Paradísarheimt

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

03/05/2000

3. 5. 2000

Noregur er, ef ekki áhugavert land, að minnsta kosti athyglisvert land og það fyrir margar sakir. Við fyrstu kynni virðist Noregur vera alveg eins og Ísland, nema bara með fleiri hólum og trjám. Meðalhitinn yfir árið er t.d. nokkurn veginn sá sami og heima á skeri. Það er ekki fyrr en eftir lengri dvöl að […]

Noregur er, ef ekki áhugavert land, að minnsta kosti athyglisvert land og það fyrir margar sakir. Við fyrstu kynni virðist Noregur vera alveg eins og Ísland, nema bara með fleiri hólum og trjám. Meðalhitinn yfir árið er t.d. nokkurn veginn sá sami og heima á skeri. Það er ekki fyrr en eftir lengri dvöl að það rennur upp fyrir manni að maður er í útlöndum.


Undir yfirborðið
Tökum meðalhitann sem dæmi. Þó meðalhitinn sé nokkurn veginn sá sami þá eru sumur mun heitari, a.m.k. hér í Oslóborg, og vetur að sama skapi kaldari. Sú tilfinning að eitthvað sé líkt með Íslandi og Noregi er þannig bara eitthvað sem fyrirfinnst á tölfræðilega planinu, en ef maður skyggnist undir yfirborðið sér maður fljótt að samanburðurinn endar þar.

Þetta á líka við um norsku þjóðina. Eftir mín fyrstu samskipti við innbyggjana, sem fóru varfærnislega fram eins og rétt er þegar maður á við frumbyggja ókunnra landa, dró ég þá ályktun að Norðmenn væru bara málfatlaðir Íslendingar. Þessi samskipti áttu sér stað á hverfisbensínstöðinni sem, eins og bensínstöðvar á Íslandi, selur allt nema bílavörur. En Norðmenn eru annað og meira en málfatlaðir Íslendingar. Þeir eru verkalýðsþjóð, með verkalýðshefð og ógurlega og allsráðandi verkalýðshreyfingu.

Í landi verkalýðsins
Á báðum vefmiðlum framsækinna hægrimanna á Íslandi hefur því verið haldið fram að verkalýðshreyfingar hafi aldrei getað tryggt verkalýðnum mannsæmandi kjör, því hefur jafnvel verið fleygt að þær beri beinlínis ábyrgð á því að alþýða manna lepur dauðann úr skel. Þegar ég horfi yfir norskt samfélag þá sé ég að framsæknu hægrimennirnir hafa rangt fyrir sér.

Í Noregi hafa verkamenn um 180.000 króna mánaðarlaun, og meira ef þeir búa á landsbyggðinni. Þetta er um það bil 100-110.000 krónum meira en grunnlaun íslensks verkamanns á Dagsóknar/Iðju taxta. Af hverju skyldi þetta vera?

Noregur hefur lengi verið verkalýðs- og jafnaðarland. Lengi fram eftir 20. öldinni bjuggu þeir við mikla örbyrgð og fátækt og tildæmis var inniklósettið stórt hitt á sama tíma og Íslendingar voru að kaupa sér fótanuddtæki. Þannig getum við ályktað að langvarandi velmegun og ævaforn hagvöxtur séu ekki undirstaða hárra launa verkalýðsins. Það er heldur ekki olían, því sótsvartur almúginn fær aldrei að sjá hana eða arðinn af henni. Honum er öllum skóflað inn í erlenda banka í djarfri tilraun norsku verkalýðsstjórnarinnar til að knésetja hið jarðneska bankakerfi með vaxtabyrði.

Ef við berum hinsvegar aftur saman Ísland og Noregur sjáum við eftirfarandi:
Ísland: 70.000/Veik verkalýðshreyfing
Noregur: 180.000/Sterk verkalýðshreyfing

Aldingarðurinn Eden?
Getur hugsast að Noregur sé aldingarður verkalýðsins, hið réttláta samfélag mannlegrar visku og jöfnuðar? Ef svo er sýnist mér syndafallið hafa verið mannkynsins mesta lán. Það er nefnilega þannig að velmegun verkalýðsins er fengin með töluverðum tilkostnaði.

Ef við förum út í frekari samanburð á Íslendingum og Norðmönnum kemur í ljós að Íslendingar eru vinnuglöð þjóð. Íslendingurinn er það sem hann gerir. Jafnvel menn sem moka skurði geta uppskorið æru og aðdáun í eigin augum fyrir vel grafinn skurð. Norðmenn vinna hins vegar af nauðsyn því einhvern veginn verða þeir að borga fyrir skíðaferðirnar og fjallaklifrið sem þeir hafa svo gaman af, og er hver manna mestur ef hann kemst lemstraður en lífs frá helgi af útivist.

Annar mikilvægur þáttur er eitt sem báðar þjóðirnar eiga sameiginlegt. Báðum þykir ljótt að græða. En ólíkt vorum kristnu frændum finnst okkur Íslendingum gaman að gera ljótt.

Hugarfar velferðarinnar
Í Noregi er ljótt að græða. Í dag brast á verkfall sem mun að öllum líkindum lama norskt samfélag næsta mánuðinn. Af því tilefni ruddist ég út í búð og birgði mig upp af dósamat og hveiti sem ég mun japla á eins og nágrannar mínir á meðan verkfallið gengur yfir. Þetta er ekki svo slæmt, því ef manni leiðist getur maður alltaf ímyndað sér að maður sé að bíða af sér kjarnorkustríð.

Þið sem enn munið hver laun verkamanna eru í Noregi eruð vafalítið að velta fyrir ykkur hversvegna norskur verkalýður leggur niður vinnu. Jú, vissulega vill verkalýðurinn fá hærri laun, eins og verkalýðsins er von og venja. En það sem þó virðist skipta mestu máli er ekki lág laun verkalýðsins, heldur há laun einhverra annarra. Já, í Noregi finnst nefnilega hópur fólks með mikla menntun og töluverða ábyrgð sem getur náð launum allt að 550.000 krónum íslenskum yfir mánuðinn. Ef við berum þetta saman við launabilið á Íslandi (70.000 – 1.500 000) þá hljótum við að skilja hvernig launabil norskra launþega getur farið fyrir brjóstið á Verkó.

Er verkalýðurinn farin að hafa það of gott þegar hann berst frekar fyrir lækkun kjara annarra en hækkun sinna eigin? Ég vil taka það fram að ég er mikill stuðningsmaður og aðdáandi íslensku verkalýðshreyfingarinnar og hef jafnvel tekið þátt í misheppnari tilraun til að velta stjórn Dagsbrúnar, sem þá hét. Ég held að vandamálið felist öllu heldur í þeirri gamaldags jafnaðarstefnu sem hefur því miður einkennt málfutning oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík og gegnsýrir norskt samfélag.

Í Noregi eru há laun merki um mannvonsku. Í Noregi er bannað að reka vanhæft starfsfólk. Afleiðingin er sú að allan vinnuhvata vantar og vinnumenningin einkennist öllu heldur af kvöð en frumkvæði og framfaravilja.

Og hvað með Ísland?
Ég dáist mjög að því hvernig verkalýðshreyfingin í Noregi hefur tekist að tryggja umbjóðendum sínum mannsæmandi laun, og ég vona að í næstu kjarasamningum muni íslenska verkalýðshreyfingin geta kreist út úr atvinnuveitendum laun sem nægja til lágmarksframfærslu. Ég vona hinsvegar líka að hún falli ekki í þá venjulegu gryfju öfundar og afbrýðisemi sem hún gerir svo oft, bæði hér í Noregi og heima.

Ég trúi því að rétt sé að tryggja öllum mannsæmandi tekjur, hvort heldur sem það er gert með samningum eða lagasetningu. En ég trúi því líka að það sé rangt að setja launaþak á fólk, sérstaklega í einkageiranum. Séu atvinnuveitendur tilbúnir til að borga svimandi upphæðir fyrir hæft fólk finnst mér það frábært. Ég held að það sé vinnuhvetjandi og skapi hugarfar sem felur í sér bæði metnað og framfarahvata. Ég er meira að segja svo kaldlyndur að ég vil veita atvinnuveitendum skilyrðislausan rétt til að reka fólk sem ekki stendur sig í starfi.

Ef samfélagið er einn stór verndaður vinnustaður mun allt frumkvæði lognast útaf og eftir stendur konungsríki meðalmennskunar. Konungsríki þar sem verkalýðshreyfingin hefur ekkert betra fyrir stafni en að berja á þeim fáu sem vilja gera betur og ná lengra.

Deildu