Birtingarmyndir lýðræðisins 2

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

28/07/2000

28. 7. 2000

Flokkakerfið Í síðustu grein minni lýsti ég yfir þeirri skoðun minni að mér þætti lítið koma til lýðræðisins eins og það er útfært á Íslandi. Ástæðan fyrir þessari skoðun minni er að lýðurinn ræður afskaplega litlu. Að mínu mati er einn helsti galli framkvæmdar íslensks lýðræðis þeir flokkar sem í boði eru, eða öllu heldur […]

Flokkakerfið
Í síðustu grein minni lýsti ég yfir þeirri skoðun minni að mér þætti lítið koma til lýðræðisins eins og það er útfært á Íslandi. Ástæðan fyrir þessari skoðun minni er að lýðurinn ræður afskaplega litlu. Að mínu mati er einn helsti galli framkvæmdar íslensks lýðræðis þeir flokkar sem í boði eru, eða öllu heldur að lýðræðið skuli yfirhöfuð vera háð framboði stjórnmálaflokka.


Stóra mein þess kerfis þar sem stjórnmálaflokkar hafa tekið að sér að hafa milligöngu á milli kjósenda og stjórnkerfisins er að kjósendurnir hafa fremur lítið um það að segja hverjir koma til með að verða fulltrúar þeirra á þingi, enda velja stjórnmálaflokkarnir gjarnan sjálfir hverjir eru fulltrúar þeirra á framboðslistum.

Val á framboðslistum
Stjórnmálaflokkarnir hafa misjafanar aðferðir við að velja framboðslista sína. Það er þó yfirleitt gert þannig að einhverskonar fulltrúaráð tekur afstöðu til tillagna uppstillinganefnda. Önnur, lýðræðislegri aðferð er að flokkurinn heldur innanflokks prófkjör þar sem hinum almenna flokksmanni er hleypt að ákvarðanatökunni. Þegar allt kemur til alls eru slík prófkjör yfirleitt formsatriði enda gegnir atkvæðagreiðslan hlutverki uppstillingarnefndar, eða ráðgjafar til uppstillinganefndar, og áðurnefnt fulltrúaráð þarf í flestum tilfellum að samþykkja niðurstöðu prófkjörsins.

Þriðja leiðin er sú að halda opið prófkjör þar sem hver sem lætur sig það varða getur tekið þátt í atkvæðagreiðslunni. Slíkar atkvæðagreiðslur endurspegla hinsvegar sjaldan vilja almennings enda fer þáttaka í slíkum prófkjörum sjaldan yfir tíu prósent kjósenda og úrtakið yfirleitt langt frá því að endurspegla samfélagið.

Auðvitað er það eðlilegt miðað við núverandi fyrirkomulag að flokkarnir velji framboðslista sína sjálfir. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að besta valaðferðin fyrir núverandi kerfi sé innanflokks prófkjör. Ég ætla því ekki að leggja það til að stjórnmálaflokkarnir verði skikkaðir til samráðs við almenning við val á framboðslistum því það er ekki framkvæmanlegt með núverandi fyrirkomulagi. Ég held hinsvegar að það sé auðveldlega hægt að breyta framkvæmd íslensks lýðræðis á þann hátt að stjórnmálaflokkar yrðu óþarfir.

Fátæklegur matseðill
Það er nokkurnvegin sama hvaða aðferðum stjórnmálaflokkarnir beita við val á framboðslistum. Þegar kemur að kosningum þurfa kjósendur að kjósa hóp einstaklinga sem þeir hafa mismunandi afstöðu til eða hafa jafnvel ekki heyrt um. Kjósendur fá sem sagt ekki að velja sér þá fulltrúa sem þeir vilja heldur verða þeir að velja sér rétti af pólitískum matseðli stjórnmálaflokkana.

Afleiðingin er sú að kjósandinn er ekki að kjósa sér fulltrúa inn á Alþingi. Fyrir vikið er það reynsla margra kjósenda að þeir kjósa hóp fólk hvers hugmyndafræði hljómar fagurlega í eyrum kjósendans, þrátt fyrir að hann hafi litla trú á að einstaklingarnir innan hópsins hafi burði til að hrinda þeirri hugmyndafræði í framkvæmd. Kosningar fara því í auknum mæli að snúast um ímyndarhönnun, markaðssetningu, og lýðskrum.

Gallar kerfisins
Ég vil undirstrika það að þessir gallar sem ég fjalla hér um eru ekki til fyrir tilstilli stjórnmálaflokka. Stjórnmálaflokkarnir eiga sér sögulegar rætur og framboðsaðferðir þeirra mótast óhjákvæmilega alltaf af framkvæmd lýðræðisins á hverjum tíma. Þó þeir flokkar sem sitja á þingi í dag myndu vafalítið verja núverandi fyrirkomulag, enda byggja þeir áframhaldandi tilvist sína á því, felst meinið í þeim lögum og hefðum sem móta íslenskt lýðræði.

Gott dæmi um galla kerfisins er kjördæmakerfið. Nýverið voru gerðar nokkrar breytingar á því kerfi sem miðuðu að því að jafna að einhverju leiti misvægi atkvæða vegna búsetu. Þrátt fyrir þessar breytingar er annar galli enn til staðar, galli sem verður aldrei lagaður enda byggja þeir sem ættu að laga hann atvinnuöryggi sitt á tilvist þessa galla.

Umræddur galli er sá að þeir fjórir flokkar sem eiga sér sögulegar rætur í samfélaginu eiga sér ákveðin „örugg“ sæti. Með „öruggum“ sætum á ég t.d. við efstu sæti framboðslista í kjördæmum þar sem fylgi flokksins er að jafnaði svo mikið að á jafnvel verstu árum eru frambjóðendur í þessum sætum öruggur um að hljóta kosningu inn á þing, jafnvel þó engir frambjóðendur flokksins séu verr liðnir en einmitt sá efsti.

Stjórnmálaflokkar og völd
Völd innan stjórnmálaflokka eru yfirleitt í höndum fólks í öruggum sætum. Þetta stafar einkum af því að þetta fólk er talið hafa mikinn styrk í sínu kjördæmi, innan og utan flokksins, auk þess sem það skapar ákveðinn stöðugleika fyrir flokkinn að eiga það ekki á hættu að forystumenn hans falli af þingi. Frambjóðendur í öruggum sætum mynda því yfirleitt innsta kjarna flokksforystunnar.

Það er þessi innsti kjarni flokksforystunnar sem hefur töglin og haldirnar í flokknum. Þetta þýðir að þessi hópur er í góðri aðstöðu til að tryggja sér áframhaldandi þingsetu. Afleiðing þessa er að þó flokkur tapi umtalsverðu fylgi vegna frammistöðu sinnar á þingi þá hefur það sáralítil áhrif á forystuna sem ber mesta ábyrgð á frammistöðunni. Það er því ekki svo að völdum fylgi ábyrgð því sé stjórnmálamaður einu sinni kominn í þá aðstöðu að taka ákvarðanir eru hverfandi líkur á því að hann þurfi að taka afleiðingum gjörða sinna. Það er gjarnan hlutskipti minni spámanna að taka skellin fyrir forystuna.

Þó hugmyndin á bak við stjórnmálaflokka sé að þeir skuli sjá um milligöngu á milli ríkis og þegna þá fer því fjærri að svo sé í raun. Stjórnmálaflokkurinn er ópersónulegt bákn sem sker á tengingu kjósandans við valdastofnanir samfélagsins. Fólk kýs flokka en ekki fólk, og fólkið sem er kosið á hollustu sína gagnvar flokknum en ekki þeim kjósendum sem það á að vera fulltrúar fyrir. Flokkurinn gegnir því ekki hlutverki tengiliðs þegna og ríkis heldur er hann varnarveggur forystunnar gagnvart kjósendum.

Þegar fólk kemst í valdastöðu vill það oft verða svo að viljinn til að halda völdum verður hugsjónunum yfirsterkari. Þess vegna munu þeir flokkar sem núna verma þingsætin ekki breyta þessu kerfi. Forystur flokkanna vilja halda sínum öruggu sætum. En auk þess þekkja núverandi þingmenn núverandi leikreglur lýðræðisins, eru vanir að vinna eftir þeim og hugnast illa að breyta þeim.

Deildu