Lygin, lánin og launin

Logo

Viktor Orri Valgarðsson

Stjórnmálafræðingur við Félagsvísindastofnun HÍ og málefnastjóri Landssambands æskulýðsfélaga. Skrökva-ði og Þrasa-ði í Stúdentaráði og Morfís. Kvennskælingur að fornu og nýju. Lýðræðisvaktin, Hreyfingin, UJ, Píratar, SANS og Stjórnlagaþing. Áttavitinn, Hamragrill, DV og Skoðun. Frjálshyggju-krati, andfemíniskur femínisti, með og á móti ESB, realískur friðarsinni, frjálslyndur vinstri-maður, trúgjarn efahyggjumaður og óflokksbundinn framapotari... tek á móti fleiri skoðana-stimplum í athugasemdakerfinu.

02/04/2014

2. 4. 2014

Svo virðist sem listinn sé langur, yfir hugtökin sem teygja má sundur og saman eftir hentugleika í íslenskum stjórnmálum nútildags. Nú hef ég t.d. lengi skilið það sem svo að lygi sé það, þegar einhver fer vísvitandi með rangt mál. Þetta hefði ég haldið að væri tiltölulega skýrt. Óteygið, jafnvel. Tökum dæmi: Loforð og lygi Vissulega […]

Svo virðist sem listinn sé langur, yfir hugtökin sem teygja má sundur og saman eftir hentugleika í íslenskum stjórnmálum nútildags.

Nú hef ég t.d. lengi skilið það sem svo að lygi sé það, þegar einhver fer vísvitandi með rangt mál. Þetta hefði ég haldið að væri tiltölulega skýrt. Óteygið, jafnvel. Tökum dæmi:

Loforð og lygi

Sigmundur Davíð_Bjarni

Vissulega getur verið erfitt að sýna fram á að einhver fari vísvitandi með rangt mál, þó auðveldara sé að benda á rangfærslur. Menn geta skilið og túlkað hlutina á misjafnan hátt og stundum eru staðreyndir á reiki.

Til dæmis er enginn vandi að sýna fram á það að leiðtogar beggja ríkisstjórnarflokkanna hafi sagt í aðdraganda og kjölfar kosninga að þeir myndu boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið, en að þeir ætli sér það alls ekki í dag.

Það hefði á hinn bóginn kannski verið erfiðara að fullyrða að það hafi beinlínis verið lygi á sínum tíma, ef tekist hefði að sýna fram á að aðstæður hefðu breyst verulega síðan þau orð voru látin falla – og því „einungis“ um svik á loforðum að ræða. Því hefur hins vegar varla verið haldið fram af nokkrum manni, enda fátt ef nokkuð sem bendir til þess.

Einn ráðherra gerði að vísu (ó)heiðarlega tilraun til þess, þegar hann setti sig í stellingar John Maynard Keynes og sagði að staðreyndirnar hefðu breyst síðan loforðin voru gefin. Semsagt, sú staðreynd að hann væri núna kominn í ríkisstjórn. Með þeim flokki sem var langlíklegastur til samstarfs við hann, hafði sjálfur lofað þjóðaratkvæðagreiðslu en átti greinilega að hafa komið í veg fyrir að sá gæti staðið við eigin loforð –  kenning sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur raunar þvertekið fyrir.

Flestir hafa frekar gripið til þess ráðs að halda því fram að gefin loforð hafi ekki verið gefin, þau hafi verið óheppileg eða þau hafi þýtt eitthvað allt annað en orðin sem voru látin falla. Við svo búið er ekkert erfitt að slá því föstu að fyrirvaralaus loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu hafi ekki bara verið svikin, heldur hafi þau verið meðvituð lygi, því þeir sem lofuðu hafi aldrei ætlað sér að efna það.

Lygi um lygi um loforð

Þetta var auðvitað ekki eina loforðið sem gefið var í kosningabaráttunni vorið 2013. 

Þar tröllreið umræðunni loforð Framsóknarflokksins um lækkun skulda einstaklinga af verðtryggðum húsnæðislánum, sem fjármagna átti með þeim mikla fjársjóði sem vondu vogunarsjóðirnir liggja á eins og Fáfnir á gullinu í Gnitaheiði.

Tölur um umfang slíkrar leiðréttingar voru sannarlega nokkuð á reiki, en Seðlabankinn hafði reiknað út að leiðrétting á verðbólguhækkun tímabilsins sem um ræddi (2007-2010) myndi kosta á bilinu 200-260 milljarða. Formaður Framsóknarflokksins vísaði sjálfur í þær tölur, þegar hann sagði í viðtali við Fréttablaðið (bls. 32) að miðað við 20% leiðréttingu væru þetta 240 milljarðar, þó það væri „ekki endilega niðurneglt“.

Þráspurður í viðtali í Kosningasjónvarpi Rúv sagði hann síðan varðandi viðræður við kröfuhafa að „verulegt fjármagn verði eftir. Upphæðin á borð við þessa sem þú nefnir [300 milljarðar], jafnvel hærri […] Svoleiðis að spurningin er hvað á að gera við þá og ég get ábyrgst það að þetta fjármagn verður að nýta til þess að koma til móts við heimilin“.

Sigmundur Davíð_Bessastaðir

Eftir kosningar, og eftir að tillögur að skuldalækkunum höfðu verið kynntar, fór forsætisráðherra hins vegar mikinn í ásökunum í garð andstæðinga sinna um lygar og samsæri, fyrir að hafa nokkurn tímann gert sér þessar grillur í hug – þessar tölur hefði hann aldrei sagt og alltaf leiðrétt. Eftir að hafa verið bent á eigin orð þögnuðu þær ásakanir um stund, þar til aðstoðarmaður hans tók þær tvíefldur upp í pistli fyrir helgi – það er ekki lengur bara skrök og samsæri að benda á eigin orð valdhafa, heldur er það orðin „della“, „ótrúlega aumt“, „bein lygi“ og „rakalaus spuni“ sem „pólitískir andstæðingar“ grípa til þess að „koma höggi á ríkisstjórnina“. Það er aldeilis.

Söguskýringin til stuðnings þessum gífuryrðaflaumi er semsagt sú að fullyrt hafi verið að „upphæð á borð við 300 milljarða, jafnvel hærri“ fengist frá vogunarsjóðum, ábyrgst að það fjármagn yrði notað í skuldalækkun fyrir „heimilin“ (sem ég telst víst ekki vera hluti af, en það er önnur saga) en alls ekki að skuldir heimilanna yrðu lækkaðar um 300 milljarða. Ég segi nú bara ok.

Svona eins og ég get sagt að ég muni „nota 5000 krónur“ í gjöf handa þér ef þú gerir eitthvað fyrir mig, þú gerir það og ég gef þér 500 króna gjöf fyrir vikið, með því viðkvæði að ég hafi nú notað 5000-króna seðil til að borga fyrir hann.

Sigmundur Davíð hraðaksturMeð þessum herkjum og orðhengilshætti má kannski halda því fram að skilið hafi verið eftir „svigrúm“ fyrir að nota aðeins lítinn hluta upphæðarinnar í lækkun skulda, en það breytir því ekki að Sigmundur sjálfur nefndi 240 milljarða, gerði enga athugasemd við 300 milljarða-töluna og ábyrgðist fyrirvaralaust að það fjármagn yrði notað í skuldaleiðréttingar.

Kannski er vinur minn Jóhannes ósammála þeirri túlkun minni að með þessu hafi Framsókn verið að gefa kjósendum afar réttmætar og skýrar væntingar um skuldaleiðréttingu upp á 200-300 milljarða, sem varð að 80 milljörðum; hann gæti þá í hið minnsta viðurkennt eins og kollegar hans að þetta hefði nú mátt orða með öðrum hætti, þeir geti ekki fyllilega staðið við þessar væntingar o.s.frv…

En neinei. Ég er bara að ljúga.

Menn teygja semsagt lygina til og frá þegar hún er borin upp á þá, en eru óhræddir við að klína henni á aðra við minnsta tilefni.

Lán í óláni

Það er að vissu leyti sorglegt að svo mikil orka og umræða hafi farið í að benda stjórnarherrum stöðugt á þeirra eigin orð – það dregur athyglina frá efnislegri umræðu um þetta risastóra mál. Þó það sé vissulega huggun að ríkisstjórnin ætli ekki að eyða 200-300 milljörðum í skuldalækkanir – heldur „aðeins“ 80 milljörðum – þá er full þörf á því að ræða ágæti þeirra áforma.

Í raun eru alvarlegustu svikin nefnilega ekki upphæðin, heldur þau að peningagjöfin kemur ekki frá vondum vogunarsjóðum, heldur frá skuldurum sjálfum og öðrum íslenskum skattgreiðendum. Þar erum við að tala um bein útgjöld ríkissjóðs á kúpunni upp á tugi milljarða, vegna tiltekinna einkaskulda hluta þjóðarinnar.

Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert að leggja sérstakan skatt á þrotabú banka til að afla tekna fyrir ríkissjóð en sú aðgerð er tæknilega og röklega algerlega ótengd útgjöldum í verðtryggð húsnæðislán, þrátt fyrir að þetta tvennt sé kynnt á sama tíma. Það sama gildir um krónueignir kröfuhafa í þrotabúum bankanna; hvort sem við dettum í lukkupottinn þar eða ekki er vægast sagt umdeilanlegt að skynsamlegasta ráðstöfun þeirra ríkisfjármuna sé lækkun tiltekinna einkaskulda sumra Íslendinga.

Ríkissjóður skuldar nefnilega fáeina þúsundi milljarða á töluverðum vöxtum, sem hefur kostað ríkið um 7590 milljarða í vaxtagreiðslur árlega – við gætum því beinlínis sparað samfélaginu marga tugi milljarða á ári með því að greiða þær niður fyrr en ella. Milljarða sem mætti sömuleiðis nota í fjársvelt heilbrigðis- og menntakerfi, kjör láglaunastétta, lífeyrissjóði, hálf-gjaldþrota sveitarfélög, bætur og félagsþjónustu og/eða skattalækkanir.

Í stað þessa fara milljarðarnir í að greiða niður verðtryggð húsnæðislán þeirra sem voru með slík á árunum 2008-2009; 15% þeirra fara til heimila með yfir 12 milljónir í tekjur á ári og 40% til heimila með yfir 8 milljónir, meðalfjárhæðin sem rennur til hvers heimilis hækkar að jafnaði eftir því sem tekjur þess eru meiri. Fyrri aðgerðir (110% leiðin, vaxtabætur og sértæk skuldaaðlögun), sem beint var að þeim rúmlega 15.000 einstaklingum sem áttu í mestum skuldaerfiðleikum, dragast síðan frá þessum greiðslum. Það verður því seint sagt að þær séu til þess fallnar að auka jöfnuð eða koma til móts við þá sem verst standa vegna hrunsins.

Sáttmáli kynslóðanna

Síðast en ekki síst fara 65% fjárhæðarinnar til Íslendinga sem fæddir eru á árunum 1960-1990, og hlutfallið fer lækkandi fyrir þá sem fæddust eftir 1980. Kynslóðin sem fæddist milli 1960-1980 – kynslóðin sem Sigmundur, Jóhannes, Bjarni, Frosti og Vigdís eru öll af – og tók verðtryggð húsnæðislán í góðærinu, hefur semsagt tekið  „sameiginlega ákvörðun“ um að skattgreiðendur gefi þeim peninga. Skattgreiðendur eins og aldraðir, eignalausir, ungt fólk, öryrkjar, leigjendur og stúdentar sem fá lítið sem ekkert í sinn hlut og/eða geta orðið fyrir hækkun fasteignaverðs vegna aðgerðanna.

Þetta kynnir ríkisstjórnin síðan sem „sáttmála kynslóðanna“. Við barnabörnin höfum víst lítið um þann sáttmála að segja.

Fyrst ætlunin er augljóslega ekki að auka jöfnuð, hjálpa þeim sem eru í mestri neyð eða skapa ungu fólki bærilegri lífskjör til að vilja setjast hér að er því haldið fram að aðgerðirnar muni auka ráðstöfunartekjur fólks og þar með hagvöxt, án þess að auka verðbólgu. Vandinn er að aðrir matsaðilar, t.d. Seðlabankinn og IFS-greining, telja þvert á móti að aðgerðirnar muni að öllum líkindum ýta undir verðbólgu, veikja gengi krónunnar, hækka stýrivexti, skerða viðskiptajöfnuð, draga úr fjárfestingu og aðeins lítillega auka hagvöxt, ef aukin neysla beinist nægilega að innlendri vöru og þjónustu.

Á móti er sagt að séreignarsparnaðar-leiðin, hinn hluti „leiðréttingarinnar“ – sem gerir fólki kleift að nota séreignarsparnað sinn skattfrjálst í að greiða niður húsnæðislán eða safna fyrir íbúðakaupum – muni hvetja til sparnaðar, vegna þess að hún gerir ráð fyrir samhliða hækkun framlags launþega til sparnaðarins frá 2% upp í 4%. Það er líklega rétt, þó alls óvíst sé hversu margir fara þá leið og því hve mikil þau áhrif verða. Mat Seðlabankans á verðbólguáhrifum stendur amk. þrátt fyrir hana.

Varðandi þá leið er annars minna að segja, þar sem sá valkostur launþega að nýta séreignasparnað skattfrjálst í niðurgreiðslu húsnæðisskulda er góðra gjalda verður, þó þeir sem nýta hann séu um leið að skerða lífeyri sinn til elli-áranna. Því ber líka að halda til haga að þessi leið er fjármögnuð af skuldurunum sjálfum, þó ríkið verði af skatttekjum sem ella hlytist af séreignarsparnaðinum í framtíðinni, sem og tekjuskatti sem ella hefði verið innheimtur af þessum auka 2% tekjum – 4% í tilfelli þeirra sem annars hefðu ekki verið með séreignarsparnað.

Hvaða réttlæting stendur þá eftir fyrir þessum fáránlega fjáraustri ríkisins á þessum síðustu og verstu? Jú, sanngirnis-málið mikla: stóri Forsendubresturinn.

Forsendubresturinn laun

Þar sem 80 milljarða millifærsla fjármuna frá ríkinu (almenningi) til niðurgreiðslu einkaskulda tiltekinna hópa stuðlar hvorki að jöfnuði né bætir kjör þeirra verstu og hefur vafasöm og óræð efnahagsleg áhrif er erfitt að skilja hvað í dauðanum vakir fyrir stjórnvöldum við svo búið. Réttlætingin er þá sögð byggja á eftirfarandi sanngirnisrökum:

Aðgerðin er sumsé söguleg leiðrétting þess óréttlætis sem fólst í svokölluðum „forsendubresti“ á árunum 2007-2010, sem felst í því að verðbólga hrun-áranna var mun meiri en við hefðum búist við og vonast eftir – og höfuðstóll verðtryggðra húsnæðislána hækkaði í samræmi við það. Þar sem þessi verðbólga er sögð hafa verið alfarið gömlu bönkunum að kenna (sem er nokkur einföldun) er talið eðlilegt að sækja fé til leiðréttingarinnar í þrotabú þeirra. Það er aukinheldur sett í samhengi við það að með neyðarlögunum hafi eignir (innistæður) fólks verið varðar en skuldirnar skildar eftir; þar hafi glatast gullið tækifæri sem nú eigi að bæta upp fyrir – „hin hliðin“.

Fyrir það fyrsta voru innistæður varðar með því að gera þær að forgangskröfum í þrotabú gömlu bankanna, en lánasöfn þeirra og þar með skuldir einstaklinga voru áfram stjórnarskrárvarin eign þrotabúanna, ekki ríkisins. Sá forgangur var nauðsynlegur upp á að verja grundvöll daglegs lífs og neyslu Íslendinga á þessum dögum og sem vörn gegn áhlaupi á bankanna. Að hann skapi ríkinu einhvers konar skyldu til að færa niður tilteknar skuldir einstaklinga við þessi þrotabú nokkrum árum síðar er vægast sagt hæpin röksemdafærsla.

Í öðru lagi varð auðvitað enginn forsendubrestur á verðtryggðum húsnæðislánum á þessu tímabili; sú forsenda að krónutala höfuðstólsins hækki í samræmi við verðlag liggur beinlínis í eðli þeirra og enginn getur gefið sér sem forsendu hvernig verðbólga verður til framtíðar, hvað þá að bankastofnanir geti borið ábyrgð á því gagnvart lántakendum sínum. Verðtryggð lán gefa sér enga vissu um verðbólguna heldur þvert á móti „… virkar verðtryggingin sem vörn gegn óvissu um þróun verðbólgu á tímabilinu sem um ræðir.“ eins og segir á heimasíðu Landsbankans.

Þetta þýðir aðeins það að verðtryggingin heldur verðmæti – eða raunvirði – höfuðstólsins stöðugu yfir tíma; þó lántakendur borgi fleiri krónur borga þeir sama virði – sama hluta kaupmáttar síns – til skuldarinnar og áður. Þau hækka ekki í raun, heldur haldast í samræmi við verðlag.

Því þarf ekkert að leiðrétta við verðtryggð húsnæðislán sem hafa haldið virði sínu í gegnum verðbólgu. Það sem fólk finnur harðast fyrir, og er raunverulegt vandamál, er annars vegar það að fasteignaverð hrapaði gífurlega í hruninu eftir bólu undanfarinna ára og hins vegar það að laun og kjör almennings héldust ekki í hendur við almenna hækkun verðlags í kreppunni.

Hið fyrra hefur í för með sér að þau sem keyptu fasteign í bólunni horfa fram á mun minna raunvirði þeirra í dag, eftir að bólan sprakk, á meðan skuldir og önnur útgjöld haldast að sama raunvirði.  Þó það sé erfitt og vont er hins vegar afar hæpið að kalla það forsendubrest þegar eignir falla í verði, sérstaklega ef þær eru keyptar á þensluskeiði, það er einfaldlega virkni markaðssamfélagsins. Út frá velferðarsjónarmiðum er auðveldlega hægt að styðja að komið verði til móts við þá sem komu verst út úr þessari þróun og/eða eiga í mestum greiðsluerfiðleikum, líkt og reynt var með sértækum úrræðum á síðasta tímabili, en þeirri leið hafnaði Framsókn alfarið eins og frægt er orðið.

Grundvallarvandinn er síðan sá að verðtrygging miðar ekki við laun heldur við neysluverðlag, sem fer jafnan fram úr launum og merkir að stærri hluti tekna almennings fer í útgjöld að sama raunvirði og áður, þ.e. kaupmáttur minnkar. Þetta hefur gífurleg áhrif á kjör alls almennings, alls ekki bara þeirra sem eru með verðtryggð húsnæðislán. Þeir sem ekki kusu að verja hluta tekna sinna í niðurgreiðslu húsnæðisskulda verja þeim jafnan í eitthvað annað, sem þá hefur sömuleiðis hækkað í verði gagnvart launum þeirra. Í stuttu máli liggur skekkjan ekki í því að útgjöld til skulda skuli haldast í hendur við verðlag – vegna þess að hérumbil öll útgjöld gera það – skekkjan liggur í því að laun almennings hafa ekki haldist í hendur við verðlag.

Þegar við höfum rakið okkur þannig að rótum forsendubrestsins mikla er því athyglisvert að horfa upp á ríkisstjórnina ausa 80 milljörðum í að lækka höfuðstól lána – sem hækkuðu að krónutölu eins og þau áttu að gera – á sama tíma og kjarasamningar um allt land og við alla kennara landsins eru í ógöngum, ótal verkföll ýmist hafin eða yfirvofandi og kjör stúdenta og annarra þjóðfélagshópa skert verulega.

Ef við viljum tala um hrunið og verðbólguna sem forsendubrest er það sjálfsagt mál mín vegna; þá verðum við hins vegar að skilja nákvæmlega hvað felst í honum og leiðrétta það með því að leiðrétta kjör almennings – ekki með þeim sértækt almennu og rándýru sýndaraðgerðum fyrir millistéttina sem ríkisstjórnin hefur boðað.

Í stuttu máli

Þó loforð hafi augljóslega verið svikin þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB er erfiðara að fullyrða það um upphæð skuldaniðurfærslunnar; hins vegar er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn gaf tölum á bilinu 200-300 milljarðar undir fótinn í kosningabaráttunni og kjósendur meðtóku það. Að saka menn um lygar, spuna og rakalausa dellu fyrir að benda á það er til marks um nokkra örvæntingu í herbúðum stjórnarinnar.

Það er sömuleiðis ljóst að fjármagnið til leiðréttingarinnar átti að koma frá vogunarsjóðum, ekki frá íslenskum skattgreiðendum. Þó millifærslan sé minni en búist var við er auk þess mjög mikilvægt að gagnrýna hana; þar sem hún stuðlar ekki að jöfnuði, kemur lítið eða ekki til móts við þá verst stöddu, hefur vafasöm áhrif á efnahaginn og byggir á grundvallarmisskilningi á eðli verðtryggingar og því hvaða afleiðingar verðbólgunnar er brýnast að koma til móts við. Miklu nær væri að aðstoða þá einstaklinga sem eiga í mestum skulda-erfiðleikum og verja fé ríkisins í að greiða niður skuldir þeirra, halda velferðarkerfinu við og hækka laun í landinu sem hafa engan veginn haldist í hendur við verðlag – sem er hinn raunverulegi forsendubestur.

Þess í stað skal sturta 80 milljörðum úr ríkissjóði yfir tiltekna þjóðfélagshópa, til ímyndar-efnda ævintýralegra kosningaloforða og friðþægingar Framsóknarkjósenda. „Um það má endalaust deila“ – og skárra væri það nú.

Deildu