Villandi umfjöllun um vitundarvíkkandi efni

Vitundarvíkkandi efni
Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

27/08/2020

27. 8. 2020

Ofstækið gegn vímuefnun (eða vitundarvíkkandi efnum) má ekki verða til þess að koma í veg fyrir að nýjar og gagnlegar aðferðir verði rannsakaðar og síðan notaðar til að hjálpa öllum þeim sem hafa þurft að eiga við þunglyndi, kvíða, áfallastreitu og óhóflega áfengisneyslu. Ég geri því þá lágmarkskröfu að fjölmiðlamenn fjalli um mál sem þessi af þekkingu og yfirvegun en ekki bara út frá hræðsluáróðri og þörf til að stimpla þá sem vilja fara aðrar leiðir í leit að betra lífi.

Í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun (27. ágúst 2020) var stórundarlegt og villandi viðtal við Hugrúnu Kristjánsdóttur, „áfengisráðgjafa og nema í fíknifræðum“ um Ayahuasca og önnur vitundarvíkkandi efni. Tilefnið var grein sem Hugrún ritaði á vefsíðuna Skaðaminnkun um efnin þar sem ein fyrirsögnin er „dóp er dóp er dóp“ og áhersla lögð á að fólk sem notar þessi efni sé bara í „vímu“. Nánast engin umfjöllun var um um eldri og nýlegar rannsóknir á ayahuasca, LSD, „ofskynjunarsveppum“ og jafnvel MDMA.

Eftir að hafa lesið fjölmargar fræðigreinar um rannsóknir á þessum efnum er ljóst að þær benda til þess að séu þessi efni notuð í öruggu umhverfi, með aðstoð meðferðaraðila, geti þau haft verulega mikil áhrif á að draga úr alvarlegu þunglyndi, kvíða, hræðslu við dauðann (t.d. hjá þeim sem hafa greinst með lífshættulega sjúkdóma svo sem krabbamein). Þar sem ég hef þjáðst á tímabilum af flestum þessum sjúkdómum hef ég haft mikinn áhuga á að kynna mér þessi efni og varið ótal klukkustundum í að lesa fræðigreinar og bækur um gagnsemi þeirra og áhættu.

Umræðan á Rás 2 var gagnslaus. Viðmælandinn hafði lítið að segja nema að hann hafði áhyggjur af „upphafningu“ þessara efna sem væru í raun bara fíkniefni og þáttastjórnendur vissu annað hvort ekkert eða höfðu ekki áhuga á að spyrja gagnrýnið um málið.

Nú er ég ekki að mæla með því að fólk sé að taka nein efni í óöruggu umhverfi, án aðstoðar og undirbúnings og auðvitað eiga börn ekki að snerta þessi efni frekar önnur sem geta haft áhrif á skynjun.

Staðreyndir um vitundarvíkkandi efni:

  • Vitundarvíkkandi efni eru ekki fíkniefni því ekkert bendir til þess að þau séu ávanabindandi. Allar þær rannsóknir sem ég hef lesið benda til þess að fólk er að taka þessi efni allt frá einu sinni á ævinni upp í einu sinni til fjórum sinnum á ári og margir virðast hafa náð töluverðum árangri (sé undirbúningur góður og öryggi tryggt). Það eru varla þekkt dæmi um að fólk sé að taka þessi efni daglega eða vikulega. Það er engin löngun til þess.
  • Fyrir utan MDMA eru eitrunaráhrif þessara efna svo gott sem engin og ólíklegt að fólk geti tekið ofskammta. Ég segi fyrir utan MDMA vegna þess að það er hægt að taka of mikið af því efni og valda skaða. Ekki má svo rugla saman MDMA sem notað er í klínískum tilgangi og ólöglegu og oft blönduðu og eitruðu efni sem selt er á götum í skjóli bannstefnunnar.
  • Rannsóknir á sjöunda áratugnum og svo núna síðustu 10 ár ca. sýna ótrúlegan árangur í að meðhöndla þunglyndi, kvíða, áfallastreituröskun, ótta við dauðann og reyndar einnig góðan árangur við að vinna gegn áfengissýki! Yfirlit yfir rannsóknir má m.a. finna hér: https://maps.org/research/other-research. Ef frekari rannsóknir staðfesta árangurinn gæti verið um byltingu að ræða þegar kemur að geðrænum/andlegum kvillum.
  • Ég hef rætt við fjölmarga lækna um þessar rannsóknir. Sumir hafa ekki kynnt sér þær en aðrir hafa fylgst vel með og eru á því að rannsóknarniðurstöður séu mjög áhugaverðar og telja mikilvægt að fylgjast með þróuninni enda sýna flestar þeirra árangur sem ekki hefur fengist með hefðbundnum lyfjum.

Yfirveguð umræða en ekki ofstæki

Ég skrifa þetta af því að ég tel ofstækið í „stríðinu gegn vímuefnum“ skaðlegt á svo margan hátt. Það er skaðlegt þegar kemur að hættulegum ávanabindandi efnum sem geta dregið fólk til dauða eða komið því á örorku. Það er skaðlegt vegna þess að það jaðarsetur (oft fátækt og/eða félagslega einangrað) fólk í neyslu og glæpavæðir sjúkdóm þess. Og það er skaðlegt vegna þess að öll efni sem eru bönnuð eru oftar en ekki flokkuð saman og engin greinarmunur gerður á þeim. Allir sem skoða og taka inn ólögleg efni eru stimplaðir dópistar. Ekkert af þessu er gagnlegt.

Það þarf fyrst og fremst að hjálpa fólki sem glímir við vímuefnavanda og þar er áfengið með hættulegri efnum sem hefur eyðilagt ótal fjölskyldur og dregið marga til dauða.

Ofstækið gegn vímuefnun (eða vitundarvíkkandi efnum) má ekki verða til þess að koma í veg fyrir að nýjar og gagnlegar aðferðir verði rannsakaðar og síðan notaðar til að hjálpa öllum þeim sem hafa þurft að eiga við þunglyndi, kvíða, áfallastreitu og óhóflega áfengisneyslu.

Ég geri því þá lágmarkskröfu að fjölmiðlamenn fjalli um mál sem þessi af þekkingu og yfirvegun en ekki bara út frá hræðsluáróðri og þörf til að stimpla þá sem vilja fara aðrar leiðir í leit að betra lífi.

Að lokum vil ég benda á að Landsamtökin Geðhjálp hafa tekið þá góðu ákvörðun að fjalla um mögulega kosti hugbreytandi efna. Sjá meðal annars færslu á Facebook síðu samtakanna en þar kemur fram að félagið mun standa fyrir ráðstefnu þann „22. október nk. um vitundarvíkkandi efni í tengslum við meðferð geðrænna áskorana.“

Ég hvet sem flesta til að mæta á þá áhugaverðu ráðstefnu.

Sjá einnig:

Lögleiðing vímuefna er mannúðarmál

Deildu