Snillingarnir á Omega bregðast ekki hlutverki sínu sem heilalausir ofstækismenn. Ég var áðan að flakka á milli sjónvarpsstöðva og á leið minni að heilbrigðu sjónvarpsefni kom ég við á ,,sendu okkur peninga í Jesú nafni, amen“ stöðinni.
Í þetta sinn var enginn annar en sjónvarpsstjórinn sjálfur, Eiríkur Sigurbjörnsson, að predika yfir áhorfendum. Umfjöllunarefni hans var hryðjuverkin í BNA og hann hafði sínar ,,kristilegu“ útskýringar á þeim. Ástæðan fyrir því að hryðjuverkamenn voru að eltast við Air Force One (þá flugvél sem forseti Bandaríkjanna er farþegi í hverju sinni) var t.d. mjög biblíuleg. Bush, Guð blessi hann, er nefnilega fyrsti forsetinn í langan tíma sem þorði að banna baráttugöngu samkynhneigðra í BNA (svo sagði Eiríkur í það minnsta) og því ætluðu hryðjuverkamennirnir, sem eru ekki menn heldur djöfullinn (segir Eiríkur), að drepa hinn guðhrædda Bush.
Jerry Falwell og Pat Robertson, báðir þekktir og vinsælir Biblíufroðupredikarar í BNA, voru með svipaða kenningu um hryðjuverkin. Þeir kenna trúleysingjum, fylgjendum fóstureyðinga, femínistum og auðvitað samkynhneigðum um þessa árás. Þeir segja að þetta sé fólkið sem sé að ræna trúnni úr bandarísku samfélagi og það er þeim að kenna að Guð er hættur að vernda Bandaríkin fyrir árásum hryðjuverkamanna. Já, leiðir Guðs eru svo sannarlega órannsakanlegar.
Þessar fáránlegu kenningar Biblíuþrælana eru svosem ekkert nýjar af nálinni. Ég man t.d. vel eftir því þegar ég hlustaði á útvarpsviðtal við Gunnar í Krossinum, Biblíuþræl númer eitt á Íslandi, þar sem hann kenndi trúleysi Íslendinga um snjóflóðin í Súðavík og Flateyri. Þvílíkur fáviti. Að láta sér detta í huga að segja svona lagaði í beinni útsendingu vitandi að aðstandendur fórnarlambanna væru líklegast að hlusta.
Stundum veltir maður því fyrir sér hvers vegna Guð gaf þessum mönnum heila ef hann vissi að þeir ætluðu aldrei að nota hann…