Af hverju er ég siðrænn húmanisti?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/10/2018

23. 10. 2018

Hvað þýðir það eiginlega að vera „siðrænn húmanisti“? Þetta er spurning sem ég fæ reglulega, enda hef ég verið í stjórn Siðmenntar – Félagi siðrænna húmanista á Íslandi lengi og nú formaður. Svarið er ekki endilega einfalt enda skilgreina húmanistar sig svolítið á eigin forsendum. Fyrir mér er þetta þó frekar skýrt: Siðrænn húmanisti er […]

Hvað þýðir það eiginlega að vera „siðrænn húmanisti“? Þetta er spurning sem ég fæ reglulega, enda hef ég verið í stjórn Siðmenntar – Félagi siðrænna húmanista á Íslandi lengi og nú formaður.

Svarið er ekki endilega einfalt enda skilgreina húmanistar sig svolítið á eigin forsendum.

Fyrir mér er þetta þó frekar skýrt:

Siðrænn húmanisti er sá sem viðurkennir að hann veit afskaplega lítið um lífið og tilveruna en er einlæglega forvitinn og hefur áhuga á að hugsa gagnrýnið um tilvistarspurningar og siðræn málefni án þess að vísa í Guð, guði eða í kreddur trúarbragða.

Siðrænn húmanisti leitast við að skilja heiminn og siðferðileg málefni með gagnrýnni hugsun og með vísindalegum aðferðum enda er vísindaleg nálgun skásta aðferðin sem mannfólkið hefur fundið upp til að skilja heiminn.

Siðrænir húmanistar leggja áherslu á umburðarlyndi og vilja meta siðferðileg álitamál út frá því hvaða áhrif gjörðir hafa á hamingju og velferð einstaklinga, samfélaga og umhverfisins. Siðrænir húmanistar hata enga og eru ekki á móti því að aðrir iðki trú, svo fremur sem þeir skaða ekki aðra beint.

Við virðum rétt allra til að hafa skoðanir og tjá þær en við teljum enga ástæðu til að virða allar skoðanir eða hugmyndir. Það má og á að gagnrýna skoðanir. Það ber engum skylda til að bera virðingu fyrir illa grunduðum skoðunum eða hugmyndakerfum. Sérstaklega þegar skoðanir og aðgerðir byggðar á þeim geta valdið fólki og samfélaginu skaða.  

Ég er siðrænn húmanisti af því ég hef einlægan áhuga á að kynnast sem flestum lífsskoðunum og tala við fólk með ólíka lífssýn en af virðingu og ég styð eins og húmanistar allir fullt trúfrelsi og almenn mannréttindi.

Algengasta svar mitt, sem siðrænn húmanisti, við stórum tilvistarspurningum er einfaldlega „ég veit ekki, en mig langar til að vita.“

Siðrænn húmanismi gengur nefnilega, fyrir mér, svolítið út á að viðurkenna fávisku sína í flóknum heimi og vera tilbúinn að læra af öðrum með auðmýkt, virðingu en um leið gagnrýnni hugsun að leiðarljósi. Þannig getum við best skilið hvort annað og tekiði þátt í að gera veröldina að enn betri stað.

Sigurður Hólm Gunnarsson

Höfundur er formaður Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á Íslandi

Deildu