar sóknargjalda til þeirra sem kjósa að standa utan trúfélaga. Ef frumvarp Marðar verður samþykkt hefur mikilvægum áfanga verið náð í baráttunni um raunverulegt trúfrelsi á Íslandi. Eins og við höfum áður bent á hér á Skoðun þá er alls ekki raunverulegt trúfrelsi hér á landi.
Óviðeigandi ríkisafskipti
Það er vægast sagt óviðeigandi að ríkið skuli sjá um að rukka landsmenn um sóknargjöld fyrir hönd einstakra trúfélaga eins og nú er gert. Í réttlátu samfélagi myndu trúfélögin sjálf sjá um að rukka meðlimi sína um sóknargjöld til dæmis með því að senda þeim gíróseðla. Slíkt gera íþróttafélög, stjórnmálasamtök og önnur félagasamtök eins og rétt og eðlilegt er.
Í frumvarpi sínu leggur Mörður ekki til að ríkið hætti að innheimta sóknargjöld fyrir skráð trúfélög en leggur hins vegar til að ríkið hætti að rukka fólk sem kýs að standa utan trúfélaga um sóknargjöld. En eins og staðan er í dag þurfa þeir sem standa utan trúfélaga að greiða í svokallaðan Háskólasjóð í staðinn. Þetta er fáránlegt þar sem það er augljóslega ekki sanngjarnt að trúleysingjar þurfi að greiða meira til menntunar en aðrir landsmenn.
Göngum alla leið
Um leið og ég fagna frumvarpi Marðar bendi ég á að eðlilegast væri að sjálfsögðu að aðskilja ríki og kirkju enda er það afar óeðlilegt að ríkisvald skuli skipta sér af og hafa áhrif á trúariðkanir og -skoðanir þegna sinna. Sjálfkrafa skráning barna í trúfélög foreldra, innheimta ríkisins á sóknargjöldum, hlutdræg kynning á trúarbrögðum í grunnskólum landsins og trúaráróðursbæklingar sem eru sendir inn á hvert heimili landsins með stuðningi ríkis og forseta eru allt beinar eða óbeinar afleiðingar af þeirri staðreynd að hér er rekin þjóðkirkja. Allt frelsiselskandi og lýðræðissinnað fólk hlýtur því að krefjast þess að ríki og kirkja verði aðskilin sem fyrst.