Birtingarmyndir lýðræðisins 3

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

02/08/2000

2. 8. 2000

Alþingi: Hæfni þingmanna Ég verð að viðurkenna að þessar vangaveltur mínar um lýðræðið eru að einhverju leiti sprottnar upp úr þeirri umræðu sem varð í kjölfar þess að Pétur Blöndal lýsti yfir óánægju sinni með valdaleysi Alþingis. Í ljósi þessa, og þess að Alþingi er vettvangur lýðræðisins í landsmálunum, ætla ég að koma lítillega inn […]

Alþingi: Hæfni þingmanna

Ég verð að viðurkenna að þessar vangaveltur mínar um lýðræðið eru að einhverju leiti sprottnar upp úr þeirri umræðu sem varð í kjölfar þess að Pétur Blöndal lýsti yfir óánægju sinni með valdaleysi Alþingis. Í ljósi þessa, og þess að Alþingi er vettvangur lýðræðisins í landsmálunum, ætla ég að koma lítillega inn á þau vandamál sem há þessari göfugu stofnun.


Pétur Blöndal lýsti því yfir að Alþingi væri nær valdalaus stofnun. Þessi yfirlýsing kemur engum á óvart sem hefur fylgst með íslenskum stjórnmálum. Ákvarðanataka og völd hafa verið að færast í auknum mæli frá þinginu og yfir til embættismanna ríkiskerfisins. Það er í sjálfu sér góð spurning hvort þessi þróun sé alslæm, en hvernig sem því líður er það svo að embættismennirnir hafa ekki fengið umboð frá þjóðinni til þessarar ákvarðanatöku og frá sjónarmiðum lýðræðissinnans er þetta því slæm þróun. Það eru samt nokkrar ástæður fyrir henni sem útskýra hana þó þær réttlæti hana ekki.

Hverjir verða stjórnmálamenn?
Eitt af umtöluðustu leyndarmálum íslenskra stjórnmála er að fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi eru margir hverjir ekki beinlínis rjómi samfélagsins. Vissulega eru margir hæfir einstaklingar sem verma notalega leðurstóla þingsalarins og margir hafa nýtt sér aðstöðu sína til að koma góðum málum til leiðar. En því miður er alltof mikið um að fólk rati inn á þing sem ekki á þangað erindi.

Margir vilja meina að vandamálið felist í því hvernig fólk laðast að stjórnmálaþátttöku. Þeir sem séu haldnir „stjórnmálabakteríunni“ séu einhver sérstök gerð fólks sem er til svo fás nýtt að best sé að geyma það á þinginu. Þó ég hafi jafn gaman af því og aðrir að hallmæla og skopast af stjórnmálamönnum get ég samt ekki haldið slíkri skoðun á lofti. Ég held að vandamálið felist í því að hæfasta fólkið sér fram á betri tekjumöguleika hjá einkareknum fyrirtækjum auk þess sem slík störf draga sjaldnast óþægilega athygli og persónulegt skítkast að einstaklingnum. Ennfremur þarf hann ekki að leggja störf sín undir dóm almennings á fjögurra ára fresti þar sem afglöp annarra geta kostað hann vinnuna. Ef vel er með farið er þingmennska tímafrekt og krefjandi starf. Ég er því á þeirri óvinsælu skoðun að laun þingmanna eigi að vera mun hærri. Hærri laun munu draga að hæfari einstaklinga.

Deildu