Um trúfræðslu og trúboð í skólum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

16/07/2003

16. 7. 2003

Evrópunefnd sem vinnur gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi gaf út skýrslu nú fyrir skömmu um stöðu mála á Íslandi. Í skýrslunni er kristinfræðikennsla í skólum gagnrýnd. Kristinfræðslan er skyldufag sem kann að valda fordómum og getur verið erfitt fyrir foreldra að sækja um undanþágu fyrir börnin sín. Kristinfræðsla í skólum ýtir undir fordóma Í fyrsta lagi […]

Evrópunefnd sem vinnur gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi gaf út skýrslu nú fyrir skömmu um stöðu mála á Íslandi. Í skýrslunni er kristinfræðikennsla í skólum gagnrýnd. Kristinfræðslan er skyldufag sem kann að valda fordómum og getur verið erfitt fyrir foreldra að sækja um undanþágu fyrir börnin sín.


Kristinfræðsla í skólum ýtir undir fordóma
Í fyrsta lagi er ekki boðið upp á neina þjónustu fyrir nemendur sem ekki sækja kristinfræðitíma og því þurfa þeir yfirleitt að hanga einir á göngum skólanna á meðan kennslan stendur yfir.

Í öðru lagi getur það reynst afar erfitt fyrir börn að sleppa kristinfræðslunni af félagslegum ástæðum. Fátt þykir óöruggum börnum og unglingum erfiðara en að vera stimpluð öðruvísi og mörg dæmi eru um að nemendur hafi orðið fyrir áreiti, og stundum einelti, frá skólafélögum og jafnvel kennurum vegna þess að þau sitja ekki kristinfræðsluna, eru annarrar trúar eða trúlaus.

Stjórn Siðmenntar berast reglulega athugasemdir frá foreldrum barna vegna óeðlilegra tengsla trúar í skólastarfi. Hér eru örfá nýleg dæmi:

„Í einum kristinfræðitímanum bað kennarinn alla sem tryðu á Guð að rétta upp hönd! Dóttir mín þorði ekki annað en rétta upp hönd eins og allir hinir.“

„[Dætur mínar komust í] vandræði vegna hneykslunartals KENNARA á trúleysi þeirra, voru báðar skammaðar beint fyrir framan bekkinn fyrir að trúa ekki á guð.“

„Þegar einn kennaranna frétti [að barnið mitt ætlaði að fermast borgaralega…] hélt hann langar tölur yfir bekknum um siðleysi trúleysis og borgaralegrar fermingar.“

„Einu sinni til tvisvar á ári er farið með börnin í kirkju til messu. […] ég bað um að barnið mitt færi ekki. Var tekið nokkuð vel í það en þó sagt að slíkt væri kannski ekki hægt nema finnist starfsmaður sem vildi vera eftir til að gæta barnsins á meðan ALLIR færu til messu. Var mér gert ljóst að ég væri að skapa vesen.“

Trúboð ekki fræðsla
Í frétt Morgunblaðsins síðastliðinn fimmtudag fullyrðir biskup að kristinfræðslan sé „ekki trúboð heldur fræðsla um trúarbrögð sem meirihluti landsmanna aðhyllist…“ Gott ef satt væri. Kristinfræðslan í skólum er yfirleitt kennd í formi trúboðs en ekki hlutlausrar fræðslu. Enda ekki undarlegt þar sem flestar bækur sem notaðar eru til kennslunnar eru skrifaðar af prestum. Bækurnar fjalla um goðsagnir kristinnar trúar eins og um staðreyndir væri að ræða og börn hvergi vöruð við því að efnið sé ekki byggt að sagnfræðilegum staðreyndum.

Í sumum skólum eru haldnir bænadagar, börn látin búa til bænabækur með kristnum bænum og í sumum skólum eru börn látin fara með kristna bæn við upphaf kennslutíma hvern morgun!

Í aðalnámsskrá grunnskóla er auk þess gert ráð fyrir því að kristin trú og goðsögur hennar séu staðreyndir: „Kristin trú á sér rætur í sögulegum atburðum, allt frá tímum Gamla testamentisins, sem ná hámarki í lífi og starfi, dauða og upprisu Jesú Krists.“ (bls. 7-8)
Líf, starf og dauði Jesú eru ekki sögulegir atburðir. Sagnfræðilegar heimildir benda ekki til þess. Hvað þá meint upprisa Jesú.

Enn fremur er kveðið á um það í námsskránni að „Kristilegt siðgæði [eigi] að móta starfshætti skólans ásamt umburðarlyndi og lýðræðislegu samstarfi.“ (bls. 8).
Þarna er óbeint sagt að umburðarlyndi, lýðræði og siðferði séu sérstaklega kristin fyrirbæri. Það er vitanlega ekki rétt. Það er erfitt fyrir sjálfsmynd þeirra sem ekki eru kristnir (trúlausir eða annarar trúar) að hlusta á slíkan áróður.

Námsskráin segir svo skýrt og skilmerkilega frá því að lokamarkmiðin með kristinfræðikennslu séu að börn „efli trúarlegan… þroska sinn“ (bls. 13). Auk þess eiga börnin að gera „sér grein fyrir því hvaða þýðingu krossdauði Jesú og upprisutrúin [hafi] fyrir kristna einstaklinga andspænis dauðanum og þá von sem henni tengist“ (bls. 21). Menn hljóta að spyrja sig hvort slík trúfræði eigi heima í skólum? Hvaða þýðingu hefur krossdauðinn þá fyrir trúlausa og þá sem eru annarar trúar? Á að kenna börnum að þau fari til helvítis?

Trúarbragðafræði sem hluti af sagnfræðikennslu
Ekkert er óeðlilegt við að kenna börnum um uppruna og áhrif hinna ýmsu trúarbragða á mannkynssöguna. Kennslan verður þó að vera byggð á veraldlegum grunni en ekki guðfræðilegum. Í skólum á að kenna staðreyndir sem staðreyndir og goðsagnir sem goðsagnir. Ekki goðsagnir sem staðreyndir og öfugt. Það er verkefni foreldra að innræta börnum trúarhugmyndir ef þeir það kjósa.

Kristin trú og önnur trúarbrögð hafa haft mjög mikil áhrif á líf og aðstæður manna í gegnum tíðina, bæði slæm og góð. Mjög mikilvægt er því að skólar fræði nemendur sína um þessi áhrif á hlutlausan og óhlutdrægan hátt. Það hvetur hins vegar, rétt eins og Evrópunefndin bendir á, bæði til fordóma og umburðarleysis þegar kennarar eru settir í trúboðshlutverk presta og saklausir skólakrakkar gerðir, óaðspurðir, að sóknarbörnum ríkiskirkjunnar.

*Þessi grein var einnig birt í Morgunblaðinu þann 16. júlí 2003.

 

Deildu