Áhugaverð menntastefna

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

01/05/2001

1. 5. 2001

Áform bæjarmeirihlutans í Hafnarfirði um að bjóða út rekstur eins skóla, Áslandsskóla, þar í bæ hafa valdið miklu fjaðrafoki af hálfu stjórnarandstæðinga. Hefur meirihlutinn m.a. verið sakaður um að vilja gera tilraunir á börnum. Nú hafa Íslensku menntasamtökin boðið í rekstur skólans, en þessi samtök standa fyrir nýrri og áhugaverðri hugsun í menntamálum. Mannrækt og […]

Áform bæjarmeirihlutans í Hafnarfirði um að bjóða út rekstur eins skóla, Áslandsskóla, þar í bæ hafa valdið miklu fjaðrafoki af hálfu stjórnarandstæðinga. Hefur meirihlutinn m.a. verið sakaður um að vilja gera tilraunir á börnum. Nú hafa Íslensku menntasamtökin boðið í rekstur skólans, en þessi samtök standa fyrir nýrri og áhugaverðri hugsun í menntamálum.

Mannrækt og fræðsla
Íslensku menntasamtökin byggja á þeirri hugmynd að efnisleg þekking manna sé lítils virði ef einstaklingsþroskann og siðvit skortir. Á heimasíðu samtakana segir m.a.:

,,Íslensku menntasamtökin (ses) eru hluti af alþjóðlegu samtökunum „The Council for Global Education“. Samtökin eru ekki rekin í hagnaðarskyni en byggja stefnu sína fjórum hornsteinum menntunar: sammannlegum gildum, eflingu heimsskilnings, afburða færni í lífi og starfi, og þjónustu við mannkynið.“

Eins og ég hef margoft bent á í skrifum mínum hér á Skoðun er markmið menntunar að undirbúa nemendur undir líf og störf í lýðræðissamfélagi. Þessu háleita markmiði verður seint náð með þeirri stefnu sem íslensk yfirvöld hafa markað sér í menntamálum. Sú ofuráhersla sem lögð er á akademískt nám í hinum hefðbundnu greinum (tungumálum, stærðfræði o.s.frv.) og það áhugleysi sem menntamálayfirvöld hafa sýnt kennslu í rökhugsun og mannlegum samskiptum tryggir að háleit markmið um að þroska og undirbúa nemendur undir líf og störf mun aldrei nást.

Í menntastefnu Íslensku menntasamtakanna má greinilega lesa að höfundar hennar skilja að menntun snýst ekki aðeins um að fræða nemendur heldur einnig um að hjálpa þeim að þroskast og verða að sjálfstæðum einstaklingum:

,,Skoða þarf menntun frá nýjum sjónarhóli og rannsaka siðfræðilegar undirstöður hennar. Skólanámið verður að fara saman við ræktun siðagilda og alhliða þroska persónuleikans. Þegar ræktun siðvits er annarsvegar þarf einbeittan vilja, skuldbindingu, löngun til að vera öðrum fordæmi.“

Menntun með markmið
Sú menntastefna sem Íslensku menntasamtökin standa fyrir minnir undirritaðan reyndar nokkuð á þá menntastefnu sem menntahópur Sambands ungra jafnaðarmanna (ungliðahreyfing Alþýðuflokksmanna), sem þá var undir stjórn undirritaðs, samdi fyrir nokkrum árum. Þar segir m.a.:

,,Menntanefnd Sambands ungra jafnaðarmanna leggur til að lögð verði áhersla á að menntun móti rökfasta og sjálfstæða einstaklinga sem eiga auðvelt með að tjá sig, leggja rök fyrir skoðunum sínum og vinna úr þeim fjölmörgu áreitum sem þeir verða fyrir á degi hverjum. MSUJ telur að slík menntun sé ávallt æskileg en lífsnauðsynleg á þeirri upplýsingaöld sem við búum á nú. MSUJ telur að ýmsar grundvallarbreytingar verði að eiga sér stað í núverandi skólakerfi til þess að þess konar menntun geti átt sér stað.“ Sjá nánar: Menntun með markmið.

Ég hlýt því að fagna því ef Íslensku menntasamtökin fá að taka að sér það verkefni að reka Áslandsskóla í Hafnarfirði útfrá þeirri menntastefnu sem samtökin starfa eftir. Það væri í það minnsta bæði áhugaverð og gagnleg tilraun og tvímælalaust skref í átt að bættri menntun hér á landi.

Deildu