Hið þríeina olíufélag

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/07/2003

23. 7. 2003

Það verður spennandi að sjá hvort jeppafólkið í olíubransanum fær að bera ábyrgð á gjörðum sínum á næstu misserum. Ef marka má fréttir undanfarna daga virðist nefnilega vera sem stór hluti þeirra sem starfa og hafa starfað hjá hinu þríeina olíufélagi (Esso, Olís og heilögum Skeljungi) eigi sér andlegan leiðtoga í JR gamla í Dallas. […]

Það verður spennandi að sjá hvort jeppafólkið í olíubransanum fær að bera ábyrgð á gjörðum sínum á næstu misserum. Ef marka má fréttir undanfarna daga virðist nefnilega vera sem stór hluti þeirra sem starfa og hafa starfað hjá hinu þríeina olíufélagi (Esso, Olís og heilögum Skeljungi) eigi sér andlegan leiðtoga í JR gamla í Dallas.


Fjöldaafsagnir yfirvofandi?
Af og til heyrum við um fjöldauppsagnir í íslenskum fjölmiðlum (og sum okkar jafnvel lent í þeim oftar en einu sinni). Sjaldnar heyrum við þó um fjöldaafsagnir. Stundum kemur það þó fyrir að einstakir toppar þurfa að segja af sér vegna spillingar eða hneykslismála. Þetta gerist reyndar sjaldan hér á landi en tíðkast þó í siðmenntuðum lýðræðissamfélögum. Hér á landi virðist reglan vera sú að þeir sem hafa efni á því að borga Vísareikninginn sinn án þess að nota yfirdráttinn sæta ekki ábyrgð.

Menn eiga að bera ábyrgð
Ef það sannast að Kristinn Björnsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og eiginmaður Sólveigar OlíufélöginPétursdóttur fyrrverandi dómsmálaráðherra, hefur átt þátt í að féfletta íslenska borgara á Sólveig að gera hreint fyrir sínum dyrum eða segja af sér þingmennsku. Það þarf enginn að halda að hún hafi ekki vitað hvað maður hennar til margra ára var að bralla á forstjórastólnum á sama tíma og hún sjálf var dómsmálaráðherra. Umræðan um verðsamráð olíufélaganna er ekkert ný. Hjónin hljóta að hafa rætt málin. Lágmarkskrafa er að málið verði rannsakað til hlítar.

Ef það verður sannað að Þórólfur Árnason, borgarstjóri, hafi átt þátt í að ræna peningum af Íslendingum á hann líka að segja af sér. Hann á reyndar að sýna sóma sinn í því að svara spurningum fréttamanna strax. Hann hlýtur að vita sjálfur hvort hann gerði eitthvað af sér. Það er beinlínis aumkunarvert að horfa á manninn svara spurningum á eins loðinn máta og hann hefur gert: ,,[Ég vil] leyfa þeim sem að rannsaka þessi mál að fjalla um þau,“ ,,langbest [er] að Samkeppnisstofnun fjalli um málið.“

Nei Þórólfur, það er best að þú segir okkur sannleikann eins og þú þekkir hann. Ef þú telur þig hafa brotið af þér áttu að segja af þér, hvort sem brotið verið sannað í dómssal eða ekki. Ef þú telur þig saklausan þá skaltu láta okkur hin vita. Reykvíkingar, í það minnsta, eiga rétt á því að vita hvort þú sjálfur telur þig saklausan eða ekki.

Deildu