Undarleg lífsreynsla

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

15/09/2001

15. 9. 2001

Þegar árásirnar í Bandaríkjunum áttu sér stað var ég staddur í Brussel ásamt átta öðrum ungliðum úr hinum ýmsu stjórnmálaflokkum. Við vorum saman í Brussel á vegum Varðbergs að kynna okkur starfsemi NATO. Við vorum nýkomin frá höfuðstöðvum NATO þegar árásinar hófust sem er nokkuð merkilegt því húsnæðið var rýmt um leið og það fréttist […]

Þegar árásirnar í Bandaríkjunum áttu sér stað var ég staddur í Brussel ásamt átta öðrum ungliðum úr hinum ýmsu stjórnmálaflokkum. Við vorum saman í Brussel á vegum Varðbergs að kynna okkur starfsemi NATO. Við vorum nýkomin frá höfuðstöðvum NATO þegar árásinar hófust sem er nokkuð merkilegt því húsnæðið var rýmt um leið og það fréttist af hryðjuverkunum.

Við, ungliðarnir, fréttum hins vegar ekkert af þessu fyrr en við komum upp á hótel. Við ætluðum öll að skreppa stutta stund upp á herbergi til að skipta um föt og síðan ætluðum við að fara saman í skoðunarleiðangur um Brussel. Það varð ekkert úr því. Þegar við kveiktum á sjónvarpinu hafði fyrsta árásin átt sér stað og ég held að ég hafi orðið vitni að seinni árásinni nánast í beinni útsendingu.

Fram eftir nóttu sátum við nokkur saman og horfðum á fréttirnar og ræddum saman um heimsmálin. Ég var í góðum hóp til þess að ræða þessi mál enda allir sem þarna staddir virkir þátttakendur í stjórnmálaumræðunni hér á landi. Þarna voru meira að segja fulltrúar flestra þeirra pólitísku vefrita sem eru starfrækt á Íslandi. Ég er að sjálfsögðu ritstjóri www.skodun.is, Sif Sigmarsdóttir, vinkona mín, er ritstjóri www.politik.is, Haukur Örn er ritstjóri www.frelsi.is og Finnur Þór er ritstjóri www.maddaman.is. Það var nokkuð undarleg lífsreynsla að sitja þarna með öllu þessu merka fólki og verða vitni af líklegast fólskulegustu hryðjuverkum sem nokkurn tíman hafa verið framin.

Þessir atburðir vörpuðu nokkuð skuggann á annars góða ferð. Ég tel mig hafa eignast nýja vini þessari ferð og það er alltaf eitthvað til að gleðjast yfir.

Deildu