Það er töluverð vinna að velja frambjóðendur til að kjósa næsta laugardag á stjórnlagaþing. Sérstaklega þar sem ég vil ekki taka afstöðu fyrr en ég hef kynnt mér skoðanir allra þeirra sem eru í framboði. Töluvert er af góðum upplýsingum á netinu sem kjósendur geta nýtt sér. Svona ætla ég að finna mína frambjóðendur:
1) Ég skoða alla frambjóðendur á vefsíðunni www.frambjodendur.is. Á þessari síðu er að finna sömu upplýsingar og eru í kynningarblaðinu sem sent hefur verið inn á öll heimili. Kosturinn við að nota þessa síðu er að maður getur flokkað frambjóðendur með því að velja: já – nei eða kannski. Í já flokkinn set ég þá frambjóðendur sem ég veit eitthvað um og treysti vel til að skrifa nýja stjórnarskrá. Í nei flokkinn fara svo þeir sem ég veit eitthvað um en treysti alls ekki. Ef stefnumálin eru spennandi en ég veit lítið um frambjóðandann þá set ég hann í kannski flokkinn.
2) Ég fletti öllum í kannski flokknum (sjá lið 1) upp á www.kirkjan.is/stjornlagathing. Ef frambjóðendur vilja berjast sérstaklega gegn trúfrelsi fara þeir beint í nei flokkinn. Ég treysti einfaldlega ekki fólki sem er fylgjandi mismunun í trúmálum til að skrifa stjórnarskrá. Enda tel ég að stjórnarskráin eigi að vernda rétt einstaklinga, ekki hagsmunahópa. Ég treysti heldur ekki fólki með fordóma, en töluverður fjöldi frambjóðenda afhjúpar fordóma sína á þessari síðu.
3) Ef margir eru eftir skoða ég betur aldur og reynslu frambjóðenda. Þroski sem fylgir hækkandi aldri og reynslu á ýmsum sviðum skiptir máli.
4) Ég ætla að kynna mér betur svör þeirra sem enn eru í kannski hópnum á www.dv.is/stjornlagathing/all/. Þeir sem svara mjög ólíkt mér á prófi DV lenda líklegast í nei hópnum. Ekki endilega samt. Fer eftir því hvernig þeir rökstyðja mál sitt.
5) Ég ætla að skoða hversu margir af þeim sem eftir eru eyða peningum í beinar auglýsingar. Ef margir eru eftir í kannski hópnum mun ég setja ákafa auglýsendur beint í nei hópinn. Auglýsingamennska samræmist ekki „anda“ stjórnlagaþings að mínu mati.
6) Ég skoða vefsíður þeirra frambjóðenda sem eftir eru, og ef tími gefst reyni ég að „googla“ þá líka til að fá frekari upplýsingar. Þeir einstaklingar sem eru frjálslyndir, víðsýnir og með skoðanir sem benda til þess að þeir séu með ríka réttlætiskennd og eigi auðvelt með að vinna með öðru fólki fá þá frekar mitt atkvæði.
7) Ef, eftir allar þessar æfingar, fleiri en 24 (ég ætla að kjósa mig í 1. sæti) frambjóðendur eru komnir í já hópinn og þeir virðast allir álíka hæfir þá leyfi ég mér að kjósa frekar þá sem eru minna þekktir.
Svolítið tímafrek vinna, en líka nokkuð skemmtileg.
Tenglar:
1) Framboðsyfirlýsing
2) Framboðið á Facebook
3) Framboðið á Skoðun.is
Vinsamlegast smellið á „Like“ til að styðja framboð mitt: