Kirkjan er fjórða valdið, önnur trúarbrögð eru hættuleg og hætt verður að halda jól og skíra börn ef ríki og kirkja verða aðskilin.

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

13/11/2010

13. 11. 2010

Áhugavert er að skoða afstöðu frambjóðenda til stjórnlagaþings til aðskilnaðar ríkis og kirkju á vef Þjóðkirkjunnar. Forsaga málsins er að Þjóðkirkjan sendi öllum frambjóðendum eftirfarandi bréf: ———- Biskupsstofa fer þess visamlegast  á leit við þig að þú gerir í stuttu máli grein fyrir afstöðu þinni til 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo: „Hin evangeliska  lúterska […]

Áhugavert er að skoða afstöðu frambjóðenda til stjórnlagaþings til aðskilnaðar ríkis og kirkju á vef Þjóðkirkjunnar. Forsaga málsins er að Þjóðkirkjan sendi öllum frambjóðendum eftirfarandi bréf:

———-

Biskupsstofa fer þess visamlegast  á leit við þig að þú gerir í stuttu máli grein fyrir afstöðu þinni til 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:

„Hin evangeliska  lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.”

1. Telur þú þörf á að breyta þessari grein? Ef svo er hvernig?
2. Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?

———-

Áhugaverð svör
Ég las yfir svör þeirra sem vilja ekki afnema sérstaka vernd Þjóðkirkjunnar í 62. grein og vilja ekki aðskilnað ríkis og kirkju. Við lesturinn fann ég margar „áhugverðar“ skoðanir. Ég deili hér nokkrum með ykkur. (Mín svör eru hér.)

Ásgeir Guðmundur Bjarnason vill ekki aðskilja ríki og kirkju enda er kirkjan „fjórða valdið“:

„Einnig tel ég mikilvægt að líta svo á að meginstoðirnar í samfélagi okkar séu fjórar en ekki þrjár, löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald og svo lít ég á kirkjuna sem hið fjórða og þess vegna skuli þjóðkirkjan vera þjóðkirkja.“

Ágúst Alfreð Snæbjörnsson telur að kristileg gildi þurfi að vernda og að minnihluti sé fylgjandi aðskilnaði (sem er auðvitað rangt hjá honum 70% þeirra sem eru í Þjóðkirkjunni vilja aðskilnað):

„Ísland og gildi Íslendinga er byggt á kristilegum gildum. Við viljum fá réttlátt samfélag þar sem stöðuleiki, jafn réttur manna og réttlæti er. Þetta eru Kristileg gildi sem eiga sterklega við í okkar þjóðfélagi og er einn af stólpum samfélagsins. Ég trúi því að meirihluti þjóðarinnar vill hafa hina evangelíska lútersku kirkju sem þjóðkirkju Íslendinga“

Baldur Ágústsson vill að kirkjan fái aukna vernd gegn aðskilnaðarsinnum og öðrum trúflokkum sem ekki eru kristilegir. Hann virðist vilja banna önnur trúarbrögð en Ásatrúarmenn fá að vera í friði af því þeir hjálpuðu til við að taka upp kristni án blóðsúthellinga.

„Ríkið á ekki aðeins að vera fjárhagslegur bakhjarl heldur einnig verndari kirkjunnar þegar að henni er vegið, hvort sem er af aðskilnaðarsinnum eða öðrum trúflokkum sem ekki eru kristnir og sækja nú í vaxandi mæli í landvist og sálir kristinna. Kristnir sérsöfnuðir skulu fá að starfa þó að þá greini á við þjóðkirkjuna um fræðileg atriði. Ásatrúarmenn skulu fá að starfa enda eru þeir hluti af sögu okkar og njóta virðingar sem slíkir. Þeir skulu njóta þess að hafa tekið við kristni inn í landið með sæmd og án blóðsúthellinga. Þjóðkirkjan þarf að vera sýnilegri, ekki aðeins sem skraut heldur einnig sem sterkur máttarstólpi í íslensku þjóðfélagi.“

Guðmundur Gíslason telur að siðfræði kirkjunnar sé einn af hornsteinum íslenskrar menningar og segir sögur af yfirlýstum trúleysingjum sem hafa beðið guð um hjálp.

„Ég tel að kirkjan og siðfræði hennar séu einn af hornsteinum íslenskrar meningar [sic]. Það má efalaust finna að einstökum starfsmönnum kirkjunar [sic] , og það er miður, kirkjan sjálf stendur eftir sem áður keik. Hef sjálfur hitt yfirlísta [sic] trúleysingja biðja guð að hjálpa sér þegar vanda bar að höndum,sem er bara frábært. Mín vegna mætti síðasta málsgreininn detta út, við það væri þessu ekki breytt nema þjóðin vilji með meirihluta atkvæða.“

Halldór Jónsson er á móti fjölmenningu og að fólk fái ríkisborgararétt án þess að tala góða íslensku svo vill hann ekki afnema 61. grein (á vonandi við 62. grein) þar sem meirihluti landsmanna aðhyllist hana (sem er rangt eins og áður segir).

„Ég er fremur andvígur hugmyndum um fjölmenningu og tel þær gefast illa. Ég tel að enginn eigi að verða íslenskur ríkisborgari án þess að tala þokkalega íslensku og að hann semji sig að íslenskum háttum, lögum og siðvenjum þjóðarinnar. Enginn megi ganga grímuklæddur á almannafæri, hvorki á trúarlegum forsendum né öðrum. Ég tel ekki ástæðu til að afnema 61 grein núverandistjórnarskrár  [sic] þjóðkirkju á Íslandi þar sem meirihluti landsmanna aðhyllist hana.“

Haukur Arnþórsson telur Þjóðkirkju vera „mannræktarstofnun“ sem hefur lagað sig vel að jafnri stöðu kynjanna og minnihlutahópum. Þjóðkirkjan ber líka, að hans mati, höfuð og herðar yfir aðra hvað varðar umburðarlyndi, menntun og upplýsingu. Aðrir kúga börn, konur og minnihlutahópa.

„Þjóðkirkjan er hluti af íslenskri menningu og alþjóðlegri. Hún er líka mannræktarstofnun sem veitir íslenskum heimilum þjónustu á viðkvæmum sviðum lífsins og ferst það vel úr hendi. Á margan hátt hefur hún lagað sig að nýjum tímum, til dæmis varðandi jafna stöðu kynjanna og minnihlutahópa. Hún virðist bera höfuð og herðar gagnvart öðrum trúfélögum varðandi umburðarlyndi og styður menntun og upplýsingu í samfélaginu. Ég óttast að fá trúfélög myndu falla Íslendingum eins vel í geð ef á reyndi – og að önnur og meira framandi trúfélög myndu fljótlega amast við almennri menntun í skólum að einhverju leyti og kúga börn, konur og minnihlutahópa meira en við höfum áður séð, eins og reyndin er í öðrum löndum.“

Hrefna Bryndís Jónsdóttir vill EKKI (hennar hróp) afnema vernd Þjóðkirkjunnar því hér er kristið samfélag.

Jóhanna Heildal Sigurðardóttir vill alls ekki aðskilja ríki og kirkju því þá yrðu ekki haldin jól, páskar eða aðrar trúarlegar hátíðir. Svo yrði líka hætt að ferma og skíra börn og auðvitað bannað að kenna kristinfræði í skólum. Svo eru múslímar fordómafullir.

„Ég vil hafa hina evangelisku lútersku kirkju sem okkar þjóðkirkju. Ég tel að ekki sé þörf á því að aðskilja ríki og kirkju. Við verðum að skoða þessi mál mjög vel og gera okkur grein fyrir því að kirkjan spilar mun stærra hlutverk í þjóðfélaginu okkar, heldur en að flestir geri sér í hugarlund. T.d. á erfiðum tímum þá aðstoðar kirkjan þá sem minna mega sín svo eitthvað sé nefnt. ég held að fólk þurfi líka að gera sér grein fyrir breytingunum sem það hefði í för með sér, t.d. yrðu ekki haldin jól, né páskar því að það eru trúarlegar hátíðir. Ekki yrðu börn skírð, né fermd. Það verður að kynna sér það sem kirkjan gerir fyrir okkur. Stendur með okkur á erfiðumu [sic] tímum, hvort sem um er að ræða fátækt eða sorg. Og í dag held ég að það sé vel þörf á því. við getum ekki bara hoppað upp til handa og fóta og orðið pirruð yfir því að kirkjan sé að fá pening og halda að þetta væri góður sparnaður. Það eru til aðrar leiðir, og þó svo að einhverjir séu ósáttir við kristnifræði í skólum þá sé ég ekki tilgang í að breyta þjóðkirkjunni vegna þessa. Ég yrði mjög ósátt með ef ekki yrði kennd kristnifræði í skólum. Við eigum ekki að hlaupa upp til handa og fóta til að aðlagast því fólki sem flutt hefur inn nýjar venjur og siði. Þau þurfa að aðlagast okkar þjóðfélagi. T.d. tel ég að við myndu ekki fá að byggja kristna kirkju í múslima ríki.“

María Ágústsdóttir – prestur telur aðskilnað ríkis og kirkju muni hafa sömu afleiðingar og einkavæðing bankanna. Hún vill þó að önnur kristin trúfélög (athugið, bara kristin trúfélög) eigi að vera í auknum samskiptum við ríkið rétt eins og Þjóðkirkjan enda byggjum við landið á kristilegum gildum og siðferði.

„Ég tel afar brýnt að íslenska þjóðin höggvi ekki á rætur menningar og siðar í landinu með því að afmá öll merki um kristna trú úr stjórnarskrá sinni. Slíkum gjörningi hefur verið líkt við einkavæðingu bankanna og við vitum öll hvert það leiddi okkur. Hitt er annað að hollt getur verið að ræða hvernig við orðum hlutina og á hvaða hátt önnur kristin trúfélög geta verið samstíga evangelísk-lútherskri þjóðkirkju þegar kemur að samskiptum kristinnar kirkju á Íslandi við ríkisvaldið. Hvernig sem við leysum það ítreka ég mikilvægi þess að treysta hinn siðræna grunn þjóðfélagsins sem við hér á Íslandi byggjum á kristilegum gildum og siðferði.“

Tryggvi Helgason álítur að lögin frá árinu 1000 sem kveða á um að kristni sé eina löglega trúin í landinu séu enn í fullu gildi, enda koma þau lög í veg fyrir borgarastyrjöld í landinu.

„Árið 1000 var kristni lögtekin á Íslandi sem hin einu löglegu trúarbrögð. Þar með var Ásatrúnni, sem og öllum öðrum trúarbrögðum, útrýmt á Íslandi. Með þessum lögum var jafnframt komið í veg fyrir að út brytist borgarastyrjöld í landinu. Ég álít að þessi lög séu enn í fullu gildi. Allar tilraunir til þess að breyta þessu eru ólög og markleysa, að mínu mati.“

Viðar Helgi Guðjohnsen telur ráðamenn brjóta reglulega gegn stjórnarskránni með því að vernda ekki Þjóðkirkjuna nægjanlega vel.

„Núverandi samband ríkis og kirkju er ágætt þótt einstaka ráðamenn séu augljóslega að brjóta gegn 62. grein stjórnarskrárinnar ítrekað með forskastanlegum hætti. Kirkjan er hluti af þjóðarmenningunni og það er leitt að fylgjast með sumum stjórnmálamönnum fara í atkvæðaleit á kostnað kirkjunnar.“

Örn Bárður Jónsson – prestur telur Þjóðkirkjuna gegna mikilvægu hlutverki og telur hana hlunnfarna af ríkinu. Telur hann að ef ríkið hækkar ekki framlög til kirkjunnar þá eigi kirkjan að fá eignir sínar til baka bókstaflega eða í formi fjármuna.

„Minna þarf ríkisvaldið á eðli samningsins frá 1997 sem var gerður milli tveggja lögaðila. Ég vil knýja á um efndir ríkisins og ef ekki verður hlustað á það þá tel ég réttast að segja samningnum upp og ganga eftir því að kirkjan fái eignir sínar til baka, bókstaflega eða í formi fjármuna og sjái síðan um sig sjálf að öllu leyti sem myndug og öflug kirkja.“

Örn Reykdal Ingólfsson telur að það þurfi að tryggja í stjórnarskrá að kristinfræði sé kennd í skólum og að ekki megi afnema vernd Þjóðkirkjunnar nema 75% atkvæðisbærra manna kjósi um það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Legg til að bætt verði, aftan við fyrri málsgrein laganna „Kenna ber kristinfræði í skólum“ . Í stað seinni málsgreinar eins og hún er nú, komi „skipta má um sið ef 75% atkvæðisbærra manna kýs svo í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Deildu