Nánast allt sem skiptir máli og hefur áhrif á hamingju okkar er háð því hvort samfélagið sem við búum í er samfélag jöfnuðar eða misskiptingar. Rannsóknir sýna aftur og aftur að félagslegur og efnahagslegur jöfnuður skiptir öllu máli þegar kemur að lífsgæðum almennings.
Má í því samhengi nefna ólíkar breytur eins og lífslíkur, læsi, stærðfræðikunnáttu, tíðni ungbarnadauða, fjölda morða, fjölda fanga, ótímabærar þunganir, almennt traust, ofþyngd, tíðni geðsjúkdóma, tíðni fíknisjúkdóma og möguleika einstaklinga til að færast á milli stétta.
Richard Wilkinson hefur mikið rannsakað tengsl milli jöfnuðar og lífsgæða og birtir hann niðurstöður sínar meðal annar í bókinni The Spirit Level: Why Greater Equality Makes Societies Stronger.
Nánast allar breytur koma betur út í þeim löndum þar sem jöfnuður er hvað mestur. Það er á Norðurlöndunum og í Japan. Það sem meira er þá skiptir jöfnuður mun meira máli en hagvöxtur eða verg þjóðarframleiðsla. Verður það að teljast áhugavert í ljósi þess hve margir stjórnmálamenn og flokkar leggja áherslu á hagvöxt og almennar skattalækkanir (sem auka ójöfnuð).
Í myndbandinu hér fyrir neðan, sem allir ættu að horfa á, segir Wilkinson frá helstu niðurstöðum sínum (ca. 16 mínútur):
Hagvöxtur skiptir vissulega verulegu máli í fátækum ríkjum en takmörkuðu máli hjá vestrænum þjóðum. Ísland hefur lítið með mikið meiri hagvöxt að gera enda ein ríkasta þjóð í heimi.
Ef við viljum auka almenna velsæld er mikilvægast að tryggja sem mestan jöfnuð.
Tengt: