Saga geðlækninga – pyntingar, töframeðul, lyflækningar og mannúð

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

16/03/2013

16. 3. 2013

Segja má að saga geðlækninga hafi einkennst af innantómum byltingum. Hugsjónamenn, predikarar, læknar og vísindamenn hafa keppst við að lýsa því yfir að loksins hafi verið fundin leið til að lækna geðveiki. Hver töframeðferðin hefur rekið aðra og í hvert sinn sem ný meðferð hefur verið fundin upp hefur hún verið talin bylting. Tölur um […]

Segja má að saga geðlækninga hafi einkennst af innantómum byltingum. Hugsjónamenn, predikarar, læknar og vísindamenn hafa keppst við að lýsa því yfir að loksins hafi verið fundin leið til að lækna geðveiki. Hver töframeðferðin hefur rekið aðra og í hvert sinn sem ný meðferð hefur verið fundin upp hefur hún verið talin bylting. Tölur um bata sjúklinga hafa síðan verið notaðar sem órækar sannanir um gildi meðferðanna (Whitaker, 2002). Þó töluverð áhrif sé lögð á mannúð í meðferð á geðsjúkum í dag hefur það ekki alltaf verið þannig.

tranquilizer chair

Róandi stóll

Fjötrar og pyntingar
Meðferðir sem eitt sinn þóttu skila miklum árangri voru í raun lítið annað en pyntingar. Geðsjúkir voru til að mynda bundnir fastir í sérútbúnum stólum þannig að þeir gátu alls ekki hreyft sig. Þessir fjötrar voru kallaðir  „róandi stólar“ (tranquilizer chairs) og þóttu gefast einkum vel til að ná tökum á erfiðum sjúklingum. Til að ná enn betri árangri voru fjötraðir geðsjúklingar settir á bekk eða stól sem hægt var að snúa og þeim svo hringsnúið eins hratt og hægt var. Önnur aðferð var sú að dýfa sjúklingum ofan í vatn þannig að þeir næðu ekki andanum, stundum þannig að þeir misstu meðvitund. Þessi aðferð er reyndar enn notuð í dag en þá sem pyntingaraðferð hjá stríðsherrum sem neita að fara eftir alþjóðlegum lögum um meðferð stríðsfanga. Þessa meðferð máttu geðsjúkir þola klukkutímum saman, stundum í heilan sólarhring án hvíldar. Þannig lýsti læknirinn Benjamin Rush (1749-1813), sem notaði gjarnan „róandi stóla“ við meðferð á geðsjúkum, því að hægt væri að róa erfiðustu sjúklinga með því að binda þá fasta í stól í 24 tíma (Whitaker, 2002).

Mannúð og virðing
Þó meðferð geðsjúkra hafi oft einkennst af því sem í dag myndi kallast grimmd þá komu tímabil þar sem önnur og manneskjulegri viðhorf voru höfð að leiðarljósi. Snemma á 19. öld voru starfrækt meðferðarheimili fyrir geðsjúka, bæði á Englandi og í Frakklandi, sem voru byggð á mannúð og virðingu. Stofnendur þessarar mannúðarstefnu voru flestir kvekarar sem höfðu allt aðrar hugmyndir um geðsjúka en almennt tíðkuðust. Kvekarar töldu að geðsjúkir væru bræður og systur í vanda en ekki villidýr eða illmenni eins og margir héldu fram. Þeir töldu því að besta leiðin til að lækna geðsjúka væri að veita þeim öryggi, hlýju og ekki síst viðfangsefni við hæfi. Kvekarar voru um leið alfarið á móti því að sýna geðsjúkum harðræði.

Ástæða er til þess að velta því fyrir sér hvers vegna kvekarar höfðu svona ólíkar hugmyndir en samtímamenn þeirra. Helstu ástæðurnar eru ef til vill að finna í trúarskoðunum þeirra. Kvekarar tilheyrðu minnihlutahóp kristinna trúmanna sem afneituðu heilagleika biblíunnar og voru á móti hvers kyns trúarkreddum. Kvekarar voru, og eru, almennt þeirrar skoðunar að góð verk skipti meira máli trúfesta og trúarjátningar. Vegna þessarar afstöðu voru kvekarar fyrirlitnir af öðrum kristnum trúarhreyfingum. Þessi afstaða þeirra var þess valdandi að kvekarar voru, og eru, almennt mun frjálslyndari í skoðunum en trúbræður þeirra. Kvekarar voru þannig í fararbroddi í baráttu gegn dauðarefsingum, þrælahaldi og fyrir réttum þeirra sem minna mega sín, þar á meðal réttindum geðsjúkra (Wikipedia, e.d.).

Það kemur því vart á óvart að meðferð kvekara á geðsjúkum var allt önnur og manneskjulegri en tíðkaðist. Þeir lögðu áherslu á að stofnanir fyrir geðsjúka væru sem líkastar heimilum, en ekki fangelsum. Þeir ráku því fallega innréttuð heimili sem höfðu aðgang að görðum þar sem sjúklingar gátu andað að sér fersku lofti í vinalegu umhverfi. Þeir veittu skjólstæðingum sínum góðan mat og kökur eftir getu og buðu jafnvel upp á vín. Það sem meira er lögðu þeir áherslu á að geðsjúkir hefðu eitthvað fyrir stafni. Þeir buðu því upp á alls kyns tómstundir eins og skák, bækur og ljóðalestur. Að sama skapi var töluverð áhersla lögð á sjálfseflingu þannig að vistmenn voru hvattir til þess að funda um eigin mál og setja sjálfir reglur um hegðun og störf innan heimilisins.

Þegar árangur þessara heimila var skoðaður þótti sýnt fram á að meira en helmingur skjólstæðinga náði fullum bata á um þrem árum (Whitaker, 2002).

Heilaskemmdir í stað húmanisma
Fjara fór undan húmanískri meðferð á geðsjúkum um miðbik 19. aldar af ýmsum ástæðum. Ein helsta ástæðan var eflaust sú að mannúðleg meðferð á geðsjúkum í anda kvekara var kostnaðarsöm. Fjöldi þeirra sem greindir voru með geðsjúkdóm fór ört vaxandi og ómögulegt þótti að halda úti litlum og kostnaðarsömum heimilum fyrir geðsjúka. Við tóku gríðarstórar stofnanir sem hýstu mörg hundruð geðsjúka á einum stað, í sumum tilfellum meira en þúsund. Þessar stofnanir voru undirmannaðar og þeir sem unnu á þeim voru ómenntaðir og höfðu lítinn áhuga á að vinna með fólki. Samfara þessum breyttu aðstæðum fór að bera á nýjum hugmyndum um geðsjúka. Í kjölfar aukinnar þekkingar á erfðafræði var farið að tala um að geðsjúkir væru haldnir erfðasjúkdóm. Upp komu sterkar hugmyndir um að einangra þyrfti geðsjúka og koma í veg fyrir að þeir fjölguðu sér þannig að sjúkdómurinn breiddist ekki út. Í Bandaríkjunum  og annars staðar í heiminum  var í auknum mæli litið á geðsjúka sem sérstaka ógn við mannlegt samfélag sem þyrfti að stöðva (Whitaker, 2002).

Meðferð við geðsjúkdómum fór nú að beinast helst að heilum hinna geðsjúku. Ljóst þótti að geðsjúkir væru með óeðlilega heilastarfsemi og áhersla var lögð á að finna leiðir til að laga heilann með einhverjum hætti. Alls kyns aðferðir voru prufaðar á geðsjúkum. Þeim var drekkt, þeir látnir sitja í heitu baði í marga klukkutíma og stundum marga daga og ýmislegt var gert til að valda það miklu álagi á líkama geðsjúkra að þeir misstu meðvitund. Sjúklingar voru líka sprautaðir með insúlíni og látnir þola rafstuðsmeðferðir. Snemma var vitað að þessar aðferðir voru líklegar til að valda töluverðum heilaskemmdum. Var það í raun markmiðið því talið var að hægt væri að lina kvalir geðsjúkra með því að eyða biluðum heilavef þeirra.

Skurðaðgerð á framheila

Á fimmta áratug 20. aldar var síðan farið að beita skurðaðgerðum á framheila sjúklinga af sömu ástæðum. Þessi aðferð þótti svo árangursrík og byltingarkennd að höfundur hennar, Egas Moniz, hlaut nóbelsverlaunin í læknisfræði fyrir uppfinningu sína árið 1949 (Whitaker, 2002).

Lamandi lyflækningar
Í maí 1954 var nýtt lyf sett á markað í Bandaríkjunum. Þetta lyf samanstóð af efninu chloropromazine og var selt undir heitinu Thorazine sem geðklofalyf. Læknar voru fljótir að lýsa aðdáun sinni á lyfinu og sögðu það öfluga leið til að framkvæma „skurðaðgerð“ á heila með lyfjum einum saman. Lyfið þótti hafa svipuð áhrif á heilann og heilaskurðaðgerðir en væri um leið öruggara. Í upphafi var viðurkennt að lyfið læknaði ekki geðklofa heldur væri fyrst og fremst nothæft til að róa og þagga niður í sjúklingum og gerði þá þannig meðfærilegri. Nokkrum árum seinna fóru lyfjafyrirtæki að markaðssetja Thorazine og önnur skyld lyf sem lækningu við geðklofa (Whitaker, 2002).

Drugs

Lyfjameðferðir

Á þessum árum komu fram kenningar um að geðklofi orsakaðist af offramleiðslu dópamíns í heilanum. Lyfin áttu að koma í veg fyrir áhrif dópamínsins með því að loka fyrir dópamínviðtaka í heilanum og þannig hindra upptöku dópamíns. Niðurstöður rannsókna bentu til þess að lyfin gerðu allt að 90% dópamínviðtaka óstarfhæfa.  Lyfin virtust draga úr ranghugmyndum og öðrum einkennum geðklofa en um leið höfðu þau önnur afar neikvæð áhrif á sjúklinga. Þeir sem notuðu lyfin urðu sljóir og margir kvörtuðu yfir því að þeim liði eins og þeir væru sem lifandi dauðir. Þeim leið sem þeir væru fangar í eigin líkama. Það kemur því vart á óvart að sjúklingar reyndu oft að komast hjá því að taka lyfin. Þar að auki sýndu sumar rannsóknir að notkun lyfjanna minnkuðu líkurnar á því að sjúklingarnir fengju bata. Fleiri og fleiri rannsóknir sýndu að þeir sjúklingar sem aldrei fengu geðlyf voru mun líklegri til að ná sér að fullu heldur en þeir sem fengu lyf.  Fjölmargar rannsóknir höfðu reyndar sýnt að þeir sem voru á lyfjum spjöruðu sig betur en við nánari skoðun kom í ljós að rannsóknirnar voru byggðar á vafasamri aðferðafræði. Bornir voru saman sjúklingar sem voru á lyfjum og sjúklingar sem höfðu verið á lyfjum en svo teknir skyndilega af þeim. Þeir sem voru skyndilega látnir hætta á lyfjum voru mun líklegri til að verða veikari. Lyfjafyrirtækin auglýstu ekki þá staðreynd að þeir sem aldrei höfðu fengið lyf eða þeir sem voru teknir smá saman af lyfjum voru líklegri til að ná fullum bata en þeir sem stöðugt voru hafði á geðlyfjum (Whitaker, 2002).

Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar framkvæmdi Alþjóða heilbrigðismálastofnunin ítarlega könnun á geðheilsu í heiminum. Í þeirri könnun kom í ljós að geðsjúkir í þróunarlöndunum voru líklegri til að ná fullum bata en þeir sjúklingar sem búa í hinum vestræna heimi. Eina af ástæðunum fyrir þessum mun er talin vera að geðlyf eru minna notuð í þróunarlöndunum (Leff, Sartorius, Jablensky, Korten, & Ernberg, 1992) (Jablensky, o.fl., 1992).

Síðustu ár hafa ný lyf verið að koma á markað sem öll hafa verið auglýst sem byltingakennd meðferð við geðklofa. Þessi lyf eru þó flest lík Thorazine að því leiti að þau draga úr virkni dópamínviðtaka en eru talin valda minni aukaverkunum. Nýju lyfin hafa líka áhrif á serótónínviðtaka og annarra viðtaka í heilanum. Ef draga á einhvern lærdóm af sögu geðlyfja er skynsamlegt að varast fullyrðingar um að nýju lyfin séu sú bylting sem haldið er fram (Whitaker, 2002).

Hvað er geðveiki?
Staðreynd málsins er að þekking okkar manna á orsökum geðsjúkdóma er takmörkuð. Það sama á við um orsakir margra aðra sjúkdóma. Enginn veit í raun hvað geðklofi er. Því er engin lækning til og lyfjameðferðir ganga fyrst og fremst út á að draga úr einkennum. Í leiðbeiningabæklingi um geðklofa fyrir sjúklinga og aðstandendur sem dreift er í apótekum er óljóst talað um vanþekkingu læknavísindanna á sjúkdómnum. Þar segir meðal annars: „Ýmislegt er óljóst í sambandi við þá röskun á heilastarfsemi er veldur einkennum geðklofa. Vitað er um fleiri en eina röskun á starfsemi heilans þó einkennin flokkist undir sömu sjúkdómsgreiningu.“ Draumar um byltingu á meðferð geðklofa eru ekki langt undan því samkvæmt höfundi bæklingsins má vænta  „fljótlega byltingar á sviðum erfðarannsókna er mun leiða til enn markvissari meðferða“ (Lárus Helgason, e.d.).

Áhrif lyfjafyrirtækja og þörf fyrir óháðar rannsóknarstofnanir
Sagan sýnir svo ekki sé um villst að hjávísindi, fordómar og vanþekking hafa einkennt geðlækningar. Robert Whitaker, höfundur bókarinnar Mad in America, hefur vakið marga til umhugsunar um þá lyfjameðferð sem enn er stunduð. Ljóst er að rannsóknir á áhrifum geðlyfja eru stundum óvandaðar og hlutdrægar lyfjaframleiðendum í hag. Ein ástæðan er sú að færst hefur í vöxt að lyfjaframleiðendur sjálfir kosti rannsóknir sem gerðar eru á lyfjum á meðan hlutfallslega færri rannsóknir eru framkvæmdar af hlutlausum vísindamönnum og háskólastofnunum. Óháðar stofnanir hafa einfaldlega ekki nægjanlegt fé til þess að stunda rannsóknir sínar. Sama má segja um þá meðferðaraðila sem vilja stunda húmanískari meðferðir. Lítið rannsóknarfé er til að mynda varið til þess að rannsaka hvaða áhrif bætt félagslegt umhverfi geðsjúkra hefur á heilsu þeirra og batalíkur. Gróðavon lyfjafyrirtækja og stundum einnig lækna á þeirra vegum er gríðarleg ef þau ná að markaðssetja nýtt lyf sem talið er bera árangur. Þetta verður að hafa í huga í hvert sinn sem ný lyf koma á markað.

Heimildir:
Jablensky, A., Sartorius, N., Ernberg, G., Anker, M., Korten, A., Cooper, J., o.fl. (1992). Schizophrenia: Manifestations, Incidence and Course in Different Cultures. Psychological Medicine, 1-95.

Lárus Helgason. (e.d.). Actavis. Sótt 28. október 2007 frá Actavis: www.actavis.is/NR/rdonlyres/4446982E-524A-45FD-9DF5-7ECFC055A287/0/gedklofi.pdf

Leff, J., Sartorius, N., Jablensky, A., Korten, A., & Ernberg, G. (1992). The International Pilot Study of Schizophrenia: Five-year Follow-up Findings. Psychological Medicine , 131-145.

Whitaker, R. (2002). Mad in America: Bad Science, Bad Medicine, and the Enduring Mistreatment of the Mentally Ill. New York: Perseus Publishing.

Wikipedia. (e.d.). Wikipedia. Sótt 30. október 2007 frá Religious Society of Friends: http://en.wikipedia.org/wiki/Religious_Society_of_Friends

Deildu