Nú vill Viðskiptaráð að rukkuð verði hærri skólagjöld í Háskólum. Sú tillaga gengur ekki alveg upp án þess að auka upplýsingagjöf til nemenda um fjárhagslegan ábata af námi. Vandinn er að háskólanám líkist meir og meir pýramídasvindli með hverju árinu sem líður. Skólagjöld eru liður í því að auka væntingar til svindlsins.
Vitanlega er gott að mennta sig, læra eins mikið um lífið og tilveruna og hægt er. Flestir sem stunda nám og taka til þess há námslán og borga há skólagjöld gera þó ráð fyrir því að menntun þeirra skili þeim mun hærri tekjum seinna á lífsleiðinni. Í sumum greinum er það vissulega staðreynd, í öðrum alls ekki.
Sífellt eru gerðar meiri kröfur um lengra nám. Enginn er maður með mönnum nema að vera að minnsta kosti með eina mastersgráðu. Þessi gríðarlega mikla áhersla á langt formlegt háskólanám gerir það að verkum að verðbólga verður á námsmarkaðinum. Hvert ár í skóla, hver gráða, verður minna og minna virði. Með öðrum orðum þarf sífellt lengra nám til að fá sömu tekjur. Ástæðan er sú að svo margir eru komnir með háskólapróf að vinnumarkaðurinn er að drukkna í háskólamenntuðu fólki, með nánast enga starfs- eða lífsreynslu, sem gerir kröfur um há laun og góðar stöður sem ekki eru til.
Nánast enginn vill borga sumu háskólamenntuði fólki góð laun. Sérstaklega ekki þeim sem vinna með öðru fólki (sjá um aldraða, börn, fatlaða o.s.frv.). Í þeim stéttum efast ég stórlega um að mjög langt nám fjármagnað með námslánum og háum skólagjöldum borgi sig fjárhagslega.
Ég legg til að einhver reikni út hver fjárhagslegur ábati er af námi eftir námsgreinum, ef hann er þá einhver. Hversu mikið þarf einstaklingur að hækka í launum eftir nám til að bera kostnaðinn við námið? Þá þarf að reikna hvert tekjutapið er út námstímann (einstaklingur í fullu fimm ára námi ætti að vera tekjulaus á tímabilinu), kostnað vegna námslána, kostnað vegna skólagjalda og annarra útgjalda (tölvur, bækur o.s.frv). Eðlilegt neytendasjónarmið væri svo að skylda háskólana og LÍN til að birta niðurstöðurnar í öllum kynningarbæklingum sem þeir gefa út. Án slíkra grunnupplýsinga getur ungt námsfólk varla tekið skynsamlega ákvörðun um námsleið. Flestir gera, skiljanlega, ráð fyrir að hár kostnaður og þá sérstaklega há skólagjöld merki sjálfkrafa að ábatinn af náminu sé mikill.
Einhvern veginn efast ég stórlega um að fólk í heilbrigðis-, mennta- og félagslega geiranum sé að „græða“ mjög mikið á löngu námi. Þá er nú um að gera að hækka skólagjöldin hressilega.