Hugtök og heiti

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

02/05/2000

2. 5. 2000

Eftir ábendingu góðra manna vil ég koma því á framfæri að í grein minni um Elían Gonzales, sem birt var fyrir viku hér á Skoðun, var hugtakið róttæklingur ekki notað sem vísun í Múrinn, það ágæta málfundarfélag og vefútgáfu. Með þessu hugtaki átti ég einungis við heildarmengi þeirra íbúa jarðarinnar sem telja sig, eða teljast […]


Eftir ábendingu góðra manna vil ég koma því á framfæri að í grein minni um Elían Gonzales, sem birt var fyrir viku hér á Skoðun, var hugtakið róttæklingur ekki notað sem vísun í Múrinn, það ágæta málfundarfélag og vefútgáfu.


Með þessu hugtaki átti ég einungis við heildarmengi þeirra íbúa jarðarinnar sem telja sig, eða teljast af öðrum, hafa róttækar skoðanir. Hvort slíkt heildarmengi einstaklinga er í rauninni til, eða hvort það er bara óhlutstæð ímyndun undirritaðs læt ég öðrum eftir að dæma.

Til að fyrirbyggja misskilning í framtíðinni vil ég hins vegar benda lesendum Skoðunar á að ég mun ætíð nota eins afmörkuð hugtök og efnið gefur tilefni til og vil í því tilefni telja upp nokkur dæmi um hvernig ég hef gert það í mínum fyrri skrifum.

Nokkur dæmi
Þegar ég er að ræða einstaka fulltrúa ákveðinna skoðana nota ég ekki óljósar vísanir eins og „ungur maður sem hefur vakið athygli á ágöllum skattakerfisins“. Þvert á móti nota ég einfaldlega „Björgvin Guðmundsson“, eins og ég hef líka notað „Lúðvík Bergvinsson“, „Ármann Jakobsson“, „Steinþór Heiðarsson“ eða „Hannes Hólmsteinn Gissurarson“.

Þegar ég er að ræða um félagasamtök nota ég ekki óljósar vísanir eins og „samtök samruna ungs fólks úr þremur stjórnmálaflokkum“, heldur nota ég bara „Ungir jafnaðarmenn“, líkt og ég hef notað „Sjálfstæðisflokkurinn“.

Þegar ég ræði hugmyndafræði nota ég ekki skilgreiningar eins og „hugmyndir sem telja hungurdauða framfarahvetjandi“, ég nota einfaldlega „frálshyggja“, eins og ég nota líka „róttækni“ eða „jafnaðarstefna“.

Margræðni og flækjur
Stundum lendir maður í því í umfjöllun sína um skoðanir að misræmi er á milli heildar þeirra sem hafa skoðunina og þeirra sem eru fulltrúar hennar á hinum pólitíska vetvangi. Til dæmis get ég mér til um að allir félagar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs séu róttækir. Hinsvegar eru ekki allir sem eru róttækir í VG. Því nota ég hugtakið „róttæklingar“ þegar ég vísa í hina óskilgreindu heild sem fólk með róttækar skoðanir hlýtur að mynda, en einfaldlega „Vinstrihreyfingin – Grænt framboð“ þegar ég fjalla um þann flokk.

Stundum getur það komið upp að ég nota orðalag eins og: „róttæklingarnir í VG“ eða „framsóknarmennirnir í Sjálfstæðisflokknum. Það er þá gert til að annað hvort undirstrika málefnastöðu þeirra sem um er rætt, eða draga fram ákveðinn hóp úr þeirri heild sem stjórnmálaflokkur er, og gefa þannig í skyn að e.t.v. séu ekki allir innan þess flokks með sömu afstöðu.

Auðmýkt og reisn
Ef hugtakanotkun mín hefur valdið lesendum Skoðunar óþægindum vil ég biðja þá afsökunar. Ég treysti hins vegar lesendum okkar til að lesa það úr samhengi orðanna hver merking þeirra er. Í þau skipti sem samhengið er misvísandi, eins og það var í áður nefndri grein um Elían, þá eru ábendingar um það vel þegnar. Eins og þið sjáið af þessu bréfi tek ég gagnrýni ævinlega af auðmýkt og lítillæti.

Deildu