Reglulega brýst fram hálfgerð dómsdagsumræða um að allt sé að fara til fjandans. Algengt er að slík umræða fjalli um það hvað tækniframfarir og vísindauppgötvanir geta reynst hættulegar og geti jafnvel tortímt mannkyninu. Dæmi um slíka dómsdagsumræðu er ágætis grein Egils Helgasonar á strik.is sem ber heitið Siðlausir vísindamenn.
Þekking er hvorki góð né slæm
Menn eiga það til að halda því fram að þekking geti beinlínis verið slæm og því þurfi að takmarka þekkingarleit manna. Klassísk rök fyrir tilvist slæmrar þekkingar er til dæmis tilvist og gjöreyðingarmáttur kjarnorkusprengjunnar. Vandinn er hins vegar sá að ekki er með góðu móti hægt að segja að þekking hafi eiginleika og því er ekki hægt að færa sannfærandi rök fyrir því að þekking geti verið góð eða slæm. Í besta falli er hægt að segja að þekking sé hlutlaus þó það sé reyndar einnig vafasamt þar sem hlutleysi er afstaða og þekking hefur enga afstöðu.
Þekking er tvíeggja sverð
Það fer reyndar ekki á milli mála að þekking er afar öflugt tæki sem hægt er að nota bæði til góðs og ills. Þess vegna kann að vera nauðsynlegt að samfélög setji sér skýrar og skynsamlegar reglur um hvernig má nota þekkingu og í hvaða tilgangi má leita þekkingar.
Ýmsir hafa reyndar lagt það til að banna eigi rannsóknir eða leit af þekkingu sem mögulega væri hægt að nýta í skaðvænlegum tilgangi. Það eru að minnsta kosti tvær ástæður fyrir því að undirritaður telur óskynsamlegt og í raun óframkvæmanlegt að setja slíkar reglur um hvað má rannsaka og hvað ekki.
Í fyrsta lagi ber að nefna þá ástæðu að sama þekking getur í flestum tilvikum verið notuð í bæði góðum og slæmum tilgangi. Flugvélar eru til dæmis frábært tæki til að auðvelda okkur ferðalög en um leið hafa þær verið skammlaust notaðar til að varpa sprengjum á saklausa borgara, menn, konur og börn. Fáum dettur í hug að skynsamlegt hefði verið að banna rannsóknir og framleiðslu flugvéla vegna þess hvaða hræðilega tilgangi þær geta þjónað.
Í öðru lagi er það nokkuð ljóst að ómögulegt getur reynst að hemja forvitni og sköpunargleði manna.
Siðferði í vísindum
Um leið og ég segi að þekking sé hlutlaus þá verður að taka það skýrt fram að vísindamenn eru það svo sannarlega ekki. Vísindamenn geta augljóslega haft margar og mis heppilegar ástæður fyrir rannsóknum sínum.
Ég legg því til að öllum vísindamönnum verði gert að samþykkja og framfylgja vísindaeið, einhverskonar læknaeið vísindamanna, þar sem þeir lofa að starfa ekki við rannsóknir þar sem markmiðið er að útbúa eða uppgötva eitthvað í þeim tilgangi að skaða fólk. Einnig þyrfti að setja skýrari reglur sem banna vísindamönnum að starfa við rannsóknir þar sem almennum siðferðisreglum á borð við upplýst samþykki manna til þátttöku er ekki hlýtt.