Íslenskir nasistar, enn og aftur

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

31/07/2000

31. 7. 2000

Það er oft haft á orði að opin og fordómalaus umræða sé besta leiðin til að komast að skynsamlegri niðurstöðu í hinum ýmsu málum og móta heillavænlega stefnu. Sú umræða um innflytjendamál sem fram fer á ýmsum spjallrásum er þó líklegri til að vekja óhug fólks en að stuðla að betra þjóðfélagi. Vegið úr launsátri […]

Það er oft haft á orði að opin og fordómalaus umræða sé besta leiðin til að komast að skynsamlegri niðurstöðu í hinum ýmsu málum og móta heillavænlega stefnu. Sú umræða um innflytjendamál sem fram fer á ýmsum spjallrásum er þó líklegri til að vekja óhug fólks en að stuðla að betra þjóðfélagi.


Vegið úr launsátri á ómaklegan hátt
Það má segja að tvennt einkenni umræðuna öðru fremur. Annars vegar sú staðreynd að fæstir sem að umræðunni koma hafa fyrir því að nafngreina sig og virðast ekki treysta sér til að standa fyrir skoðunum sínum opinberlega. Hins vegar það ofstæki sem lýsir sér í ummælum margra. Nokkuð sem er ef til vill afleiðing þess að vitsmunir virða lítið fá að njóta sín og á ég þá sérstaklega við þá sem kenna sig við þjóðernisstefnu og sjá djöfulinn í hverju horni.

Þessir nasistar virðast álíta að hvar þar sem fólk úr ólíkum menningarheimum á samskipti komi til átaka þeirra á milli. Sérstaklega finnst þeim gaman að benda á borgarastríðið í ríkjum fyrrum Júgóslavíu og þau endalausu átök skelfilegra innflytjenda annar vegar og friðelskandi, þjóðrækinna innfæddra íbúa Evrópu hins vegar sem þeir telja sér trú um að eigi sér stöðugt stað í borgum nágrannalanda okkar. Á sama tíma horfa þeir framhjá átökum milli kristinna hópa á Írlandi sem hafa búið saman um aldir.

Það er auðvelt að líta á átök fólks og kenna einu eða öðru um. Þannig mætti líta á átökin á Írlandi sem trúarbragðadeildur en horfa framhjá öðrum þáttum, svo sem þeirri kúgun sem Bretar beittu Íra og gegnsýrir enn hluta þjóðfélagsins, efnahagslega mismunum sem af því leiðir og án efa fleiri atriði sem hafa þau áhrif að framlengja átök sem okkur finnst flestum undarleg. Einnig má líta á borgarastríðið í ríkjum fyrrum Júgóslavíu og kenna trúarbragðadeilum um en horfa alveg framhjá nærri hálfrar aldar einræðisstjórn kommúnista og þeim áhrifum sem hún hafði á þjóðfélagið.

Málið er ósköp einfaldlega það að það liggja oftast, jafnvel alltaf, fleiri en ein eða tvær einfaldar ástæður að baki svo umfangsmiklum deilum og átökum. En það leggja hugsanalatir einstaklingar ef til vill ekki á sig að kanna sér áður en þeir taka afstöðu. Hugsjón eins og nasismi, með sínum einföldu útskýringum og alhæfingum, hugnast slíku fólki væntanlega vel. Í það minnsta ber málflutningur þeirra á spjallrásum ekki vitni um mikið gáfnafar. Ég veit að þetta er hrokakennt viðhorf en ég er ekki frá því að það eigi rétt á sér.

Öfgakennd viðbrögð
Annað einkenni þessarar umræðu um innflytjendur er hversu öfgakennd viðbrögðin geta verið og á ég þá við báða meginhliðar málsins. Sjálfur kynntist ég þessu fyrir nokkru þegar ég mætti í Silfur Egils ásamt einum forsprakka félagsskapar íslenskra nasista. Eftir þann þátt fékk ég tölvupóst og glósur á götum úti sem varð til þess að ég fór að velta því fyrir mér hvort það hefði verið rétt af mér að blanda mér í umræðuna.

Því miður virðist svo vera að ansi margir virðast hallir undir sjónarmið þjóðrembu og kynþáttahaturs. Fáir þeirra þora að koma fram undir nafni og láta sér nægja að vega að öðrum úr launsátri á netinu. Aðrir ráðast á fólk af erlendum uppruna á götum úti, sem betur fer er það fátítt eftir því sem ég kemst næst en gerist þó. Fyrir þessu verðum við að vera vakandi. Við komum aldrei í veg fyrir að sumt fólk skipi sér í þennan hættulega öfgahóp. Við getum hins vegar öll gert það sem í okkar valdi stendur til að tryggja að sá hópur sé sem minnstur og hafi engin áhrif.

Deildu