Eitur og ekki eitur

Logo

Bragi Freyr Gunnarsson

Bragi Freyr Gunnarsson sat í ritstjórn Skoðunar frá febrúar til september árið 2000.

02/08/2000

2. 8. 2000

Ég hef oft velt því fyrir mér hvað það er sem ræður því að sum vímuefni eru leyfileg, og önnur ekki. Þegar fólk er spurt eru svörin oft á þá leið að hin bönnuðu vímuefni séu einfaldlega skaðlegri en þau sem leyfilegt er að neyta. Þessi svör eru mér ófullnægjandi þar sem það stenst einfaldlega […]

Ég hef oft velt því fyrir mér hvað það er sem ræður því að sum vímuefni eru leyfileg, og önnur ekki. Þegar fólk er spurt eru svörin oft á þá leið að hin bönnuðu vímuefni séu einfaldlega skaðlegri en þau sem leyfilegt er að neyta. Þessi svör eru mér ófullnægjandi þar sem það stenst einfaldlega ekki að öll bönnuðu efnin séu skaðlegri en þau leyfilegu.


Orsakirnar hljóta því að vera aðrar og meiri en skaðleg áhrif efnanna. Fræðimenn hafa velt þessu fyrir sér og eru nokkrar kenningar á lofti hvað þetta varðar. Sumir vilja meina að upphaflega hafi það verið pólítískar aðstæður sem gerðu það að verkum að verslun með sum vímuefni var stöðvuð. Sé saga Bandaríkjanna skoðuð með tilliti til vímuefnalöggjafar, en löggjöf þeirra á þessu sviði er fyrirmynd íslensku löggjafarinnar, kemur ýmislegt i ljós. Félagssagnfræðingur nokkur að nafni Musto[1] heldur því fram að frá miðri síðustu öld (það er 1850 eða svo) hafi viðhorf almennings og stjórnvalda til vímuefna sveiflast á milli þess að vera jákvætt og að vera neikvætt.

Á miðri 19. öld var ekki til neitt vímuefnavandamál í Bandaríkjunum. Fólk lifði og hrærðist í samfélagi þar sem vímuefni voru notuð (ekki í sama formi og við þekkjum í dag, en vímuefni engu að síður) og var það ekki vandamál í huga neins. Þegar líða tók á öldina fór að vakna skilningur á fíkn og að fíkn gæti fylgt neyslu einstakra efna. Mikil þróun átti sér stað í lyfja- og læknisfræði á þessum tíma. Morfín var uppgötvað og sprautunálin einnig. Stærsti neytendahópur vímuefna á þessum tíma var efri miðstéttin, og þá sérstaklega miðstéttakonur sem neyttu svokallaðra ópíummixtúra í miklu magni við allskonar kvillum. Kókaín kom fram þegar tók að nálgast aldamótin og þótti það mikið undralyf sem “gat gert hetju úr skræfu”. Markaðsöflin voru ekki lengi að taka við sér og gera þessi efni aðgengileg neytendum. Það mátti tildæmis fá keypta svaladrykki sem innihéldu kókaín, byrjendapakka sem innihéldu vímuefni, sprautu og nálar auk annarra smáhluta sem þóttu nauðsynlegir til neyslu efnanna.

Af þessari lýsingu má draga þá ályktun að Bandaríkjamenn hafi verið nokkuð afslappaðir gagnvart vímuefnum og neyslu þeirra alveg fram á þessa öld. En það var einmitt í byrjun 20. aldarinnar að bera fór á röddum sem kröfðust lagasetningar varðandi vímuefnaneyslu. Framfarir í læknavísindum urðu til þess að hugmyndir um fíkn sem vandamál komu upp á yfirborðið. Ný lyf (s.s. morfín) voru fundin upp og gefin við ópíumfíkn. Fíkn var því meðhöndluð á þann hátt að henni var fullnægt.

Í byrjun 20. aldarinnar fór að bera á pólítískri ólgu í Bandaríkjunum. Fjöldi innflytjenda var mikill, sérstaklega kínverskra (sem voru áberandi í neytendahópi ópíums á þessum tíma) en þeir fluttu til Bandaríkjanna í miklu mæli til að vinna við lagningu járnbrauta. Kínverjar voru ódýrt vinnuafl, og ógnuðu stöðu hvítra verkamanna á vinnumarkaðnum, sérstaklega þegar nær fór að draga kreppunni miklu. Það sama átti við um mexíkóska innflytjendur. Þeir voru bein ógnun við hvítt vinnuafl, ásamt því að vera stærsti neytendahópur kannabisefna á þeim tíma.

Verkalýðshreyfingar á bandarískum vinnumarkaði fóru að láta í sér heyra á þessum tíma til að bregðast við auknu atvinnuleysi hvítra verkamanna, og beittu sér sterklega fyrir því að ákveðin vímuefni yrðu gerð ólögleg. Það voru til dæmis forsvarsmenn verkalýðshreyfinga sem stuðluðu að því að maríhuana var gert ólöglegt i þeim tilgangi að jaðargera mexíkóska verkamenn og gera þá að óæskilegu vinnuafli.

Þessi umræða veitir að ákveðnu leiti innsýn í það af hverju sum vímuefni eru ólögleg, en önnur leyfileg. Pólítískar ástæður virðast að einhverju leiti liggja að baki, en gífurlega sterkur áróður hefur í gegnum tíðina falið þá staðreynd. Enn þann dag í dag, undir lok 20. aldar, þegar læknisfræðileg þekking ætti að vera orðin nægilega góð til að segja okkur hvað er hættulegt og hvað ekki (allavega betur en í byrjun aldarinnar), má sjá hræðsluáróður sem á ekki við nein rök að styðjast. Sem dæmi má nefna áróðursplagg frá herferðinni Ísland án eiturlyfja þar sem því er beinlínis haldið fram að neysla kannabisefna hafi neikvæð áhrif á skammtímaminni fólks. Niðurstöður rannsókna á þessu eru þó mjög óræðar og benda ef eitthvað frekar til þess að engin tengsl séu á milli kannabisneyslu og skerts skamtímaminnis.[2]