Minningargrein um ömmu mína Guðrúnu Tómasdóttur

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

01/11/2016

1. 11. 2016

Nú eru þau bæði farin. Afi Siggi lést 2014 og amma Gunna lést þann 20. október síðastliðinn. Þau voru ætíð ástrík og samrýmd og mínar fyrirmyndir í svo mörgu. Ég var svo heppinn að alast um tíma á heimili þeirra við Háaleitisbraut þegar ég var barn og mynduðust sterk kærleiksbönd okkar í milli sem héldu […]

Nú eru þau bæði farin. Afi Siggi lést 2014 og amma Gunna lést þann 20. október síðastliðinn. Þau voru ætíð ástrík og samrýmd og mínar fyrirmyndir í svo mörgu. Ég var svo heppinn að alast um tíma á heimili þeirra við Háaleitisbraut þegar ég var barn og mynduðust sterk kærleiksbönd okkar í milli sem héldu fram á síðasta dag. Ég leit ávallt á þau sem auka foreldra og verð þeim ævinlega þakklátur fyrir alla hlýjuna, gleðina og stuðningin sem þau veittu mér.

Sem betur fer fékk ég oft tækifæri til að segja þeim hversu mikið mér þótti vænt um þau og hversu djúpstæð áhrif þau höfðu á líf mitt og þroska.

Eftir að Bjartur minn Hólm kom í heiminn í júlí í fyrra fórum ég og Ragnheiður konan mín reglulega með hann og stóra bróðir í heimsókn og það brást ekki að hann ljómaði í hvert sinn. Hann sat í fanginu á henni glaður og dundaði sér við að skoða gleraugun hennar. Amma ljómaði auðvitað líka og tók honum ætíð fagnandi rétt eins og stóra bróðir hans, honum Birgi Orra stjúpsyni mínum. Ég er afskaplega þakklátur fyrir það að drengirnir mínir hafi fengið að kynnast ömmu Gunnu.

Amma mín var yfirleitt hress og lífsglöð fram á síðasta dag. Alltaf stutt í húmorinn og hlátur þó hún hafi í nokkur ár verið lögblind og lífið verið erfitt eftir fráfall afa. Að morgni 19. október veiktist hún skyndilega og lést um hálfum sólarhring síðar í faðmi fjölskyldunnar.

Ég kveð ömmu mína með sorg, en senn gleði, í hjarta. Takk amma mín fyrir að auðga líf mitt og gera mig að betri manneskju.

Að lokum læt ég fylgja lítið kvæði sem afi Siggi skrifaði og lýsir vel sambandi hans við ömmu Gunnu:

 „Ekkert betra ég álít hér,
einum góðum manni.
En eiga ást sem annar ber
og endurgjalda með sanni.“
Eftir: Sigurð Hólm Þórðarson

Sigurður Hólm Gunnarsson

Deildu