Öreigar allra landa eflist

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

01/05/2000

1. 5. 2000

Svo lengi sem ég man eftir mér hefur 1. maí alltaf verið sérstakur dagur. Ekki það að ég hafi verið duglegur við að fara í kröfugöngur en það vaknar alltaf smá von í brjósti mér þegar ég sé fólk ganga fylktu liði og krefjast bættra kjara, aukins réttlætis og félagslegrar velferðar. Þá sé ég að […]

Svo lengi sem ég man eftir mér hefur 1. maí alltaf verið sérstakur dagur. Ekki það að ég hafi verið duglegur við að fara í kröfugöngur en það vaknar alltaf smá von í brjósti mér þegar ég sé fólk ganga fylktu liði og krefjast bættra kjara, aukins réttlætis og félagslegrar velferðar. Þá sé ég að enn er til fólk sem er reiðubúið að berjast fyrir sínum málum.


Samtakamáttur
Án þess samtakamátts sem verkafólk hefur löngum búið yfir er næsta víst að þjóðfélagið sem við byggjum í dag væri talsvert öðruvísi. Ýmis þau réttindamál og kjarabætur sem hafa náðst fram í krafti samstöðu hefðu vart náðst fram öðru vísi eða í það minnsta dregist verulega að næðust fram.

Þess vegna er sorglegt að oft virðist sem samstaðan sé að minnka og krafturinn að fjara út í verkalýðshreyfingunni. Fólk eins og ég sem hefur vanist því að fá hlutina upp í hendurnar, án þess að þurfa að berjast fyrir þeim eins og kynslóðirnar sem á undan koma, virðist ekki reiðubúið að leggja sig fram í baráttunni fyrir réttindum og kjarabótum fyrir sig og félaga sína. Við stöndum í þakkarskuld við það fólk sem á undan okkur kemur og hefur byggt upp íslenskt þjóðfélag. Við berum þá skyldu gagnvart þeim sem á eftir koma að sjá til þess að það sem áunnist hefur glatist ekki.

Ég óska verkafólki og launþegum öllum til hamingju með daginn.

Deildu