Í stefnuskrá minni segi ég:
„Verði ég kosinn mun ég kappkosta að kynna mér afstöðu sem flestra til stjórnarskrárinnar. Þetta mun ég gera bæði með því að fylgjast með umræðunni á komandi vikum og hlusta á niðurstöður Þjóðfundar. Ég mun opna vefsíðu þar sem samborgurum mínum gefst kostur á að senda inn hugmyndir sínar og væntingar um breytta stjórnarskrá.
Nú þegar eru nokkur atriði sem ég tel að þurfi að tryggja í stjórnarskrá: Sjá stefnuskrá
Það sem skiptir máli hér er að ég hef ekki fastmótaðar skoðanir á öllum málum og tel ég það vera kost. Stjórnlagaþing á að starfa í lágmark tvo mánuði og þar á þingmönnum að gefast tækifæri til að kynna sér skoðanir annarra þingmanna auk þess sem ég tel skyldu þingmanna að hlusta á viðhorf almenning m.a. með tillit til niðurstöðu þjóðfundar.
Hér fyrir neðan eru því svör mín og athugasemdir við spurningum DV.
—–
Spurning DV: Telur þú ástæðu til að breyta stjórnarskránni?
Svar SHG: Mikla
Athugasemd:
Með þessu svari er ég ekki að segja að stjórnarskrá Íslands sé sérstaklega slæm eða að henni þurfi að umbylta. Alls ekki. Margt gott er að finna í stjórnarskránni eins og hún er núna. Það er þó löngu kominn tími til að gera ýmsar breytingar og sérstaklega mikilvægt er að gefa almenningi kost á að hafa áhrif eins og gert hefur verið með þjóðfundi og lýðræðislega kjörnu stjórnlagaþingi.
Ég hefði alveg eins geta valið svarið „Mjög mikla“.
—–
Spurning DV: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) að eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum verði bundið í stjórnarskrá?
Svar SHG: Mjög hlynnt(ur)
Athugasemd:
Úr stefnuskrá: „Þjóðareign á náttúruauðlindum skal tryggð í stjórnarskrá.“
—–
Spurning DV: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að hafa ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi í stjórnarskránni?
Svar SHG: Mjög andvíg(ur)
Athugasemd:
Úr stefnuskrá: „Afnema þarf ákvæði um sérstaka vernd Þjóðkirkjunnar. Stjórnarskrá Íslands á að tryggja fullt trúfrelsi og jafnræði borgaranna óháð lífsskoðun þeirra. Því þarf að fella niður 62. grein stjórnarskrárinnar.“
—–
Spurning DV: Á forseti Íslands áfram að hafa málskotsrétt?
Svar SHG: Frekar hlynnt(ur)
Athugasemd:
Úr stefnuskrá: „Aukið lýðræði. Kveðið verði á um aukinn rétt almennings til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Velta má fyrir sér hvort slík krafa gæti ekki farið fram rafrænt. Krafan um þjóðaratkvæðagreiðslu á að koma frá fólkinu, ekki forsetanum.“
Ég er ekki endilega á móti því að forsetinn hafi einnig málskotsrétt. Það kann að vera skynsamlegt að hann hafi það vald áfram. Valdið á þó fyrst og fremst að vera hjá þjóðinni.
Svar mitt „Frekar hlynntur“ þýðir því í raun að ég er ekki viss um hversu mikilvægt þetta vald forsetans er ef almenningur fær aukin réttindi til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu.
—–
Spurning DV: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) að viðhafa þjóðaratkvæðagreiðslur í auknu mæli?
Svar SHG: Mjög hlynnt(ur)
Athugasemd:
Ég er „Mjög hlynntur“ því að tryggja rétt almennings til að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslur eins og áður segir. Um leið er ég ekki viss um að mjög tíðar þjóðaratkvæðagreiðslur séu endilega æskilegar. Það sem er mikilvægast við að tryggja aukin rétt almennings til að fara fram á þjóðaratkvæði er að þannig neyðast stjórnmálamenn til að kynna mál sín betur fyrir þjóðinni. Óvinsælar ákvarðanir eru oft nauðsynlegar, en þá er það verkefni stjórnvalda að útskýra hvers vegna þarf að taka slíkar ákvarðanir.
—–
Spurning DV: Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) persónukjöri?
Svar SHG: Mjög hlynnt(ur)
Athugasemd:
Persónukjör er ekki það sama og persónukjör. Ég er vissulega „Mjög hlynntur“ því að kjósendur geti haft miklu meiri áhrif á það hvaða einstaklingar verða fulltrúar þeirra á þingi og í sveitarstjórnum. Ég er þó ekki sannfærður um að allar útgáfur af persónukjörskosningum séu góðar. Þannig hef ég haft nokkrar efasemdir um hvernig staðið er að kosningu til stjórnlagaþings og viðurkenni ég að efasemdir mínar eru að einhverju leiti byggðar á fáfræði minni um hver sé besta lausnin. Markmið mitt er þó skýrt. Ég vil að fólk geti í auknum mæli valið einstaklinga en ekki bara flokka.
—–
Spurning DV: Á að kjósa ríkisstjórn beinni kosningu?
Svar SHG: Hlutlaus
Athugasemd:
Heiðarlegasta svarið hér er: „Ég hef ekki myndað mér skýra skoðun“. Að mörgu leiti er það spennandi hugmynd en ég hef ekki haft tækifæri til að kynna mér hana nægjanlega til að mynda mér vel ígrundaða skoðun. Þetta er eitthvað sem gott fólk þarf að ræða um á stjórnlagaþinginu sjálfu. Ég hef þó lengi verið þeirrar skoðunar að ráðherrar eigi ekki að sitja á þingi.
—–
Spurning DV: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að ráðherrar geti setið á Alþingi?
Svar SHG: Mjög andvíg(ur)
Athugasemd:
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ráðherrar eigi ekki að sitja á þingi.
—–
Spurning DV: Á að lækka eða hækka kosningaaldurinn?
Svar SHG: Óbreyttur
Athugasemd:
Ég sé í fljótu bragði enga ástæðu til þess að breyta kosningaaldrinum. Ég er þó alltaf til í að hlusta á rök og tel ekkert sjálfsagt í þessum efnum.
—–
Spurning DV: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að dómsmálaráðherra fari einn með vald til að skipa hæstaréttardómara?
Svar SHG: Frekar andvíg(ur)
Athugasemd:
Almennt er ég hlynntur dreifingu valds og því æskilegt að fleiri komi að því að skipa hæstaréttardómara og að þeir sem hafi valdið þurfi að fara eftir skýrum reglum.
—–
Spurning DV: Hver eftirfarandi möguleika lýsir þínum áherslum um kjördæmaskipan á Íslandi best?
Svar SHG: Landið verði eitt kjördæmi
Athugasemd:
Mestu máli skiptir, að mínu mati, að tryggja jafnt vægi atkvæða. Lengst af hef ég veri þeirrar skoðunar að landið eigi einnig að vera eitt kjördæmi en sú afstaða mín er ekki meitluð í stein. Jafnt vægi atkvæða er það sem skiptir máli.
—–
Spurning DV: Hver er afstaða þín til atkvæðavægis í Alþingiskosningum?
Svar SHG: Vægi atkvæða á að vera hið sama óháð búsetu
Athugasemd:
Úr stefnuskrá: „Jafnt vægi atkvæða. Stjórnarskráin á að tryggja jafnan rétt borgaranna. Því tel ég eðlilegt að kveðið sé á um jafnt vægi atkvæða í stjórnarskrá, óháð búsetu eða stöðu að öðru leyti.“
—–
Spurning DV: Hver á að geta knúið á um þjóðaratkvæðagreiðslur? (merktu við allt sem við á)
Svar SHG:
Forsetinn
Meirihluti alþingis
Hlutfall kjósenda
Athugasemd:
Úr stefnuskrá: „Aukið lýðræði. Kveðið verði á um aukinn rétt almennings til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Velta má fyrir sér hvort slík krafa gæti ekki farið fram rafrænt. Krafan um þjóðaratkvæðagreiðslu á að koma frá fólkinu, ekki forsetanum.“
Á minnihluti alþingis líka að geta knúið á um þjóðaratkvæðagreiðslur? Ég er ekki viss. Hvað með forsetann? Er nauðsynlegt að hann geti sent mál í þjóðaratkvæði ef búið er að tryggja rétt almennings til að fara fram á slíkar kosningar? Þetta er eitthvað sem ég er reiðubúinn að ræða á stjórnlagaþinginu sjálfu verði ég kjörinn.
—–
Spurning DV: Eiga þjóðaratkvæðagreiðslur að vera ráðgefandi eða bindandi?
Svar SHG: Ýmist ráðgefandi eða bindandi eftir atvikum
Athugasemd:
Ég hallast að því að báðir möguleikar eigi að vera í boði. Ef ég þyrfti að velja um einn kost þá myndi ég velja „bindandi“.
—–
Spurning DV: Hvort vilt þú heldur að ríki á Íslandi þingræði eða forsetaræði?
Svar SHG: Þingræði
Athugasemd:
Svar mitt hér er „þingræði“ fyrst og fremst vegna þess sú ákvörðun að taka upp forsetaræði er afar stór og hefur ekki verið mikið til umræðu hér á landi. Í það minnsta ekki meðal almennings. Með þessu er ég ekki að segja að þingræði sé í sjálfu sér betra fyrirkomulag en forsetaræði. Þannig eru skilin á milli framkvæmdavalds og löggjafans yfirleitt skarpari í forsetavaldi og kann það að vera gott. Ég tel mikilvægt að stjórnlagaþing fjalli rækilega um kosti og galla þingræðis og forsetaræðis og hvort tilefni sé að breyta stjórnskipun á Íslandi í átt að forsetaræði.
Mikilvægt er að stjórnarskráin sé skýr þegar kemur að stjórnskipan. Í stefnuskrá minni segir: „Fjalla þarf um stjórnskipan Íslands og þrískiptingu valds í stjórnarskrá með skýrum hætti og í samræmi við raunveruleikann.„
Svo það sé á hreinu þá er ég ekki alfarið á móti hugmyndinni um forsetaræði þó ég velji að svara „þingræði“ hér. Ég vil umræður um stjórnskipan á Íslandi og að ákvarðanir séu teknar um slíkar breytingar aðeins eftir ítarlega og yfirvegaða umræðu.
—–
Spurning DV: Eru hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að dómarar verði kosnir af almenningi?
Svar SHG: Frekar andvíg(ur)
Athugasemd:
Ég er alfarið á móti því að dómarar séu kosnir í einhverri vinsældarkosningu. Í raun held ég að slíkt fyrirkomulag geti verið stórhættulegt. Dómarar eiga að fara að lögum og eiga ekki að vera háðir þrýstihópum. Ég tel töluverða hættu á því að einstaka þrýstihópar geti haft áhrif á dómara verði þeir kosnir af almenningi. Slíkt fyrirkomulag gæti t.a.m. haft í för með aukna refsigleði í ýmsum málaflokkum vegna reiði í samfélaginu o.s.frv.
—–
Spurning DV: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að heimilaðar verði opnar yfirheyrslur á Alþingi?
Svar SHG: Mjög hlynnt(ur)
Athugasemd:
Mér þykir þessi hugmynd mjög spennandi en auðvitað skiptir máli hver umgjörð slíkra yfirheyrslna verður.
—–
Spurning DV: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að vald til að veita opinberar stöður sé hjá einum pólitískum ráðherra?
Svar SHG: Mjög andvíg(ur)
Athugasemd:
Hér vísa ég til þeirrar skoðunar minnar að vald eigi að vera dreift.
—–
Spurning DV: Á að draga úr eða auka valdheimildir forsetans í stjórnarskránni?
Svar SHG: Hlutlaus
Athugasemd:
Svar mitt „Hlutlaus“ er hér ónákvæmt. Ég tel að það sé fullt tilefni að ræða og endurskoða stöðu forseta Íslands í stjórnarskrá. Sérstaklega ef réttur almennings til að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu verður aukinn. Staða forsetaembættisins er líka háð allri annarri umræðu um stjórnskipan á Íslandi (sjá umræður um þingræði og forsetaræði). Ég er ekki harður andstæðingur núverandi fyrirkomulags og ekki heldur sérstakur stuðningsmaður þess og tel ekki raunhæft eða heiðarlegt að taka ákveðna afstöðu til þessarar spurningar með einföldu svari.
—–
Spurning DV: Hvort viltu heldur að kjördæmaskipan byggi á einfaldri meirihlutakosningu í einmenningskjördæmum eða á hlutfallskosningu?
Svar SHG: Hlutfallskosning
Athugasemd:
Ég hallast að því að því að velja hlutfallskosningu en með eins og svo margt tel ég mig ekki hafa forsendur til taka mjög eindregna afstöðu. Hlutverk stjórnlagaþings verður að m.a. annars að ræða þessa spurningu og vega kosti og galla.
—–
Spurning DV: Á að fjölga eða fækka þingmönnum?
Svar SHG: Fækka þingmönnum
Athugasemd:
Ég tel í það minnsta að ekki eigi að fjölga þingmönnum. Líklegast eru þeir óþarflega margir miðað við íbúafjölda.
—–
Spurning DV: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að takmarka hversu lengi forseti getur setið?
Svar SHG: Hlutlaus
Athugasemd:
Það eru kostir og gallar við að takmarka setu valdhafa. Er óheilbrigt að sömu menn sitji áratugum saman við völd? Ég hef oft velt þessu fyrir mér. Á móti hef ég spurt hvort það sé ekki óeðlilegt að takmarka rétt kjósenda til að velja aftur sama fólkið? Ef við gefum okkur að lýðræði sé tryggt á Íslandi er erfitt að sjá hvers vegna ætti að banna vinsælu fólki (sem væntanlega er kosið vegna verka sinna) að vera lengi við völd, enda sé það vilji kjósenda.
—–
Spurning DV: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að takmarka hversu lengi forsætisráðherra getur setið?
Svar SHG: Hlutlaus
Athugasemd:
Sjá svar við síðustu spurningu.
—–
Spurning DV: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að íslenska verði bundin í stjórnarskrá sem þjóðtunga?
Svar SHG: Frekar hlynnt(ur)
Athugasemd:
Er þörf á að tryggja stöðu íslenskrar tungu í stjórnarskrá? Kannski. Hvað með stöðu íslenska táknmálsins? Táknmálið er „þjóðtunga“ margra Íslendinga. Ég hallast að því að tryggja stöðu táknmálsins einnig.
—–
Spurning DV: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að tryggja jafnrétti óháð kynhneigð í stjórnarskrá?
Svar SHG: Mjög hlynnt(ur)
Athugasemd:
Í stjórnarskrá segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“
Spurt er hvort eigi að tryggja jafnrétti óháð kynhneigð í stjórnarskrá. Svar mitt er „að sjálfsögðu“. Ég tel að „allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda“.
Ég vil þó velta upp þeirri spurningu hvort telja þurfi upp sérstaklega alla hópa? Hvað ef einhver hópur er ekki sérstaklega talinn upp í stjórnarskrá? Er staða hans þá verri en annarra? Þarf þá að breyta stjórnarskrá í hvert skipti sem nýr þjóðfélagshópur, sem hefur ekki áður verið skilgreindur, kemur upp á yfirborðið?
Ég velti þessu fyrir mér. Öllum má þó vera ljóst að ég vil að stjórnarskrá tryggi jafnrétti og mannréttindi allra. Ef vilji er fyrir því að viðhalda upptalningu hópa þá er um að gera að bæta fleiri hópum inn í þá upptalningu.
—–
Spurning DV: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að stjórnarskrá kveði á um að Ísland verði ávallt kjarnorkuvopnalaust land?
Svar SHG: Mjög hlynnt(ur)
Athugasemd:
Ísland er herlaus þjóð og ég tel sjálfsagt að í stjórnarskrá komi skýrt fram að kjarnorkuvopn séu ekki geymd hér á landi.
Ég vil einnig að settar verði skýrar takmarkanir á valdi stjórnvalda til að styðja stríðsátök.
Úr stefnuskrá:
„Skýrar takmarkanir eiga að vera á valdi framkvæmdavaldsins til að styðja stríðsátök í nafni íslensku þjóðarinnar. Í það minnsta ætti að þurfa samþykki aukins meirihluta þingsins og helst samþykki þjóðarinnar í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu. Núverandi ástand, þar sem örfáir valdhafar geta gert alla Íslendinga að óbeinum þátttakendum í stríðsátökum, er óásættanlegt.“
—–
Spurning DV: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að réttur almennings til upplýsinga sem varða almannahag verði tryggður í stjórnarskrá?
Svar SHG: Frekar hlynnt(ur)
Athugasemd:
Ég er sannarlega hlynntur auknum rétti almennings til að fá upplýsingar er varða almannahag. Tel ég mikilvægt að þessi hugmynd verði rædd á stjórnlagaþingi og tillögur settar fram um hvernig best sé að tryggja slík réttindi.
Virðingafyllst,
Sigurður Hólm Gunnarsson
Sjá nánar:
Vinsamlegast smellið á „Like“ til að styðja framboð mitt: