Kristnir kúka frítt

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

28/04/2000

28. 4. 2000

Ríkisrekna kristnihátíðin sem haldin verður á Þingvöllum í sumar er dæmi um alvarlega misnotkun á almannafé og mismunun ríkisvaldsins á fólki vegna lífsskoðana þess. Nú hefur komið í ljós að ásatrúarmenn, sem halda sína árlegu hátíð á Þingvöllum átta dögum áður en að kristnihátíðin hefst, þurfa að borga um það bil eina og hálfa milljón […]

Ríkisrekna kristnihátíðin sem haldin verður á Þingvöllum í sumar er dæmi um alvarlega misnotkun á almannafé og mismunun ríkisvaldsins á fólki vegna lífsskoðana þess. Nú hefur komið í ljós að ásatrúarmenn, sem halda sína árlegu hátíð á Þingvöllum átta dögum áður en að kristnihátíðin hefst, þurfa að borga um það bil eina og hálfa milljón fyrir afnot af salernis- og gistiaðstöðu sem búið er að koma upp á svæðinu á meðan kristnir fá að kúka frítt í boði skattgreiðenda.

Ásatrúarmenn sem eru eðlilega bálreiðir yfir þessari hlægilegu mismunun hafa réttilega bent á að enginn myndi sætta sig við það ef kjósendur R-listans fengju einir að nýta sér hin fjölbreyttu almenningssalerni í menningarborginni Reykjavík frítt á meðan kjósendur D-lista þyrftu að borga.

Ásatrúarmenn geta þó huggað sig við það að þrátt fyrir skertan aðgang að salernum geta þeir keypt hið merka 60.000.000 króna rit um sögu kristni á Íslandi á sama ríkisniðurgreidda spottprís og kristnir félagar þeirra.

Ríki og trú eiga ekki saman

Mergur málsins er auðvitað sá að ríki og trú eiga ekki saman. Trú er í eðli sínu afar persónuleg og einstaklingsbundin og er það því afar óeðlilegt að ríkið skuli skipta sér af trúarlífi manna með því að hyggla einum trúarbrögðum umfram önnur.

Frjálsir söfnuðir hafa enda fyrir löngu sýnt það og sannað að hægt er að reka kirkjur og trúboð án aðstoðar frá ríkisvaldinu. Kristilega sjónvarpsstöðin Omega er til að mynda einkarekin og fjármögnuð með áskriftargjöldum, auglýsingum og frjálsum fjárframlögum frá einstaklingum sem hefur ekki verið lofað neinu nema stúkusætum í Himnaríki að launum. Í Jesú nafni að sjálfsögðu.

Almennum skattgreiðendum hefur hins vegar ekki verið lofað neinu nema hærri sköttum og fjársveltri félagsþjónustu að launum fyrir skyldufjárframlag sitt til kristilegu hátíðarhaldanna á Þingvöllum. Í ofanálag virðast skattgreiðendur svo þurfa að hafa samviskubit yfir því að framlag þeirra nægir víst ekki til að vernda gróðurinn í einum merkasta þjóðgarði landsins fyrir líkamsstarfsemi Ásatrúamanna.

Nú þori ég ekki að fullyrða hvað kristilegt siðgæði segir um þetta gráthlægilega klósettmál en almennt siðgæði segir mér að fólk eigi sama rétt til afnota á ríkisrekinni salernisaðstöðu óháð trúarskoðunum. Almennt siðgæði segir mér einnig að það sé fyrir löngu orðið tímabært að afnema öll afskipti ríkisins af trúar- og lífsskoðunum fólks.

Deildu