Ofurstinn allur

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

07/08/2000

7. 8. 2000

Eftirminnilegasta mynd sem ég hef séð er Bridge on the River Kwai. Sérstaklega fyrir túlkun Alec Guinness á Nicholson ofursta. Myndina sá ég fyrst sem smá polli, ef til vill sjö, átta ára. Alla tíð síðan man ég eftir Guinness fara fyrir sínum mönnum blístrandi inn í fangabúðirnar, rísa upp úr pyntingarklefa sínum, fölur og […]

Eftirminnilegasta mynd sem ég hef séð er Bridge on the River Kwai. Sérstaklega fyrir túlkun Alec Guinness á Nicholson ofursta. Myndina sá ég fyrst sem smá polli, ef til vill sjö, átta ára. Alla tíð síðan man ég eftir Guinness fara fyrir sínum mönnum blístrandi inn í fangabúðirnar, rísa upp úr pyntingarklefa sínum, fölur og fár eftir langa og erfiða veru og falla að lokum á sprengibúnaðinn í lok myndarinnar. Ég eignaðist myndina fyrir mörgum árum síðan og hef alltaf jafn gaman af að horfa á hana, aftur og aftur. Og alltaf stendur túlkun Alec Guinness á Nicholson upp úr.


Nú berast okkur fregnir af því að Sir Alec Guinness, óneitanlega einn af betri leikurum aldarinnar sé allur eftir erfið veikindi. Í huga mínum verður Guinness alltaf uppáhaldsleikari annars magnaðs kvikmyndamanns frá Bretlandi, Sir David Lean. Saman unnu þeir að fjölda mynda, frá Great Expectations 1946 til A Passage to India tæpum 40 árum síðar. Þó Guinness léki sjaldnast aðalhlutverkið var hann lykilpersóna í öllum bestu myndum helsta kvikmyndaskálds 20. aldarinnar. Þar reis hann líka hæst, sérstaklega í Bridge on the River Kwai en ekki síður í öðrum myndum Lean, hvort sem hann léki Fagin í Oliver Twist eða frænda söguhetjunnar í Doctor Zhivago.

Síðasta mynd hans var Interview Day. Lítil sjónvarpsmynd sem var sýnd hérlendis fyrir ekki svo löngu síðan. Þar lék hann roskinn mann sem reyndi að koma syni sínum í skilning um að það væri ekki kominn tími á hann að fara á elliheimili. Þó hann væri kominn yfir áttrætt sýndi hann enn og sannaði hvers hann var megnugur. Sumir leikarar fylgja okkur alla tíð.

Ég verð víst að viðurkenna að flestir kannast sennilega við Guinness sem Obi Wan-Kenobi úr Star Wars. En fyrir mér verður hann þó alltaf Nicholson ofursti með allri sinni þrjósku, staðfestu og trú á það sem honum hefur verið kennt að eigi að vera einkenni bresks herforingja.

Deildu