Sama er mér

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

26/04/2000

26. 4. 2000

Þessa dagana hafa allir skoðun á kúbanska pottorminum Elían Gonzales. Fyrir þó nokkru fór Elían litli um borð í fleka með móður sinni og rak á honum til Bandaríkjanna eins og góðra Kúbana er siður. Eitthvað fór þó úrskeiðis og aumingja Elian litli var sá eini flekafaranna sem komst lifandi til fyrirheitna landsins. Svo upphófst […]

Þessa dagana hafa allir skoðun á kúbanska pottorminum Elían Gonzales. Fyrir þó nokkru fór Elían litli um borð í fleka með móður sinni og rak á honum til Bandaríkjanna eins og góðra Kúbana er siður. Eitthvað fór þó úrskeiðis og aumingja Elian litli var sá eini flekafaranna sem komst lifandi til fyrirheitna landsins. Svo upphófst mikil forræðisdeila sem fjölmiðlar reyndu að breyta í milliríkjadeilu og nú virðast allir hafa einhverja afstöðu í þessu máli.


Ég ætla ekki að reyna að færa rök fyrir því að ein hlið þessa máls sé hin rétta eins og svo margir hafa viljað gera. Þvert á móti vil ég blása á þessa umræðu. Hverjum er ekki sama hvað verður um Elian Gonsales? Vafalítið fæstum ykkar sem lesa þessa vefsíðu, en þegar þið svarið fréttagetraun Morgunblaðsins um næstu áramót og standið frammi fyrir spurningunni: „Hvað hét krakkinn sem flaut til Bandaríkjana frá Kúbu og var sendur aftur heim?”; þá er hætt við að ykkur verði svarafátt. Af hverju? Af því Elían Gonzales skiptir ykkur nákvæmlega engu máli og afstaða ykkar til afdrifa hans skiptir umheiminn heldur engu máli.

Málflutningur allra sem vilja tjá sig um þetta mál hefur einkennst af öfgum og blekkingum. Stjórnvöld á Kúbu hafa notað þetta mál í pólitískum tilgangi, bæði innanlands og utan og hafa jafnvel leitað hjálpar þungaviktarmanna úr knattspyrnuheiminum til að bæta gljáa á málstaðinn. Málflutningur ættmenna Elíans ber þess hinsvegar vott að þau bæði hlusti á og trúi málflutningi manna eins og Pat Buchanan og Rush Limbaugh. Þau veigra sér jafnvel ekki við að halda því fram í fjölmiðlum að Kastró muni prívat og persónulega gamna sér við að kvelja barnið til dauða.

Þeir einu sem hafa nálgast þetta mál af einhverri yfirvegun eru bandarísk stjórnvöld. Það þýðir þó ekki að þau hafi sloppið við gagnrýni fyrir sinn hluta af þessu máli. Onei. Þvert á móti hafa þau verið gagnrýnd úr öllum áttum. Af skrifum á Andriki.is mátti sjá að forsvarsmenn þess vefs líta á aðgerðir bandaríska ríkisins sem dæmi um kúgun yfirvalds. Róttæklingar virðast gera hið sama, ekki vegna þess að niðurstaðan sé þeim óásættanleg, heldur vegna þess að andstaðan við Bandaríkin hefur forgang umfram stuðninginn við Kúbu.

Hvaða framtíð bíður drengsins?
Á Kúbu hafa tugir þúsunda verið fangelsaðir fyrir pólitískar skoðanir. Í Bandaríkjunum hafa milljónir verið hneptir í örbyrgð vegna þess að foreldrar þeirra höfðu ekki efni á að senda þá í skóla. Málið snýst ekki um hvort betra sé fyrir barnið að vera í öðru hvoru þessara landa. Spurningin er hvort móðir Elíans hafi verið að flýja ríkisstjórn Kúbu eða hvort hún hafi átt von um betri meðferð frá ættingjum sínum í Bandaríkjunum en hún fékk frá eiginmanni sínum? Er pabbi stráksins almennt hæfur til að vera uppalandi? Eru ofstækisfullu ættmennin í Bandaríkjunum eitthvað betri? Er réttlætanlegt að svipta mann forræði barna sinna vegna þess að þau flutu á milli landa á pramma? Var móðir Elíans heil geðheilsu þegar hún ákvað að láta sig reka til annars þjóðríkis?

Þetta eru spurningarnar sem skipta máli í þessu samhengi. Aðstæður þeirra einstaklinga sem eiga hlut í málinu, ekki stjórnkerfi ríkjana sem þetta fólk býr í. Þetta eru hinsvegar spurningarnar sem engum langar að spyrja og ég ætla ekki að svara. Af hverju? Vegna þess að Elían skiptir mig ekki máli og afstaða mín skiptir engu máli fyrir hann.

Deildu