Formáli
Til er hópur sem kallar sig Félag íslenskra þjóðernissinna og heldur hann meðal annars úti heimasíðu þar sem stefnumál félagsins eru kynnt. Tilgangur félagsins er meðal annars að vernda „kynstofn íslensku þjóðarinnar“ og „hindra frekara landnám útlendinga af öðrum en evrópskum uppruna hér á landi“. Stuðningsmenn þessa félags hafa farið hamförum í fjölmiðlum og á netinu undanfarin misseri og tel ég löngu tímabært að taka á stórhættulegum áróðri þeirra.
Það er skoðun undirritaðs að málflutningur þjóðernissinna sé byggður á fordómum fremur en rökum og hatri á útlendingum fremur en umhyggju fyrir fósturjörðinni. Fordómar verða flestir til vegna fáfræði og því hlýtur þekking að vera hið eina rétta móteitur gegn illa rökstuddum málflutningi þjóðernissinna. Ég er í hópi þeirra sem þolir ekki fordóma, hatur, einangrunarhyggju og ofbeldi (hvort sem það er andlegt eða líkamlegt) og skal ég manna fyrstur viðurkenna að þjóðernissinnar fara vægast sagt í taugarnar á mér. Málflutningur þeirra byggir á fordómum og hvetur til fordóma og haturs sem síðan leiðir óumflýjanlega til ofbeldis. Þó að algeng viðbrögð séu þau að þaga vondan málflutning þjóðernissinna í hel þá tel ég slíka aðferð vafasama. Ef vondum skoðunum þjóðernissinna er svarað með þögn en ekki rökum erum við að bjóða hættunni heim.
Til þess að auka umræðuna um innflytjendamál og kynþáttafordóma hef ég ákveðið að skrifa þetta opna bréf til Félags íslenskra þjóðernissinna. Þó að sumar spurningar mínar litist óneitanlega af andstyggð minni á þjóðernissinnum þá eru þetta engu að síður gildar spurningar sem þjóðernissinnar verða að svara ef þeir vilja að einhver taki þá alvarlega. Ég vona að meðlimir Félags íslenskra þjóðernissinna sjái sér fært um að svara þessum spurningum og lofa ég að birta svör þeirra óritskoðuð hér á Skoðun, svo lengi sem þeir þora að svara undir nafni.
Nokkrar spurningar um stefnumál þjóðernissinna
Hættulegt landnám útlendinga og afskipti erlendra aðilla af íslenskum innanríkismálum
1) Þið segist vera á móti landnámi útlendinga af öðrum en evrópskum uppruna hér á landi. Hvers vegna skil ég ekki. Teljið þið að manneskjur frá öðrum heimshlutum en Evrópu séu verri en aðrar manneskjur? Er það menning, háttarlag eða litarhaft þeirra sem angrar ykkur?
Ef það er menning útlendinga sem fer í taugarnar á ykkur, hvers vegna berjist þið þá ekki sérstaklega gegn „óæskilegri menningu“ og útskýrið það fyrir okkur menningasnauðum og illa þenkjandi almúganum hvaða menning telst æskileg og hver ekki? Hví berjist þið ekki fyrir því að allir þeir sem fá landvistarleyfi á Íslandi séu kristnir, skráðir í þjóðkirkjuna, borði skyr og sviðakjamma og telji landbúnað og sjómennsku mestar og bestar allra atvinnugreina? Þannig væri kannski hægt að tryggja stöðu „íslenskrar menningar“.
Ef þið teljið að háttarlag óevrópskra útlendinga sé annað og verra en hvítra Evrópubúa þá hafið þið nærri því að hálfu leiti rétt fyrir ykkur. Þeir sem hafa búið við önnur skilyrði en Íslendingar hljóta að hegða sér að sumu leiti öðruvísi en Íslendingar. Seint verður þó hægt að fullyrða að allar eða flestar þær manneskjur sem eiga uppruna sinn utan Evrópu séu verra fólk en annað. Eða getið þið kannski fullyrt það? Ef svo er þá er ég tilbúinn að heyra þá fullyrðingu ykkar og rökstuðning fyrir henni.
Ef það er einungis litarhaftið sem þið óttist viljið þið þá ekki banna sólbaðsstofur líka? Þær gera hvíta menn brúna auk þess sem þær geta valdið krabbameini. Ég veit reyndar að þið óttist „blöndun kynstofna“ en meira um þá hræðilegu ógn síðar.
2) Þið eruð á móti erlendum afskiptum af íslenskum innanríkismálum. Hvað þýðir það? Eru þið semsagt á móti inngöngu í ESB og samstarfi Íslendinga við aðrar þjóðir í heiminum? Þið útskýrið þessa afstöðu ykkar ekkert.
Verndun íslenskrar menningar og tungumáls
3) Þið viljið „draga úr erlendum áhrifum á íslenskt samfélag“ og þið viljið vernda íslenska tungu. Hvernig og hvers vegna í ósköpunum? Ætlið þið að leggja til að notkun sjónvarps, útvarps og internetsins (ég meina alnetsins) verði bönnuð eða verði settar strangar hömlur? Spaugstofan inn, Húsið á sléttunni út? Það er auðvitað ómögulegt að koma í veg fyrir erlend áhrif á íslenskt þjóðfélag án þess að stofna til einræðisríkis. Hvers vegna eru þið á móti erlendri menningu? Er hún verri en íslensk? Er fólki ekki fullfært um og frjálst að meta það sjálft hvaða menningu það vill stunda? Er öll óíslensk menning svo hættuleg að það verður að koma í veg fyrir hana? Viljið þið banna Mozart, MTV, Prins Póló, MacDonalds og körfubolta svo eitthvað sé nefnt? Hvaða menning er íslensk og hvaða menning er ekki íslensk. Íslendingar voru upphaflega flestir ásatrúar og íslenska sauðkindin er ættuð frá Afganistan en ekki Íslandi (eða Noregi). Burt með me, me og kirkjuna? Gerið þið ykkur ekki grein fyrir því að nær öll sú menning sem Íslendingar iðka í dag er upprunnin frá útlöndum? Hvernig í ósköpunum skilgreinið þið annars hvað er íslensk menning og hverjir eru þið að dæma um það hvaða menningu Íslendingar stunda?
4) Þið hafið greinilega áhyggjur af íslenskri tungu. Þið óttist að íslenskan muni taka breytingum í framtíðinni og þar hafið þið svo sannarlega rétt fyrir ykkur. Þróun tungmálsins er eðlilegasti hlutur í heimi og ekkert er sjálfsagðara. Grátið þið í svefni yfir því að nútíma Breiðhyltingur talar ekki og skrifar ekki nákvæmlega eins og Gísli Súrsson gerði hér á árum áður? Nei, ég hélt ekki. Þeir sem eru þeirrar skoðunar að íslensk tunga sé frábær og fullkomin í núverandi mynd og eigi að haldast eins og hún er í dag um ókomna framtíð, skilja ekki eðli og tilgang tungumála. Hvernig skilgreinið þið annars íslenska tungu? Hvernig ætlið þið að viðhalda henni?
Verndun „kynstofns íslensku þjóðarinnar“
5) Þið eruð augljóslega í hópi þeirra sem teljið að blöndun kynstofna sé af hinu slæma. Teljið þið að hvíti kynstofninn sé í einhverri hættu ef fólki af öðrum kynstofnum verður hleypt áfram til landsins? Hvers vegna? Vissuð þið að hinn svokallaði hvíti kynstofn er hvorki „hreinn“ né „upprunalegur“? Þeir kynstofnar sem til eru í dag eru einfaldlega afleiðing blöndunnar og langrar þróunar. Þið talið oft um að hver kynstofn hafi kosti og galla, séreinkenni sem beri að vernda. Hverjir eru kostirnir og gallarnir við okkur hvítingjana? Er það ekki val einstaklinganna sjálfra að velja hvort blöndun eigi sér stað eða ekki? Hverjir eru þið til að banna mönnum að eignast afkvæmi með hverjum þeim sem þeir kjósa? Ef blöndun kynstofna verður það mikil að hvíti kynstofninn þurrkast einhvern tíma út, þá er það einfaldlega vegna þess fólk hefur valið svo? Enginn neyðir fólk af ólíkum uppruna að eignast börn saman. Ef þið viljið ómögulega eignast börn með fólki af öðrum kynstofnum þá skuluð þið einfaldlega haga ykkar einkalífi eftir því en láta aðra í friði! Þið hafið nákvæmlega engan rétt til þess að hnýsast í og skipta ykkur af einkalífi annara. Hvað með ættleiðingar? Viljið þið banna hvítu fólki að ættleiða börn af til dæmis afrískum eða asískum uppruna?
Fræðsla eða áróður?
6) Þið segjið að eitt af aðal stefnumálum ykkar sé að fræða fólk um stöðuna í innflytjendamálum. Hver er staðan? Já alveg rétt, allstaðar í Evrópu er aukin óánægja með innflytjendur, aukin glæpatíðni og árekstar á milli þjóðarbrota eru alltaf að eiga sér stað. Teljið þið að slæmur aðbúnaður innflytjenda, ónóg tungumálakennsla, skipulagsleysi stjórnvalda og fordómar innfæddra eigi einhvern hlut að máli? Eða eru óevrópskir útlendingar almennt slæmt fólk? Teljið þið engan möguleika á því að fólk af ólíkum uppruna geti lifað saman í sátt og samlyndi? Er mönnum ómögulegt að meta náunga sinn út frá verðleikum en ekki litarhafti eða uppruna? Hvernig stendur á því að fjöldinn allur af Palestínumönnum á ísraelska vini? Hvernig stendur á því fjölmargir Serbar eru giftir Króötum? Hvers vegna er til fullt af fólki sem þrátt fyrir ríkjandi fordóma eignast vini og elskendur sem er af öðrum kynstofni og alið upp við aðra trú og aðra menningu en það sjálft? Ef dæmi um óeirðir og ofbeldi milli þjóðarbrota út í heimi er óvéfengjanleg sönnun fyrir því að fólk af ólíkum uppruna geti ekki búið saman er þá ofangreint dæmi um ást og umhyggju ekki sönnun fyrir því að ólík þjóðarbrot geta og eiga að búa saman? Er það ekki staðreynd að það eru þjóðernishyggjumenn eins og þið sem beint eða óbeint valda stríðsátökum og öðru ofbeldi um allan heim með áróðri sínum? Bera þjóðernishyggjumenn ekki mikla ábyrgð á mörgum þeim styrjaldarátökum sem eiga og hafa átt sér stað í heiminum?
7) Á upplýsingamiðstöð ykkar á netinu seljið þið boli með áletruninni „Ísland fyrir Íslendinga“. Hvaða fræðslugildi er bak við þetta slagorð? Ef þið væruð nýbúar hér á landi og mynduð mæta manni eða mönnum í bol merktan Félagi íslenskra þjóðernissinna og með þessa áletrun, hver haldið þið að yrðu viðbrögð ykkar? Eruð þið ekki að viljandi að ögra útlendingum og ýta undir hatur á þeim með sölu á þessum bolum?
Að lokum
Það er auðvitað rétt að það er ekki vandkvæðalaust að fá fólk frá ólíkum menningarsvæðum sem talar ólík tungumál til að aðlagast hvoru öðru og að búa saman í friði. Það hafa vissulega komið upp vandræði, og stundum mikil vandræði, tengd innflytjendum í Skandinavíu og annars staðar í Evrópu. En það þýðir þó ekki að fólk með ólíkt litarhaft og ólíka menningu geti ekki lifað saman. Ég er hlynntur því að fólki frá öllum heimshlutum verði boðið upp á að búa hér á landi enda tel ég fjölbreyttni mun betri kost en einsleittni. En til þess að allt gagni vel upp þarf að huga að ýmsu.
Stjórnvöld verða að tryggja að þeir útlendingar sem hingað flytjast bjóðist aðstoð og úrræði til að aðlagast íslensku samfélagi og taka þátt í atvinnulífinu. Það er auðvitað óraunhæft og kallar á vandræði að bjóða útlendingum að setjast hér að ef við bjóðum þeim ekki um leið nægjanlega aðstoð við að aðlagast landinu. Við þurfum einnig að berjast fyrir breyttum hugsunarhætti, við þurfum að kenna börnum okkar umburðalyndi, gagnrýna hugsun, að setja sig í spor annara og bera virðingu fyrir öðrum. Ef þessi hugsunarháttur er ekki til staðar þá skiptir engu máli hve einsleitu þjóðfélagi við búum í. Óþroskuðu fólki tekst alltaf að kenna öðrum um eigin ófarir.
Ef þið þjóðernissinnar óttist fyrst og fremst hugsanleg vandræði vegna veru útlendinga hér á landi þá skulu þið átta ykkur á því að þið og skoðanir ykkar eru ekki lausnin heldur hluti af vandanum. Þó að þið teljið „frjálslyndi, alþjóðahyggju og jafnaðarstefnu“ vera helstu ógnir við íslenskt samfélag þá tel ég þá fordóma og einangrunarhyggju sem þið alið á vera helstu ógn við frið og framfarir í heiminum.
Ég bíð spenntur eftir málefnalegu svari.