Ríkið í ríkinu – Þjóðkirkjan

Logo

02/04/2014

2. 4. 2014

Nú liggur fyrir til umsagnar tillaga að lagafrumvarpi til breytinga á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, með síðari breytingum (aukin verkefni kirkjuþings). Eftir lestur tillögunnar og laganna sem á að breyta sýnist mér að þarna sé um innri hrókeringar innan kirkjunnar sem færa fjármálavöldin frá biskupi yfir á kirkjuþingið. Sjálfstætt ríki í ríkinu […]

kirkja-folk-althingi

Nú liggur fyrir til umsagnar tillaga að lagafrumvarpi til breytinga á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, með síðari breytingum (aukin verkefni kirkjuþings).

Eftir lestur tillögunnar og laganna sem á að breyta sýnist mér að þarna sé um innri hrókeringar innan kirkjunnar sem færa fjármálavöldin frá biskupi yfir á kirkjuþingið.

Sjálfstætt ríki í ríkinu – himnaríki forréttindatrúarhóps

Það er talað um í útskýringum með tillögunni að þetta frumvarp sé liður í því að auka sjálfstæði Þjóðkirkjunnar. Hugum aðeins að því hvernig hægt er að mjólka kú án þess að eiga býlið sem hún tilheyrir. Hvernig getur félag verið stjórnskipulega frjálst og óháð ríkinu þegar það er á föstum fjárlögum þess og ber heitið „Þjóðkirkja“?  Slíkt er rökfræðileg mótsögn.

Það segir sig sjálft að aðili (hin evangelísk-lútherska kirkja) sem vill vera óháður einkaaðili en samt vera haldið uppi af ríkinu án þess að svara til ábyrgðar fyrir starfsemi sína, er að komast upp með stórkostlegt fjármálamisferli og ríkisstjórn sem slíkt samþykkir að gera sig seka um ábyrgðarlaus fjárútlát sem skapa misrétti og forréttindi fólks einnar trúarskoðunar.  Meirihlutarök er títt nefnd af guðfræðingum í fílabeinsturni Þjóðkirkjunnar – guðfræðideild HÍ, en sú mannréttindakrafa að allir þegnar hljóti jafna meðferð af hálfu ríkisvalds byggir á því að hún haldi fyrir alla einstaklinga óháð kynþætti, trú, lífsskoðun, stjórnmálaskoðun, stétt, kynhneigð og svo framvegis.

Ríkið kaupir með óendanlegri greiðslu

Jarðasamningarnir (1907 og 1997) þar sem kirkjan tvíseldi ríkinu jarðir (utan prestsetursjarða) ganga skammt upp í þau miklu verðmæti sem ríkið hefur greitt kirkjunni allar götur frá 1907.  Upplýsingar vantar um fjölda og verðmæti prestsetursjarða sem Þjóðkirkjan hefur haldið eftir en sé sú stærð látin liggja milli hluta er núvirði allra jarða Þjóðkirkjunnar (skv. uppreiknuðu verðmati frá 1984 (1.07 milljarður þá, skv. bókinni „Kirkjueignir á Íslandi 1597-1984)) upp á 11.1 milljarð króna (skv. verðbólgureikni sem byggir á vísitölu neysluverðs frá Hagstofu Íslands).  Ríkið greiddi Þjóðkirkjunni 3.6 milljarða (sjá skiptingu hér) árið 2012 þannig að það má sjá að það tekur ríkið bara um 4 ár að greiða upp verðmæti allra kirkjujarðanna, jarða sem hún fékk bara hluta af.  Svo á ríkið bara að halda áfram að borga út í hið óendanlega. Hver gerir slíkan „samning“ (afsöl hafa ekki fundist) með réttu ráði við nokkurn þjónustuaðila?

Ekki-þjóðkirkjan

Í Þjóðkirkjunni eru nú 75% landsmanna og hún þjónar ekki allri þjóðinni.  Á vefsíðu hennar er sagt að þjónusta hennar sé öllum opin og [menn] „eru ekki krafðir um trúarafstöðu“ en það er ekki nefnt að þjónustan sé aðeins á forsendum þess að prestarnir stýri ferðinni.  Hún hleypir ekki einstaklingum utan hennar eða öðrum trúfélögum í húsnæðisskorti í kirkjur sínar til að jarða fólkið sitt samkvæmt ákvörðun kirkjuþings Þjóðkirkjunnar árið 2011.  Dáið fólk, hvers forfeður frá 11. öld hafa greitt tíund til kirkjunnar, fær ekki inni í húsum hennar með veraldlegan athafnarstjóra sakir „rangrar“ félagsaðildar eða stöðu utan trúfélaga.  Um þetta eru mörg dæmi frá því að þessi regla var tekin upp.
Þjóðkirkjan er ekki að þjóna öllum landsmönnum og rís því ekki undir nafni né þeim skyldum sem ætla skyldi að svo ríkulegar greiðslur úr sjóði allra landsmanna, ríkiskassanum, leggðu á herðar hennar.  Það er í raun eðlilegt að evangelísk-lúthersk kirkja vilji bara þjóna sínu fólki og á sínum forsendum en  jafn óeðlilegt og frekt að ætlast til þess að öll þjóðin borgi laun og rekstur þeirrar sömu „sjálfstæðu“ kirkju og hún beri titilinn „þjóðkirkja“.   Fyrirbærið er úrelt því að nú er fólk ekki lengur nauðugt haldið í henni (líkt og var fram til 1874) og 25% landsmanna kjósa aðra kosti.

Tími til að rétta kúrsinn

Hægt og bítandi molnar undan bjargi „Þjóðkirkjunnar“ sem byggði 100% aðild landsmanna á valdabandalagi við konungsveldi miðalda og skoðanakúgun almennings.  Bannfæringar, galdrabrennur, útlegð, pyntingar, kvennakúgun, misskipting auðs, átthagafjötrar, helvítisótti og fleira var notað til að viðhalda valdinu.   Þetta er liðin tíð sem enginn vill hverfa aftur til en samt glímum við við leifarnar af þessari mjólkun og margir eru enn sem blindaðir af himnalofinu.  Prestar eru hátekjufólk sem væru á launum sem söfnuðir hefðu efni á, væru þeir fjárhagslega sjálfstæðir og upp á sjálfa sig komnir.  Prestar væru líka mun færri sem eðlilegt væri því að þjónusta þeirra er ekki það mikið notuð.  Kirkjur eru vinsæl tónleikahús og þar er tekjuleið fyrir kirkjuna stæði hún í fæturnar.  Fé ríkisins sem annars fer í laun og rekstur kirkjunnar á að fara í heilbrigðis- og öryggismál þjóðarinnar.  Við erum þjóð með æ fleiri aldraða einstaklinga og þjóð sem þarf æ meira fé í heilbrigðismál (og öruggar samgöngur).  Það þarf að forgangsraða og losa ríkið undan „skyldum“ sem til forna var þröngvað upp á það en eiga ekki heima lengur á herðum þess.

Það er kominn til að vakna til fullnustu út úr martröð hinna myrku miðalda.

Deildu