Ekki í mínu hverfi!

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

07/12/2018

7. 12. 2018

— Auðvitað viljum við að börn með fíknivanda fái aðstoð. Bara ekki í mínu hverfi! — Að sjálfsögðu á fólk að fá örugga og gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu. En ég vil borga lægri skatta! — Það verður að tryggja að geðfatlaðir hafi öruggt húsaskjól. En ekki í mínu nágrenni! — Allir eiga að hafa jafnan aðgang að […]

— Auðvitað viljum við að börn með fíknivanda fái aðstoð. Bara ekki í mínu hverfi!

— Að sjálfsögðu á fólk að fá örugga og gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu. En ég vil borga lægri skatta!

— Það verður að tryggja að geðfatlaðir hafi öruggt húsaskjól. En ekki í mínu nágrenni!

— Allir eiga að hafa jafnan aðgang að góðri menntun. Það verður að lækka skatta!

Svona er þjóðfélagsumræðan oft þversagnarkennd. Aðspurðir segjast flestir vilja mannúðlegt samfélag fyrir alla en þegar í ljós kemur að við þurfum öll að taka þátt og „fórna“ einhverju til búa til slíkt samfélag breytist tónninn.

Nýlega fengu íbúasamtök í Norðlingaholts samþykkt lögbann við því að vistheimili fyrir börn, sem kljást við fíknivanda og áhættuhegðun, yrði opnað í hverfinu. Í einni frétt um málið segist formaður Íbúasamtaka Norðlingaholts „hafa samúð með börnunum en að fólk vildi ekki börn með alvarlegan fíkniefnavanda í hverfið“.

Hvar eiga þessi börn þá að fá aðstoð ef það má ekki vera í nágrenni við „venjulegt fólk“? Eigum við að geyma alla sem eiga við vanda að stríða í iðnaðarhverfum eða jafnvel á einhverri eyðieyju við strendur landsins? Hér er í senn um að ræða fordóma og misskilda eiginhagsmunastefnu.

Reynslan sýnir að það er lítið sem ekkert ónæði af starfsemi sem þessari. Ég hef verið forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga (sem oft eiga við fíknivanda og stunda aðra áhættuhegðun) í átta ár og þar áður stýrði ég áfangaheimili fyrir geðfatlaða og í gegnum tíðina unnið á fjölda annarra sambærilegra heimila. Öll eru þessi heimili inn í „venjulegum“ hverfum víðs vegar um landið. Ég man satt að segja ekki eftir því að hafa fengið sérstaka kvörtun eða athugasemd vegna háttsemi íbúa. Einu skiptin sem ég heyri fólk kvarta er þegar opna á ný heimili. Þá eru margir hræddir. Þessi hræðsla er byggð á misskilningi því það er lítið að óttast. Margir vita ekki einu sinni að slík heimili séu í sínu hverfi. Svo lítið er ónæðið.

Í staðinn fyrir að óttast að heimili fyrir fólk í vanda séu opnuð ættu nágrannar að fagna þeim. Við eigum að vera stolt af því að í okkar hverfi sé tekið vel á móti jaðarsettum hópum. Rétt eins og við fögnum flest því að góðir skólar og leikskólar séu í hverfunum okkar.

Saman byggjum við mannúðlegt samfélag fyrir alla. Það gerist ekki öðruvísi.

Höfundur er forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga hjá Barnavernd Reykjavíkur

Deildu