Aðeins fjórum dögum áður en hryðjuverkin áttu sér stað í Bandaríkjunum skrifaði ég á þessum síðum hugleiðingar mínar um þá fordóma sem mér finnst fólk hafa í garð múslima. Þessar pælingar mínar komu á réttum tíma held ég, því nú heyrir maður út um allt fordómafullar yfirlýsingar um þessi trúarbrögð og um araba. Ég hvet fólk til að lesa það sem ég skrifaði um daginn.
Það kemur mér sífellt á óvart hvað margir vita lítið um þessi trúarbrögð. T.d. hef ég tekið eftir því að Morgunblaðið hefur nokkrum sinnum, nokkra daga í röð, talað um múslima sem Múhameðstrúarmenn þrátt fyrir að það sé algert rangnefni. Múslimar kalla sig ekki Múhameðstrúarmenn og þykir þeim það móðgun þegar þeir eru kallaðir það. Ástæðan er einfaldlega sú að þeir trúa ekki á Múhameð spámann eins og Kristnir trúa á Jesú Krist. Fyrir múslimum var Múhameð maður rétt eins og hver annar sem fékk vitrun frá Guði (Allah) eða skilaboð frá erkienglinum Gabríel. Múslimar trúa semsagt ekki á Múhameð, þeir trúa á Allah. Ég vona að Morgunblaðsmenn geri sitt besta til þess að muna þetta í framtíðinni.